21.04.1980
Efri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

147. mál, innflutningur á skipi

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Auðvitað skildi hæstv. sjútvrh., Steingrímur Hermannsson, dæmið sem ég fór með hér áðan, þó að hann þættist ekki gera það. Hverjum manni er auðvitað augljóst að ef afköst skipasmíðastöðvanna eru meiri en úreldingin hér innanlands, þá vex skipastóllinn frekar af þeim sökum heldur en hitt. Innflutningur á fiskiskipum getur ekki þýtt nema annað tveggja: að dregið sé úr verkefnum frá smíðastöðvunum ellegar að skipastóllinn vaxi, nema hvort tveggja sé. Svo einfalt er þetta.

Ráðh. furðaði sig á því, að margir leituðu eftir því að kaupa skip, jafnvel þótt þeir væru í vanskilum og þó að skrapdagar væru margir. En þetta er nú einu sinni eðli málsins, og það var m. a. þess vegna sem mér sýndist nauðsynlegt að spyrna svo fast við fótum sem unnt væri til þess að hafa hemil á stærð skipastólsins. Þarna giltu sem sagt ekki þau venjulegu lögmál um arðsemi sem gilda annars staðar. Sannleikurinn er nefnilega sá, að þessi grein hefur tilhneigingu til þess að éta yfir sig. Og það, sem er hagur eins, þarf ekki að fara saman við hag heildarinnar, heldur þvert á móti getur verið ábatavænlegt fyrir útgerðarmann að auka við hjá sér, en það verður þá á kostnað hinna og á kostnað heildarinnar, þegar þær auðlindir, sem af er að taka, eru takmarkaðar. Og í þessu dæmi er augljóst að stækkun skipastólsins getur ekki orðið til neins annars en að rýra afkomu sjómanna og útvegsins og reyndar þjóðarbúsins alls.

Nú talaði hæstv. sjútvrh. um að þær reglur, sem hann hefði sett, ættu að tryggja það betur að skip fari úr landi en áður hefði verið. En svo er fyrsta dæmið, sem hann kemur með hingað til okkar, einmitt undantekning frá reglunni. Þetta er álíka kenning og sú sem ríkisstj. boðar nú í sambandi við niðurtalningu verðbólgunnar, að það verði að hleypa fram hjá fyrst, hún geti ekki komið sér í verkin. Hvað skyldi hún þurfa að hleypa oft fram hjá áður en hún kemur sér í stefnumiðin? Það, sem ríkisstj. átti auðvitað að gera og hæstv. sjútvrh., var að nota það færi, sem þarna hafði gefist til að taka á þessu máli, og halda fast utan um það. Það var athyglisvert að heyra hæstv. sjútvrh. lýsa því yfir, að auðvitað ykist sóknarkrafturinn ekkert vegna innflutnings á fiskiskipum, en ef það væri innlend smíði, þá mundi sóknarkrafturinn vaxa. Þetta finnst mér aldeilis fráleitt. Og hvernig ætlar ráðh. að sameina þessi markmið, að hafa óbreytta stærð skipastóls, leyfa innflutning á fiskiskipum og efla innlendan skipaiðnað? Þetta dæmir gengur ekki upp, svo einfalt er það.

Ég held að það sé líka vantraust á innlenda skipasmíði að halda því fram, að tækninýjungar geti ekki komið í gegnum hana, heldur verði endilega að sækja þær til útlanda: Spánar, Portúgals eða Noregs. Það skyldi þó ekki vera að það væri einhver tækniþekking á þessu sviði hérna hjá okkur líka? Og það væri þá nær að standa svo við bakið á skipasmíðastöðvunum að þær gætu enn frekar tileinkað sér tækninýjungar, en héngu ekki á horriminni eins og hefur oft viljað brenna við undanfarið.

Ég held að hér sé farið inn á mjög hættulega braut. Það er augljóst, að innflutningurinn mun annaðhvort draga úr verkefnum fyrir innlenda skipasmíðina ellegar stækka skipastólinn, nema hvort tveggja sé. Þær reglur, sem ráðh. hrósar sér af, munu ekki duga neitt gegn þeim þrýstingi sem hér er uppi, ég spyr nú ekki um ef aðferðin á ævinlega að vera sú að hleypa svo framhjá eins og það frv. gerir ráð fyrir sem hér er flutt.