21.04.1980
Neðri deild: 62. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Við höfum orðið þess vör síðustu daga, að af hendi ráðh. og ríkisstj. er lögð mikil áhersla á að skýra okkur frá þeim málum sem ríkisstj. telur sér þörf á að ná fram fyrir þinglok. Nú er það auðvitað öllum hv. þm. ljóst, að Alþingi Íslendinga er ekki eingöngu afgreiðslustofnun fyrir hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma, heldur og til þess að ræða og afgreiða önnur frv. og þáltill. sem eru bornar fram. Og það er erindi mitt hingað að vekja athygli hæstv. forseta þessarar deildar á því, að mér þykir nokkuð vanta á að sumar nefndir þessa þings vinni þau störf, sem þeim er ætlað, og engu líkara en málum sé í sumum þeirra stungið ofan í möppu og lokuð þar af.

Ég leyfi mér að benda á það, að ég flutti hér mál sem vísað var til hv. allshn. þessarar deildar. Mér er kunnugt um að það hafa borist umsagnir sem leitað var eftir frá hagsmunaaðilum, jákvæðar umsagnir, en þessar umsagnir og afgreiðsla viðkomandi mála er látin liggja í þessari hv. nefnd án þess að afgreiðsla fari fram. Ég óska mjög eindregið eftir því, að hæstv. forseti deildarinnar hvetji formenn nefndanna og nefndarmenn til að gegna þeirri þingskyldu sinni að vinna í þingnefndum á þann veg sem ætlast er til. Og ég geri persónulega kröfu til þess sem þingmaður, að þessi frv., sem ég hef lagt hér fram, fái afgreiðslu úr nefnd. Það er svo undir þinginu komið, hvort frv. nái fram að ganga eða hvort þau verða felld eða vísað til ríkisstj. eða látin liggja. En ég óska eftir því eindregið, að viðkomandi nefndir afgreiði þau mál sem hjá þeim liggja.