21.04.1980
Efri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

147. mál, innflutningur á skipi

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að leyfa útgerðarfélaginu Nirði hf., Sandgerði, innflutning á skipi. Hér er um að ræða skipið Hamravík KE 75, en í stað þess skips er ráðgert að selja úr landi annað skip, Blika ÞH 50. Það skip má segja að sé þriðji ættliður í þessum útflutningi skipa. Hamravík KE 75 var seld í skiptum fyrir togskipið Júlíus Geirmundsson sem seldur hafði verið úr landi fyrir nýtt skip með sama nafni sem til Ísafjarðar kom. Heimild var veitt af fyrrv. sjútvrh. til þess að Júlíus Geirmundsson yrði seldur til Keflavíkur og Hamravík KE 75 flutt út í staðinn. En varla hafði sú ákvörðun verið tekin þegar raddir hófust um það, að Hamravík KE 75 væri hið besta vertíðarskip og ófært að flytja svo ágætt skip úr landi. Niðurstaðan varð sú, að á þetta var fallist og ákveðið, eins og ég sagði áðan, að Bliki ÞH 50 færi þá út í staðinn. Vandkvæðin á þessu eru hins vegar þau, að Hamravík KE 75 er orðin 12 ára gamalt skip og lög nr. 521970 kveða svo á, að óheimilt sé að flytja inn í landið og skrá svo gamalt skip án þess að heimild Alþingis komi til.

Ég taldi rétt að verða við þessari beiðni og þótti rök, sem að þessu hníga, slík að það væri eðlilegt, enda mælt með því af siglingamálastjóra að þetta sé gert. Hann hefur að sjálfsögðu skoðað skipið og dæmt það ágætt skip og vel hæft til notkunar hér á landi.

Eins og fram kemur í aths. hefur viðskrn. heimilað lán að upphæð 1 millj. norskar kr. til þess að brúa þann mismun sem þarna er á. Þetta lán verður greitt á einu ári og því ekki um langtímalán svonefnd að ræða.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta frv. nema hér komi fram sérstakar spurningar, en leyfi mér að mæla með því, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.