21.04.1980
Efri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

147. mál, innflutningur á skipi

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er gömul saga að endurtaka sig. Nú er flutt sérstakt frv. um það, að leyft verði að flytja bátinn Hamravík til landsins gegn því að annar bátur, Bliki, verði fluttur úr landi. Hvað gerist svo næst í því máli? Hvaða bátur á að fara úr landi í staðinn fyrir Blika og þannig koll af kolli?

Ég held að það ætti að vera öllum hér inni ljóst hvernig skipti af þessu tagi hafa gerst. Það hefur verið skipt aftur og aftur, og á endanum hafa það verið smápungar sem hafa verið fluttir út.

Mér var það ljóst, þegar ég var sjútvrh., að þetta gæti ekki gengið til svona, það yrði að spyrna við fótum. Jafnvel þó menn töluðu um að ófært væri að flytja ágætt skip úr landi, þá væri hér verið að skapa vítahring sem stækkaði skipastólinn. Þess vegna greip ég til aðgerða til að stöðva þessa vitleysu. Sá leikur hafði verið leikinn, að þó að skip ættu að heita flutt úr landi voru þau ekki afmáð af skipaskrá. Það kostaði þó nokkra fyrirhöfn að sjá til þess að þessum formsatriðum væri fullnægt. Það tókst að því er varðar það skip sem hér um ræðir, Hamravíkina, og það er einmitt af þeim sökum sem hér er flutt sérstakt lagafrv. um þetta efni og er nýmæli vegna þess að hingað til hafa ráðh. getað afgreitt þetta að eigin geðþótta.

Hitt er rangt, sem kom fram í máli hæstv. sjútvrh., að siglingamálastjóri —samkv. því fskj. sem hér fylgir með — mæli með innflutningi skipsins. Þess er hvergi getið í því fskj., að hann mæli með innflutningi skipsins.

Nú á sem sagt að halda áfram að leika þann leik sem hefur verið leikinn að undanförnu, að leyfa innflutning á skipum að nýju eftir að þau hafa verið flutt út, sem endar venjulegast á því, að það er einhver ónýtur smákoppur sem telst hafa farið úr landi.

Ég held að það sé ákaflega óviturleg ákvörðun sem hæstv. sjútvrh. hefur tekið, að opna að nýju fyrir innflutning á fiskiskipum erlendis frá. Ég tel að þetta sé flaustursleg og vanhugsuð ákvörðun sem muni hefna sín. Ekki síst held ég að þetta sé varasamt vegna þess að með þessari ákvörðun muni skriða verða sett af stað. Það er víða sem menn leita eftir endurnýjun á skipum erlendis frá. Ég held ég muni það rétt, að það hafi legið um 20 umsóknir fyrir í rn. um þetta efni á sínum tíma. Og hvar á að draga markalínu? Hvers vegna ættu Reyðfirðingar frekar að fá skip en Ísfirðingar, hvers vegna Eskfirðingar en ekki Vestmanneyingar? Ég er hræddur um að þessa markalínu verði erfitt að draga.

Við búum einfaldlega við þær aðstæður, að togurum eru bannaðar þorskveiðar í 80–100 daga á ári. Loðnuskipaflotinn lýkur verki sínu á 4–5 mánuðum. Síldveiðar eru skammtaðar. Það er talað um verkefnaskort hjá flotanum. Ekkert sýnir betur en þetta að flotinn er of stór miðað við þann afrakstur sem við getum tekið úr fiskistofnunum í kringum landið. Sérhver viðbót við flotann mun þannig einungis auka á skömmtun og rýra afkomu sjómanna og útvegsmanna og þar með þjóðarinnar allrar. Við þessar aðstæður getur ekki verið skynsamlegt að stækka flotann. Við þessar aðstæður getur ekki verið skynsamlegt að leyfa innflutning á fiskiskipum

Menn geta líka haft það til viðmiðunar, að á s. l. ári voru þorskveiðar bannaðar í um 100 daga. Ef togaraflotinn væri 60 skip í staðinn fyrir þau 80 skip sem hann er, þá hefðu þessi skip, miðað við sömu forsendur, getað stundað veiðar því sem næst allt árið, en 100 skip þyrftu hins vegar að vera frá þorskveiðum í u. þ. b. hálft ár miðað við svipaðar aðstæður.

Í fiskiskipaáætlun Framkvæmdastofnunar ríkisins er talið að úrfall, þ. e. skipstapar og skip dæmd ónýt og óviðgerðarhæf, — úrfall á fiskiskipum verði að jafnaði 1700 brúttórúmlestir á ári næstu árin. Nýsmíði og skipakaup mega því aðeins nema 1700 brúttórúmlestum á ári til þess að viðhalda óbreyttri stærð skipastólsins. Sem stendur er talið að innlend skipasmíði muni afkasta um 2000 brúttórúmlestum á ári, og margir telja æskilegt að auka þessa afkastagetu upp í t. d. 3000 brúttórúmlestir eða meira. Af þessu ætti að vera fullljóst að innlend skipasmíði gerir meira en að mæta venjulegri úreldingu flotans miðað við núverandi smíðaafköst, hvað þá ef afkastageta smíðastöðvanna er aukin samkv. þeim óskum sem uppi eru.

Þessu til viðbótar má reyndar benda á það, að á grundvelli fyrri ákvarðana um skipainnflutning mun hann nema a. m. k. 1000 lestum á þessu ári. Það er því ljóst, að endurnýjunarþörf fiskiskipastólsins verður meira en mætt á þessu ári og jafnvel hinu næsta, þó enginn frekari innflutningur komi til, og skipastóllinn mun þegar af þeim sökum frekar vaxa heldur en hitt. Þess vegna er fyllilega ástæða til þess að staldra við og hleypa ekki nýrri gusu inn í landið, vera ekki að leyfa skipainnflutning, hvorki með einum né öðrum hætti, og þá auðvitað allra síst eftir því frv. sem hér liggur fyrir.

Nú hef ég séð það einhvers staðar, að Steingrímur Hermannsson, hæstv. sjútvrh., hafi haldið því fram, að úr því að skip fari úr landi í stað innflutts fiskiskips, þá muni skipastóllinn ekki vaxa. Það frv., sem hér er flutt, bendir ekki til þess að það sé hugmyndin að halda sig strangt við þær reglur, og samkv. því mun skipastóllinn vaxa þegar af því máli einu. Það gæti auðvitað verið rétt, að skipastóllinn mundi ekki vaxa við aðgerðir af þessu tagi og samkv. þessum reglum ef engin skipasmíði væri innanlands. En málin horfa öðruvísi við þegar tekið er tillit til innlendu skipasmíðarinnar, hvað þá ef lítið er á það sem stefnumið að efla innlenda skipasmíði, eins og margir telja æskilegt og m. a. s. núv. ríkisstj. telur stefnuatriði og er reyndar eitt af því fáa sem skýrt og skilgreint er og skiljanlegt í málefnasamningi ríkisstj.

Ef smíðaðar eru 1700 brúttórúmlestir, sem er nálægt núverandi afköstum, svarar það til allrar úreldingar eða úrfalls úr flotanum og hann mundi af þeim sökum standa stærðarlega í stað, en þá vex hann sem innflutningi nemur. Ýmsir hafa áhyggjur af að innlenda skipasmíðin mæti ekki úrfalli skip fyrir skip eða stað fyrir stað. Það vandamál leysist auðvitað með öðrum hætti og með því að skip ganga kaupum og sölum. Hins vegar er ljóst að innflutningur mun draga úr verkefnum fyrir innlenda skipasmiði ef halda á óbreyttri stærð skipastólsins, því að í innflutningnum felst endurnýjun sem dregur úr úreldingu flotans. Óbreytt stærð skipastólsins og innflutningur getur því að eðlilegum hætti ekki þýtt annað en samdrátt í innlendri skipasmíði í stað þeirrar eflingar hennar sem oft er höfð á orði. Það er fyllilega ljóst, að ekki er hægt að samræma þau markmið að efla innlenda skipasmíði og leyfa innflutning á fiskiskipum. Sú leið, sem fær er til þess að halda óbreyttri stærð skipastólsins, er að láta innlendu smíðina mæta úreldingunni. En hver sá innflutningur sem leyfður er verður annaðhvort til þess að draga úr verkefnum hjá skipasmíðastöðvunum eða stækka flotann.

Það er e. t. v. ekki úr vegi að skýra þetta nánar með einföldu dæmi. Við skulum gera ráð fyrir að til sé tiltekið lítið pláss þar sem eru þrír útvegsmenn, sem eiga þrjú fiskiskip og jafnframt sé þar starfandi ein skipasmíðastöð. Til að einfalda málið getum við gert ráð fyrir að úrelding fiskiskipaflotans svari til eins fiskiskips á ári og afköst skipasmíðastöðvarinnar séu líka eitt fiskiskip á ári, þannig að það svari beint til úreldingarinnar. Ef í þessu plássi er fylgt þeirri reglu að enginn innflutningur eigi sér stað frá stöðum utan þessa pláss, þá helst stærð skipastólsins óbreytt. Smíðin mætir endurnýjunarþörfinni. Það getur gerst með þeim hætti, að nýsmíðin sé einmitt til að mæta því skipi sem úreldist hverju sinni. En það getur líka gerst þannig, að einhver annar útgerðarmaður með nýlegra skip láti smíða fyrir sig og svo selji hann þetta skip sitt útgerðarmanninum sem á skipið sem úreldist. Lítum hins vegar á þetta sama pláss með þessum sömu þremur bátum og sömu þremur útgerðarmönnum og einni skipasmíðastöð, sem svarar einmitt til úreldingarinnar að afköstum, nema hvað nú er fylgt þeirri nýju reglu, að innflutningur sé leyfður frá öðrum plássum, og sú regla látin gilda, að skip skuli flutt út í stað innflutts skips. Segjum nú sem svo, að „ríki útgerðarmaðurinn“ kaupi skip erlendis frá og flytji út miðaldra skip. Þá segja menn að engin viðbót hljótist af því. En það er vert að gæta betur að. Skipið, sem úreldist, verður að endurnýja. Ef það er innflutt er skipasmíðastöðin þegar verkefnalaus ef stærð flotans á að vera óbreytt. En hvort sem skipasmíðastöðin fær verkefni eða ekki, þá eru nú tvö ný skip í flotanum og eitt sem úreldist árið eftir. Strax á þriðja ári hefur flotinn yngst svo að ekkert skip úreldist. Annaðhvort er stöðin þá verkefnalaus eða flotinn stækkar sem afköstum skipasmíðastöðvarinnar nemur.

Það gæti líka verið um að ræða þá aðferð, sem hæstv. sjútvrh. leggur til hérna og hefur viðgengist, að „ríki útgerðarmaðurinn“ skipti á skipinu, sem hann átti að flytja út, við þann næstríkasta og þannig koll af kolli, og sá fátækasti með úrelta skipið kaupi af þeim næstfátækasta og endurnýi þannig hjá sér. Hvar stendur þá skipasmíðastöðin ef stærð flotans á að vera óbreytt? Hún er verkefnalaus. Hún er gjörsamlega verkefnalaus.

Það er alveg sama hvernig á þetta mál er litið. Þau markmið verða ekki samrýmd að halda uppi innlendum skipasmíðaiðnaði með jafnmiklum eða meiri afköstum en svarar til endurnýjunarþarfa flotans og að leyfa innflutning á fiskiskipum. Með þeirri stefnu, sem hér hefur verið tekin upp af hálfu ríkisstj., er því annaðhvort verið að ráðast gegn því stefnumiði sem fram er talið í stefnuskrá ríkisstj., að efla innlendan skipasmíðaiðnað, það er beinlínis verið að rýra stöðu hans, ellegar þá að hugmyndin er að stækka flotann og rýra afkomu sjómanna og útvegsmanna og þjóðarbúsins alls.