22.04.1980
Sameinað þing: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

14. mál, tekjuskipting og launakjör

Frsm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég gleymdi að geta þess hér áðan þegar ég mælti fyrir nál., að einn þeirra umsagnaraðila, sem málið var sent til, var að sjálfsögðu Alþýðusamband Íslands, og það sem meira er, allir þrír aðilarnir, þ. e. Vinnuveitendasambandið, Vinnumálasamband samvinnufélaganna og Alþýðusamband Íslands, sendu sameiginlega umsögn um málið þar sem þeir mæla með samþykkt till., en benda að sjálfsögðu jafnframt á það, sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á, að auðvitað hlýtur það að verða svo í framkvæmd — í raun og veru hvaða ríkisstj. sem væri í landinu — að það yrði Kjararannsóknarnefnd og hagdeildir þessara samtaka, sem hann minnti á, aðila vinnumarkaðarins, sem að langsamlega mestu leyti mundu vinna þessar upplýsingar og rannsaka þær. En til þess að slíkt megi verða þarf auðvitað bæði fjármagn og aukinn starfskraft, því að það er alveg gefið mál að hér er um geysilega umfangsmikið verkefni að ræða að rannsaka þennan frumskóg allan. Ég held að menn telji að það séu um 900 eða 1000 launataxtar til í landinu innan Alþýðusambandsins, og það er augljóst að hér er mikið verk að vinna.

Hvort sem menn treysta núv. hæstv. ríkisstj. vel eða illa, þá er það einu sinni svo, að það er e. t. v. nauðsynlegt í svona tilvikum og raunar fleirum að á það verði látið reyna, hvort ríkisstj. á hverjum tíma fer ekki eftir viljayfirlýsingu Alþingis. Við höfum auðvitað ótalmörg dæmi þess, að ótalmargar ríkisstj. hafa ekki virt slíkar viljayfirlýsingar. En þá er spurningin: Hvernig er hægt að koma málum þannig fyrir, að viðkomandi stjórnvöld séu knúin til þess að fara eftir þessu? Það er kannske stærsta spurningin. Og ég treysti því, að þeir aðilar hér á hv. Alþ., sem sammála eru um að þetta verk þurfi að vinna og sé nauðsynlegt, sameinist í því að knýja bæði núv. ríkisstj. — og sjái hún ekki svo til að verkinu verði lokið þegar hún fer frá völdum, þá er áframhaldið að knýja þá ríkisstj., sem tekur við, til að ljúka þessu máli. Þetta er stórmál, að draga fram í dagsljósið hver hin raunverulegu launakjör í landinu eru.

En út af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði um aðdáendur og stuðningsmenn hæstv. fyrrv. ríkisstj., stjórnar hinna vinnandi stétta, held ég að hann hafi orðað það, vil ég aðeins segja það, að till. þessi eða efnislega samhljóða tillögur hafa ekki fyrr en nú fengist út úr n. í þinginu, þannig að fyrrv. ríkisstj. hefur ekki haft til þess aðstöðu að framkvæma till. sem slíka eða efnisinnihald hennar. Auðvitað hefði hún getað tekið upp hjá sér að láta vinna ýmsa þætti, en engar skuldbindingar hafði hún gagnvart þinginu, því að málsmeðferðin var slík, að málið komst ekki út úr n. Það er ekki fyrr en núna, þegar stjórnarandstæðingur er formaður í viðkomandi n., að málið fæst út. Og ég vona að málið verði afgreitt hér og síðan látið á það reyna, hvort hæstv. ríkisstj. fylgir ekki vel á eftir, með hæstv. forsrh. — sem skrifar undir nál. sem nm. — í broddi fylkingar. Við erum ekki með neitt smámenni á nál. þessarar n., hæstv. forsrh. sjálfan. Og við skulum láta á það reyna, hvort hann tekur ekki undir með okkur hinum að koma þessu í framkvæmd í reynd.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að fara öllu fleiri orðum um þetta, en ég vil fyrst og fremst bæta því við, að Alþýðusambandi Íslands var að sjálfsögðu sent þetta mál og það sendi umsögn ásamt Vinnuveitendasambandinu og Vinnumálasambandinu. (Gripið fram í: BSRB?) Vegna þessa frammíkalls er rétt að geta þess, að BSRB var sent málið til umsagnar, en ekki barst umsögn frá BSRB, þannig að því er ekki til að dreifa.

Ég er ekki sammála hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur um að þessi till. sé ekki líkleg til að ná tilgangi. Ég held að það sé mesti misskilningur. Það fer eftir því að sjálfsögðu, hvort vilji er fyrir því að framkvæma þetta, en tilgangi nær till. ef hún verður framkvæmd, það er ekkert vafamál. Þá fáum við þann grunn sem við verðum að fá til að standa á, til þess að fram í dagsljósið komi hver í raun og veru tekjuskiptingin er í þjóðfélaginu. Það er það sem fyrst og fremst verður að fá fram til þess að hægt sé að vinna út frá því og leiðrétta þá hlutina í samræmi við það sem þessi könnun leiðir í ljós. (Gripið fram í: Þetta liggur allt saman hér fyrir.) Ég er ekki sammála hv. þm. um að þetta sé allt saman til. Ég ætla einmitt að þar greini hann á við aðila sem í þjóðfélaginu eru nú að vinna að þessu dagsdaglega, eins og t. d. Kjararannsóknarnefnd, þannig að þá veit þessi hv. þm. betur. Ég held að það sé mesti misskilningur hjá þessum hv. þm. að hún þurfi eitthvað að vera í vafa um það, hvort á að taka þessa tilraun alvarlega eða ekki. Það er ekki nokkurt vafamál, að þessa till. á að taka alvarlega og hún er meint og hún er nauðsynleg.

Ég hef ekki mikla trú á og ég mæli ekki með því, að neitt af þessu sé sent til Háskólans eða félagsfræðideildar hans. Það verða ekki mín meðmæli sem þar koma til. Það má vel fara svo að það verði gert eigi að síður, en ég hef enga trú á að þaðan komi mikið flóð upplýsinga sem gott verði að fóta sig á í þessu tilfelli. Það þarf að koma annars staðar frá.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. En ég vil ítreka það, að ég held að þm. almennt og raunar allur almenningur í landinu hljóti að geta verið sammála um það varðandi þá efnisþætti þessarar till. sem hér er lagt til að rannsakaðir verði, að nauðsynlegt er að það verði dregið fram í dagsljósið hvað þessi atriði fela í sér til þess að sjáist hvernig tekjuskiptingin er. Um þetta er vissulega deilt og hart deilt oft og tíðum, hver tekjuskipting í þjóðfélaginu er.

Það væri kannske ástæða til þess að segja eitthvað fleira um þetta, en ég held að t. d. ef hv. þm. geta séð grg., þá fái menn yfirlit yfir það, sem í raun og veru þarf um þetta mál að segja. Ég vil aðeins ítreka það, að allir aðilar, sem málið snertir, þ. e. aðilar vinnumarkaðarins, mæla eindregið með því að till. verði samþykkt.