21.04.1980
Efri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

147. mál, innflutningur á skipi

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég er því miður ekki með upplýsingar um þetta í smáatriðum, en ég hygg að umsóknir séu álíka margar og voru hjá hæstv. fyrrv. sjútvrh., í kringum tuttugu. Og satt að segja vekur það furðu manns, að á sama tíma og líklega þarf að auka skraptíma togara og skerða þannig verulega afkomu þeirra skuli svo margir leita eftir viðbótarskipum, á sama tíma jafnframt og a. m. k. 30 togarar eru í slíkum vanskilum að þá ætti að gera upp samkv. venjulegum reglum. En það er rétt, að ásóknin er gífurlega mikil. Að vísu er þarna um ýmis sérveiðiskip að ræða. T. d. er mjög mikil ásókn í rækjutogara víða frá. Menn telja að það séu vænlegar veiðar. Hitt er svo staðreynd í því sambandi, að nú mun aukast töluvert sókn í djúprækju og m. a. stærri skip hefja slíkar tilraunir, þannig að fiskifræðingar telja mjög vafasamt að þar sé af nokkru til viðbótar að taka, a. m. k. á meðan ekki hafa náðst samningar við Efnahagsbandalagið um veiðar Grænlandsmegin miðlínu út af Vestfjörðum.

Einnig liggja fyrir umsóknir um skip frá stöðum sem eru í nokkurri sérstöðu, eins og t. d. Þórshöfn, þar sem horfir á ný til mikilla vandræða í atvinnumálum, því að samningur, sem gerður var við ákveðið útgerðarfélag um löndun þar, hefur ekki verið haldinn, langt frá því, og standa nú væntanlega fyrir dyrum málaferli út af þeim samningsbrotum. Fleiri staðir eru slíkir sem af byggðaástæðum eru mjög hart keyrðir og þarf einhvern veginn að tryggja afla.

Ég vil upplýsa að lokum, að ég er nú að skipa vinnuhóp til að athuga þessi mál enn einu sinni í heild sinni, bæði þörf á endurnýjun, þörf á stærð flotans fyrir hinar ýmsu veiðar, endurnýjunarmöguleika innanlands, möguleika á raðsmíði innanlands, og gera samanburð á kostnaði við smíðar innanlands og erlendis. Þetta starf mun verða unnið af mönnum frá sjútvrh., iðnrh., LÍÚ, Félagi dráttarbrautaeigenda og fleirum. Það er von mín, að með því verði dregið saman nokkuð heilsteypt yfirlit yfir stöðu og þörf og jafnframt hvort í einhverjum einstökum tilfellum eða við einhverjar sérstakar aðstæður komi til greina að veita undanþágu frá þeirri meginreglu, að skipastóllinn stækki ekki frá því sem nú er, en sá er vitanlega vandinn.