22.04.1980
Sameinað þing: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

13. mál, byggðaþróunaráætlun fyrir Borgarfjarðarhrepp

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Atvmn. hefur haft til umfjöllunar þáltill. um byggðaþróunaráætlun fyrir Borgarfjarðarhrepp í Norður-Múlasýslu. N. leggur til að till. verði samþ. með þeirri breytingu sem stendur í nál. Þáltill. hljóði þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir að á árinu 1980 verði gerð byggðaþróunaráætlun fyrir Borgarfjarðarhrepp í Norður-Múlasýslu á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins í samvinnu við heimamenn. Áætlunin verði höfð til hliðsjónar við fjárveitingar og aðgerðir af opinberri hálfu í þágu byggðarlagsins.“

Undir þetta rita allir nm. í atvmn. Hv. þm. Friðrik Sophusson undirritar nál. með fyrirvara.

Ég þarf út af fyrir sig ekki að hafa langt mál um þessa þáltill. Í þessum hreppi hefur verið allveruleg fólksfækkun á undanförnum einum og hálfum áratug. Hins vegar er það svo í dag, að það eru mun meiri líkur til þess að ungt fólk vilji setjast þar að og byggja sér íbúðir.

Það er út af fyrir sig mikilvægt fyrir það fólk, sem vill byggja staði sem hafa átt við erfiðleika að etja, að fyrir liggi einhver skynsamleg áætlun um það, hvernig best verði komið til móts við þær þarfir sem þarf að byggja upp í framtíðinni. Með því er sköpuð meiri tiltrú til hins opinbera, opinberra aðgerða, sem annars hljóta að vera í mikilli óvissu. Það er út af fyrir sig mjög nauðsynlegt fyrir þetta fólk að vita í stórum dráttum vilja opinberra yfirvalda og fjárveitingavaldsins, Alþingis, til slíkra framkvæmda.

Framkvæmdastofnun ríkisins fékk mál þetta til umsagnar og Framkvæmdastofnun hafði þá þegar byrjað nokkurt starf varðandi þetta mál. Þar kemur fram að höfuðvandinn á þessum stað sé árvisst atvinnuleysi frá nóv. og fram í apríl, þegar oft eru 20–30 manns atvinnulausir í þorpinu sem hefur 140 íbúa. Einnig kemur fram í þessu áliti, að byggðadeildin telur sjálfsagt að slík áætlun verði gerð fyrir Borgarfjörð eystra, eins og reyndar öll héruð landsins. Eðlilegt er, að áætlunargerð fyrir Borgarfjörð hafi nokkurn forgang, vegna hins alvarlega ástands. Það kemur fram í máli byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins ýmislegt sem þurfi að gera og sé skynsamlegt að gera í þessu tilfelli. Á þessum stað eins og alls staðar annars staðar á landinu eru miklir möguleikar. Þar eru hins vegar erfiðleikar í hafnamálum og samgöngur á landi eru einnig erfiðar. Hins vegar hefur nýlega verið stofnað þar lítið iðnfyrirtæki sem leysti nokkurn vanda í atvinnumálum staðarins og skapaði 13 manns atvinnu. Það eru náttúruauðæfi í nágrenninu, í 20 km fjarlægð, perlusteinn sem ekki hefur verið fullkannað með hvaða hætti sé hægt að vinna, og ýmislegt fleira má telja sem gefur þessum stað möguleika.

Ég vil aðeins ítreka að það er skoðun n. að þessi þáltill. verði samþykkt og áætlunargerð varðandi byggðaþróun á þessum stað landsins verði hraðað eftir því sem kostur er, þannig að fyrir liggi sem fyrst álit sérfróðra aðila um það, með hverjum hætti best verður stuðlað að uppbyggingu á þessum stað.