22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

132. mál, símamál

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að taka undir ýmislegt af því sem fyrirspyrjandi sagði, hv. þm. Skúli Alexandersson, einkum og sér í lagi um ástand símamála á utanverðu Snæfellsnesi, sem ég hygg að muni vera eitthvert hið lakasta hér á landi, og þarf raunar ekki að fara um það mörgum orðum, svo margir þekkja það. Það er einhverra hluta vegna eins og þetta svæði hafi orðið út undan, og það er raunar svo, að á venjulegum vökutíma er helst ekki nema menn hafi a. m. k. klukkutíma til umráða að hægt sé að ná sambandi vestur á Hellissand eða við Ólafsvík. En það gegnir — virðist vera — allt öðru máli um þessa tvo staði en aðra staði á Vesturlandi. Úr þessu þarf að bæta, úr þessu er brýnt að bæta.

En út af því, sem hv. þm. Skúli Alexandersson sagði um jarðstöð, get ég ekki látið hjá líða að láta það koma fram hér, að það er aldeilis undarlegt og raunar forkostulegt að þm. Alþb. skuli vera þeir einu sem alltaf ræða um þessa jarðstöð og gagnrýna hana. Vilja þeir í fyrsta lagi að við séum um aldur og ævi háðir einokunarfyrirtæki, Stóra norræna ritsímafélaginu, sem á þá strengi sem héðan liggja? Þegar þeir slitna verðum við að eiga allt undir náð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli með fjarskipti að og frá landinu. Ef þetta er vilji Alþb.manna, þá gott og vel, þá eiga þeir að segja það berum orðum.

Varðandi það sem þm. sagði um bilanir á þessari jarðstöð, þá er ég ekki sérstaklega hér til að svara því, en ég held að þar sé ekki um bilanir að ræða, heldur aðeins mismunandi kröfur sem gerðar eru til verksins.