22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

125. mál, símamál í Kjalarnes- og Kjósarhreppum

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svör hans við fsp. mínum. Varðandi málefni Kjalarneshrepps hefur fsp. greinilega borið þann árangur, sem henni var ætlað að gera, frá 15. mars s. l. Það borgar sig stundum að bíða þolinmóður eftir svari.

En varðandi símamál Kjósarhrepps held ég að því verði ekki á móti mælt, að hreppsbúar hafa verið látnir mæta afgangi við röðun verkefna. Að ætla sér að leysa eitthvað af símamálum þeirra með því að leggja niður símstöðina að Eyrarkoti áður en sjálfvirkur sími kemst þar í gagnið er algjörlega útilokað að sé nokkur lausn fyrir Kjósverja. Ég fer fram á að hæstv. ráðh. komi því á framfæri og það verði teknar til greina óskir heimamanna um það, að þeir fái að búa við sama fyrirkomulag, þ. e. símstöðina að Eyrarkoti, þangað til sjálfvirki síminn kemst í gagnið, sem verður þá væntanlega á næsta ári.

Það er ekki góð reynsla af því að leggja niður símstöðvar í litlum sveitarfélögum og færa þá þjónustu inn á langlínustöðina í Reykjavík. Þetta var gert á sínum tíma við Kjalarneshrepp og það vakti mikla óánægju og þótti vera spor aftur á bak í þjónustu Pósts og síma. Það er af þeirri ástæðu sem Kjósverjar telja ekki að þetta verði til

bóta fyrir þá, og hreppsnefnd Kjósarhrepps hefur ritað bréf þar sem hún hefur algjörlega mótmætt þessu og farið fram á að Kjósarhreppur fái að búa við sömu þjónustu og nú er þangað til sjálfvirki síminn kemst í notkun. Vil ég leggja áherslu á að þetta verði tekið til greina.