22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2018 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

125. mál, símamál í Kjalarnes- og Kjósarhreppum

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 215 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. um símamál í Kjalarnes- og Kjósarhreppum, sem eru á þessa leið:

1. Hvaða ráðstafanir eru fyrirhugaðar til að bæta símaþjónustu í Kjalarneshreppi og hvenær má vænta úrbóta?

2. Eru fyrirhugaðar á næstunni breytingar á símaþjónustu í Kjósarhreppi?

Það er orðið nokkuð langt síðan ég lagði þessa fsp. fram, eða rúmur mánuður. Það var 15. mars s. l. sem stækkun símstöðvarinnar að Varmá í Mosfellshreppi var tekin í notkun. Þessa áfanga hafði verið beðið með óþreyju af íbúum hreppsins, en þar hafði ríkt öngþveitisástand í símamálum um árabil, þar sem stór hluti sveitarinnar var símalaus, eða þau nýju íbúðahverfi sem hafa verið að byggjast undanfarin ár. Þetta vandamál er nú leyst hvað varðar símaleysi í Mosfellshreppi, þó að nokkuð vanti á að allir sitji þar við sama borð, því að þótt ótrúlegt sé eru enn um 10 bæir í hreppnum sem búa við svokallaðan sveitasíma og verða að fá þjónustu í gegnum landssímastöðina í Reykjavík. Ég sagði: ótrúlegt, því að þessir bæir eru flestir innan 15 km fjarlægðar frá höfuðborginni, jafnvel innan 10 km. Og í leiðinni mætti geta þess, að í Reykjavík sjálfri eru enn sveitasímar á þremur bæjum.

Þetta er nú orðinn nokkuð langur formáli að fsp. minni um símaþjónustu í þessum tveimur nágrannabyggðum Mosfellshrepps, Kjalarnes- og Kjósarhreppum, en ekki óeðlilegur þar sem símamál þessara byggðarlaga eru nátengd.

Það hafði alltaf verið gert ráð fyrir því, að við stækkun stöðvarinnar að Varmá leystust símamál Kjalnesinga, þ. e. að þá fengju þeir einnig sjálfvirkan síma. Þegar hins vegar kom í ljós að engar úrbætur lágu á borðinu fyrir Kjalarneshrepp við stækkun stöðvarinnar að Varmá var eðlilegt að vonbrigði hreppsbúa yrðu mikil. Því var það, að þegar stækkunin var tekin í notkun 15. mars s. l. og haldinn var smáfagnaður fyrir starfsmennina af forráðamönnum Pósts og síma, enda full ástæða til að fagna góðum árangri og áfanga, þá bar einn skugga á. Úti í kuldanum stóðu nokkrir Kjalnesingar og knúðu dyra. Þeir voru með skriflegt erindi sem þeir óskuðu að koma á framfæri. Að sjálfsögðu var þeim vel tekið af forráðamönnum Pósts og síma að hætti íslenskrar gestrisni og boðið til „stofu“. Erindi það, sem þeir báru fram, var eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Kjalarneshreppi, 15. mars 1980.

Til póst- og símamálastjóra.

Í tilefni þess áfanga, sem nú er lokið við símstöðina að Varmá í Mosfellssveit, sem felur í sér stækkun stöðvarinnar, viljum við óska þeim símnotendum, sem nú hafa fengið sjálfvirkan síma, og Póst og síma til hamingju. Jafnframt viljum við minna Póst- og símamálastjórn á loforð, sem íbúum Kjalarneshrepps hafa verið gefin um bætta símaþjónustu, en hafa ekki verið efnd enn.

Við undirritaðir atvinnurekendur í Kjalarneshreppi viljum mótmæla því ástandi, sem nú er í símamálum í hreppi okkar, og förum fram á að póst- og símamálastjórn efni marggefin loforð hið fyrsta.“

Undir þetta rita níu atvinnurekendur í Kjalarneshreppi.

Eins og fram kemur í erindi þeirra Kjalnesinga voru þeir að ítreka loforð um lagfæringu mála sinna sem ekki hafði verið staðið við. Fyrsti liður fsp. minnar var því til að fylgja eftir erindi þeirra, sem ég veit að hæstv. samgrh. hefur nú fengið góðan tíma til að undirbúa og svarar væntanlega hér á eftir.

Seinni liður fsp. minnar er, eins og áður sagði, um hvað sé fyrirhugað í símamálum Kjósarhrepps. Þannig er þjónustu háttað þar, að símstöðin að Eyrarkoti er opin kl. 9–1 og 3–7 virka daga, en frá 1–3 helga daga. Það munu vera níu ár síðan þeim var lofað sjálfvirkum síma í Kjósinni, og þó að í þeirri sveit búi með eindæmum umburðarlynt fólk er nú von að þeir fari að gerast nokkuð óþolinmóðir og þeim finnst biðin orðin nokkuð löng. Því væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðh. hvort þeim í Kjósarhreppi sé ætlað að bíða lengi enn þá.