22.04.1980
Sameinað þing: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

14. mál, tekjuskipting og launakjör

Böðvar Bragason:

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um kjarna þeirrar till. sem hér er flutt, en hann er að fram fari nákvæm könnun á launakjörum og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu.

Það hefur lengi verið skoðun mín, að til þess að allur almenningur nái áttum í þeirri kjaramálaumræðu sem stöðugt glymur í eyrum sé nauðsynlegt að gleggri upplýsingar liggi fyrir um heildartekjur hinna einstöku hópa þjóðfélagsins en nú eru handbærar. Ég segi: handbærar, því vissulega eru öll þessi atriði fólgin í þjóðfélagsgerðinni, en þeim hefur ekki fram að þessu verið safnað saman í einn stað með þeim hætti sem till. þessi gerir ráð fyrir.

Það er grundvöllur skynsamlegrar umr. og umfjöllunar um launamálin, að fyrir liggi svo fullnægjandi gögn að af þeim megi ráða raunveruleg laun starfshópanna í þjóðfélaginu. Ég er á þeirri skoðun, að ef slík könnun sem hér er gerð till. um nær fram að ganga, þá muni hún leiða í ljós mörg þau atriði um kaup og kjör sem æðimörgum hafa verið hulin fram að þessu. Það er því miður svo í þjóðfélagi okkar, bæði hvað varðar lægstu laun og þau hæstu, að útreikningur þeirra er orðinn ærið flókinn og það svo í sumum starfsgreinum að fólk á ekki greiðan aðgang að upplýsingum um hvað það ber úr býtum að loknum vinnudegi. Enn fremur hefur endurgjald fyrir vinnu tekið á sig svo margar myndir að með ólíkindum er, enda fullyrt að mörg hundruð kauptaxtar séu í landinu.

Umræða hefur farið fram, bæði á hv. Alþingi og utan þess, um svokallað kerfi, en það mun vera notað sem nokkurs konar samheiti á handhöfum ríkisvaldsins og stofnunum þess. En kerfisnafnið á við í víðara skilningi og nær einnig yfir þann þátt þjóðlífsins sem spannar samninga um kaup og kjör í landinu. Það virðist svo sem mjög margir starfshópar sjái hag í því að launasamningar og útreikningar launa verði sem flóknastir, því að þá séu líkur á því að meira fáist í hlut í krafti flókinna samninga. Má þar benda á ýmsa sérsamninga.

Það er enginn vafi á því, að framkvæmd þessarar till. mun opna fyrir mönnum hinn raunverulega launastiga þjóðfélagsins og sýna svart á hvítu breidd hans og hvar hver og einn stendur í þrepinu. Jafnframt gerir till. ráð fyrir könnun á fjölmörgum atriðum sem taka má inn í launamyndina. Ég er þess fullviss, að allir þeir, sem vinna að samkomulagi um kaup og kjör í þjóðfélaginu, munu með þessari ráðgerðu könnun fá mikilvægt tæki í hendur sem eigi að auðvelda þeim að komast að niðurstöðum. En ekki er síður mikilvægt að á þennan hátt mun einnig allur almenningur í þessu landi fá í hendur upplýsingar sem sárlega hefur vantað í aðgengilegu formi. Kjarni málsins er að það á ekki að vera nein leyndarmál hvernig laun starfshópa eru metin í dag eða hver þau eru, enda nauðsynlegt að upplýsingar um þessi mál liggi fyrir í augljósu formi svo að kaup og kjör hætti að vera því sem næst einkamál forustumanna hinna ýmsu launþegahópa og viðsemjenda þeirra. Á ég þar aðallega við þá launahærri í þjóðfélaginu, en þegar þeir eiga í hlut er aðallega talað út og suður um prósentuhækkanir frá síðustu samningum og þess vandlega gætt að ekki birtist í fjölmiðlum hinar raunverulegu tölur. Að birtum réttum upplýsingum um launakjör og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu er að vænta umræðna um bil hæstu og lægstu launa, jafnframt því að reynt verður að setja fram kenningar um það, hvar hver starfshópur skuli skipa sér á þann launalista. Tel ég að að þessum upplýsingum fengnum væru líkur á því, að umræður um kaup og kjör beindust meira í þann farveg að líta á launakjör landsmanna í heild meir en verið hefur.

Mér þykir rétt að lokum að nefna 7. lið till., en þar er einnig minnst á heilsufræðileg, félagsleg og hagfræðileg áhrif hinna mismunandi launakerfa og vinnuaðstæðna. Um þennan lið segir síðan að vinnukjör séu launaaðstæður út af fyrir sig. Mikið rétt. En það er fleira matur en feitt ket. Hér er minnst á mál sem mér finnst að nokkuð hafi fallið í skugga hinnar stóru umræðu um launamál almennt og ekki hafi verið nægilega aðgætt á hinum fjölmörgu vinnustöðum og það þrátt fyrir það að við vildum hafa fjölda reglugerða sem koma inn á þessi efni. En þeim virðist slælega framfylgt og það að öllum líkindum vegna þess að þær stofnanir í kerfinu, sem um eiga að fjalla, eru ekki nægilega vel í stakk búnar að sinna verkefnunum.

Það er skoðun mín, að næst bættum launum komi aðbúnaður á vinnustöðum, því að hvað stoðar sæmilegt kaup ef öll aðstaða á vinnustað er þannig, að hún verkar niðurdrepandi á starfsmenn og dregur úr þeim til líkama og sálar? Hér þarf að verða breyting á, og er vel ef sú könnun, sem hér er boðuð, verður til þess að leiða aðbúnað á vinnustöðum til betri vegar.