21.04.1980
Efri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

154. mál, Bjargráðasjóður

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að verkefni Bjargráðasjóðs hafa aukist gífurlega á undanförnum árum. M. a. eru ástæðurnar þær, að menn hafa orðið fyrir mjög miklum skakkaföllum í landbúnaði vegna harðinda og einnig hefur komið til greiðslu bóta vegna tjóna af völdum hafíss og þar fram eftir götunum.

Ég er hér með í höndum bréf frá stjórn Bjargráðasjóðs, dagsett 5. febr. á þessu ári, og þar segir að stjórn Bjargráðasjóðs hafi samþykkt að óska eftir því, að lögum sjóðsins verði breytt til að efla hann og auka tekjur hans. Og hér er áætlun um það, hvað þetta mundi efla sjóðinn mikið. Samkvæmt þeim breytingum, sem stjórn Bjargráðasjóðs hefur óskað eftir, yrðu framlög sveitarfélaga 300 kr. á íbúa og næmu 67 millj. kr. Hlutdeild í búnaðarmálasjóðsgjaldi yrði 0.6% og það gerði 250 millj. kr. á níu mánuðum ársins. Mótframlag ríkissjóðs yrði þá 317 millj. kr.

Í þessu bréfi, sem er til fjvn., óskaði stjórn Bjargráðasjóðs eftir verulega auknum fjárveitingum fram yfir þetta. En niðurstaðan varð sú, að fjárframlög til Bjargráðasjóðs voru skorin niður eins og til annarra sjóða og eru aðeins 125 millj. kr. í staðinn fyrir að stjórn sjóðsins óskaði eftir 392 millj. kr. framlagi til þess að geta sinnt þeim brýnu verkefnum sem hafa hlaðist á þennan sjóð að undanförnu.

Nú er það erindi mitt hingað að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort hæstv. ríkisstj. hugsi sér að gera eitthvað í því að sinna þessum málum. Ég bendi t. d. á eitt verkefni sem þessi sjóður mun eiga að sinna, og það er að bæta tjón kartöflubænda sem hefur orðið gífurlegt. Ég hef heyrt þá tölu, að í aðeins þremur hreppum í mínu kjördæmi hafi tjón kartöflubænda numið 400 millj. kr. Það gefur auga leið, að ef Bjargráðasjóður á að fara þá leið, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að taka lán á hinum almenna lánamarkaði og lána út til að bæta tjón eins og þetta, þá er þar um hreina hefndargjöf að ræða. Það eru í rauninni ekki neins konar tjónabætur til manna sem hafa misst svo til allár tekjur sínar vegna slíkra tjóna að lána þeim fé með fullri verðtryggingu og vöxtum, til þess að bæta það tjón. En mér sýnist að hæstv. ríkisstj. hugsi sér að fara þessa leið, því hún gerir ráð fyrir að afla Bjargráðasjóði 1200 millj. kr., ef ég man rétt, samkv. drögum að lánsfjáráætlun sem lögð voru fram við afgreiðslu fjárlaga.

Hér er sem sagt um mjög brennandi spursmál að ræða, hvort Bjargráðasjóði verði í rauninni gert kleift að bæta slíkt tjón þannig að um raunverulegar tjónabætur sé að ræða, en ekki bara lán með hæstu og verstu kjörum. Þessi spurning brennur mjög á mönnum vegna þess að ekki hafa fengist nein svör um það frá hæstv. ríkisstj., hvað hún hugsi sér að gera í málum Bjargráðasjóðs. Því vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hefur ríkisstj. tekið afstöðu til þess að breyta lögum um Bjargráðasjóð eins og stjórn sjóðsins hefur óskað eftir?