21.04.1980
Neðri deild: 62. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2004 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Ég vil taka það fram vegna þeirra umr. sem orðið hafa nú, að það eru vissulega orð í tíma töluð sem hv. 1. landsk. þm. fór hér með. Ég vísa því að vísu frá, sem fram kom hjá hv. 9. þm. Reykv., að ríkt hefði sérstök óreiða í þingstörfum. Þingstörf hafa verið með allt öðrum hætti að vísu — af ástæðum sem allir þekkja, þar sem stjórnarskipti urðu nú í vetur — og Alþ. haft annað að vinna að málum af þeim sökum sérstaklega.

Ég hef haft í huga nú, frá því að mér barst í hendur óskalisti hæstv. ríkisstj. um afgreiðslu mála á þessu þingi, að boða vinnunefnd deildarinnar — og raunar hef ég haft samráð við hæstv. forseta Sþ. um að vinnunefndir beggja deilda komi saman til fundar til að ræða um stöðu mála í hinum einstöku nefndum. Að vísu er þess að geta, að í þingsköpum er vinnunefndunum mjög þröngur bás markaður, má segja, þar sem þær eiga eftir orðanna hljóðan þar nær einvörðungu að hafa með það að gera að hlutast til um að fundartímar nefnda rekist ekki á, en í öðru lagi að hafa afskipti af málum ef skipta þarf um menn í nefndum. Vinnunefndir eru skipaðar formönnum í nefndum hv. deildar, en forseti er formaður nefndarinnar. Ég hygg að það gæti verið góður siður að hafa reglulega fundi, eins og mánaðarlega, með vinnunefndunum til þess að menn geti borið saman bækur um það, hvernig unnið skuli að framgangi málanna.

Með vísan til þessarar umr. kalla ég nú sem ákafast eftir málum úr nefndum og það er hv. formanna í viðkomandi nefndum að verða við því ákalli. En eins og ég segi, að öðru leyti munum við forsetar beita okkur fyrir því, að vinnunefndir komi saman til skrafs og ráðagerða, því að það er ekki neitt lítið sem fyrir liggur að vinna að á hinu háa Alþingi ef uppfylla á allan óskalista hæstv. ríkisstj. um þau mál, sem hún álítur nauðsynlegt að nái fram að ganga áður en þingi lýkur. Ég vil svo að öðru leyti ekki gera það að umræðuefni, þar sem þingflokkum hefur ekki enn gefist kostur á að ræða þau mál.