22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

125. mál, símamál í Kjalarnes- og Kjósarhreppum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal með ánægju koma þeirri ósk til Pósts og síma, að menn fái að búa við gamla lagið áfram. Ég hygg að Póstur og sími hafi haft í huga að það er 24 tíma þjónusta í Reykjavík. Ef t. d. barnshafandi kona þarf nauðsynlega að ná í þjónustu, eins og var í einu tilfelli þarna, þá væri æskilegra að hafa lengi opið, og ég hygg að það hafi eingöngu verið af velvilja sem Póstur og sími ákvað þetta. En ég skal sannarlega koma á framfæri þeim óskum sem hér hafa komið fram.

Út af því, sem kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Einvarðssyni um þingkjörna stjórn fyrir Póst og síma, þá treysti ég mér ekki til að svara því nú, hvorki játandi né neitandi. En ég bendi á að svo er ekki um ýmsar aðrar stórar stofnanir, eins og Vegamálastofnunina, Vita- og hafnamálaskrifstofuna, flugmálastjórn — þar er flugráð sem situr að nokkru leyti til hliðar, en þó má segja að það sé stjórn að vissu marki. Það er alltaf spurning hvað Alþ. á að fara langt inn á framkvæmdasvið stofnana. Verkefni Alþingis er að sjálfsögðu að ákveða þann ramma, sem þessar stofnanir eiga að vinna innan, ákveða heildarfjárveitinguna, krefja þær um skýrslur o. s. frv. En ég skal sannarlega taka þetta til athugunar.

Ég vil segja það almennt um framkvæmdir Pósts og síma, að oft bíða margir úti í snjónum víða um land, eins og lýst var áðan, og geta ekki hoppað í bílinn sinn og ekið til næstu stöðvar til að mótmæla, því þar eru vegir lokaðir og menn komast ekki leiðar sinnar. Og þessir menn eiga e. t. v. fáir von á því að fá sjálfvirkan síma á næsta ári og verða að búa árum saman við gamla kerfið. Staðreyndin er nefnilega sú, að verkefnin eru gífurlega stór. Ég sá mér ekki annað fært en að fallast á niðurskurð á framkvæmdum Pósts og síma úr 4.3 milljörðum í um 3.3, vegna þess að ég taldi að íslenskt efnahagslíf þyldi ekki svo miklar framkvæmdir og það væri nauðsynlegt að draga aðeins að sér hendur. Eflaust verða einhverjir fyrir barðinu á þessu, það er alveg ljóst. Ég hygg að það verði þó ekki í þeim hreppum sem hér eru til umr. Menn verða náttúrlega, um leið og menn ákveða og vilja mikið, að hugleiða hvers við erum megnug.

Ég gæti haldið hér nokkurt erindi um þær nýjungar sem eru á næsta leiti hjá Pósti og síma, tækninýjungar sem gjörbreyta mörgum möguleikum. Þessi kerfi kosta milljarða, en munu vitanlega stórkostlega auka þjónustuna og veita marga möguleika. Þetta er allt saman í skoðun, en ég endurtek, að við verðum vitanlega að sníða okkur stakk eftir vexti, og þeir eru margir staðirnir um landið þar sem menn geta kvartað, því miður, undan sviknum loforðum, eins og sagt er. En það er kannske umhugsunarefni, hvers vegna loforðin hafa ekki staðist. Ég hygg að það hafi verið fyrst og fremst vegna þess, að verðbólgan hefur ekki gert okkur kleift að standa við það sem við ætlum okkur. Stöðugt er krafist meira fjármagns og menn hafa ekki séð sér fært að standa við þau góðu og frómu loforð sem gefin hafa verið.

En þetta kemur. Og það er ánægjulegt að hv. fyrirspyrjandi telur að fsp. hafi komið málum af stað. Það er alltaf gott að upplýsa málin. En staðreyndin er sú, að þetta var komið inn á framkvæmdaáætlun þegar í maí í fyrra.