22.04.1980
Sameinað þing: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

146. mál, hafnargerð við Dyrhólaey

Flm. (Siggeir Björnsson):

Herra forseti. Við fimm þm. Suðurlandskjördæmis höfum leyft okkur að flytja á þskj. 306 till. til þál. um hafnargerð við Dyrhólaey. En ég vil taka fram, að þegar þessi till. varð til og fór í prentun var hv. 4. þm. Suðurl., Garðar Sigurðsson, erlendis svo að ég gat ekki haft samráð við hann um tillögugerðina. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fram fara á árunum 1980–81 fullnaðarrannsókn á hafnargerð við Dyrhólaey.

Þær áætlanir, sem fyrir liggja, verði endurskoðaðar og notagildi hafnarinnar endurmetið, m. a. með tilliti til útflutnings á Kötluvikri í miklum mæli.“

Till. varðandi hafnargerð við Dyrhólaey er ekkert nýmæli hér á hv: Alþingi né utan þess síðustu hundrað árin og raunar lengur. Kemur það vitanlega til vegna þeirrar sérstöðu sem Suðurland hefur haft vegna hafnleysis á hinni löngu suðurströnd landsins. Í Landnámabók segir að svæðið milli Hornafjarðar og Reykjaness hafi síðast albyggt orðið vegna þess að — ef ég má vitna, með leyfi hæstv. forseta, í þá ágætu bók Landnámu: „þar réð veður og brim landtöku manna fyrir hafnleysis sakir og öræfis.“

Þessu máli mun svo fyrst hafa verið hreyft, svo ég hafi spurnir af, fyrir hvorki meira né minna en 200 árum. Lýður Guðmundsson sýslumaður í Vík flutti þetta mál, athuganir á lendingarbótum á þessu svæði, við dönsku stjórnina árið 1780. Og mér er til efs að nokkurs staðar annars staðar á Íslandi hafi verið farið að hugsa um hafnarbætur á þeim árum. Heimildir munu vera til um það, að danska stjórnin hafi lofað að athuganir og mælingar skyldu fara fram á því sumri við Dyrhólaós og hjá Bakkahjáleigu í Landeyjum.

Á fyrsta sýslufundi Vestur-Skaftafellssýslu, sem haldinn var á Kirkjubæjarklaustri árið 1874, kom málið fram í formi bænarskrár til konungs um að láta rannsaka aðstæður til hafnargerðar við Dyrhólaey. Konungur, eða danska stjórnin, tók málinu vel og fól yfirmanni á dönsku herskipi athugun málsins. Hann mun hafa fengið fyrirmælin svo síðla sumars að hann treysti sér ekki til að framkvæma þau á því sumri. Málinu mun svo ekki hafa verið fylgt eftir á næsta sumri og varð ekkert úr því að athugun færi fram. Málið einfaldlega gleymdist eða strandaði í kerfinu, og er það raunar algengt enn í dag.

Áhugi Skaftfellinga á þessu máli var þó svo mikill, að þeir höfðu safnað talsverðu fé til hafnarbóta á þeirra tíma mælikvarða, en því var svo skilað aftur eftir nokkur ár þegar ekkert varð úr framkvæmdum.

Árið 1901 var svo málið í fyrsta skipti lagt fyrir Alþingi. Erlendur maður, búsettur bóndi uppi í Borgarfirði, var með ráðagerðir um að stofna til togaraútgerðar með erlendu fé og gera út sextán togara, ef félagið fengi rétt til þess að veiða í landhelgi fyrir Suðurlandi. Þáverandi þingmaður Vestur-Skaftfellinga, kunnur þingskörungur, Guðlaugur Guðmundsson, síðast bæjarfógeti á Akureyri, flutti með samþykki sýslunefndar Skaftafellssýslna till. um að undanþágan yrði veitt um tiltekinn tíma gegn því, að togarafélagið bætti þann skaða sem fiskveiðar sýslnanna hugsanlega yrðu fyrir, og í öðru lagi, og það var aðalatriði málsins, að leyfishafi, togarafélagið, gerði trygga höfn við Dyrhólaey. Um þessa undanþáguheimild urðu langar og harðar umræður í Nd. Alþingis og svo fór að frv. var fellt með 10 atkv. gegn 10.

Ég hef leyft mér að segja þessa merkilegu sögu í stórum dráttum. Hún sýnir í raun og veru hversu brýnt hagsmunamál þessi hafnargerð hefur verið og er enn fyrir þau héruð sem þarna eiga hlut að máli.

Á síðari árum hafa svo margar till. komið fram hér á hv. Alþ. um rannsókn á hafnargerð á þessum stað og skal ég ekki rekja þær. Talsverðar og væntanlega allítarlegar rannsóknir hafa farið fram á hafnarstæðinu við Dyrhólaey á síðari árum. Þær rannsóknir benda til eða sanna raunar að þar megi vel gera höfn. Hins vegar yrði hér um dýr mannvirki að ræða og kemur það engum á óvart sem þekkir aðstæður á suðurströnd Íslands.

Það hefur komið fram af hálfu stofnana og embættismanna, sem um þetta mál hafa fjallað, að hafnargerð þessi yrði ekki arðbær framkvæmd, og er þá málið metið út frá því sjónarmiði að fjármagnið skili arði, að höfnin borgi sig á tiltölulega skömmum tíma eða geti sjálf staðið undir því fjármagni sem bygging hennar kostar. Gegn þessu gilda að mínu mati og eru enn í fullu gildi þau rök sem fram að þessu hafa verið færð fyrir nauðsyn hafnargerðar á þessum stað. Það vantar höfn á austurhluta Suðurlands til þess að auka og efla atvinnu á svæðinu, m. a. til þess að það unga fólk, sem þar elst upp, geti fengið atvinnu í heimabyggð sinni, ef það óskar þess, eða þá rekið atvinnufyrirtæki, ef það fer út á slíka braut. Við þurfum fjölbreyttari og meiri atvinnu á þessu svæði á Suðurlandi, ef við viljum og ætlum okkur að halda byggðinni við og efla hana, ef við ætlum okkur að byggja landið allt. Og við megum aldrei meta gildi neins máls eingöngu eftir því, hvernig hægast sé að ávaxta fjármagn á sem skemmstum tíma. Við megum aldrei gleyma hinum mannlega og félagslega þætti.

Tilefni þess, að þessu máli er nú enn á ný hreyft hér á hv. Alþ., er það, eins og kemur fram í grg. fyrir till., að nú er fram komin ný ástæða til þess að hyggja að þessu máli, er gerir hafnargerðina nauðsynlegri og þó einkum arðbærari en áður hefur verið talið. Á ég þar við rannsóknir þær og kannanir er Jarðefnaiðnaður hf. hefur látið gera á útflutningi Kötluvikurs og jafnvel annarra jarðefna í stórum stíl. Þýskir aðilar hafa sýnt þessu máli áhuga. Þeir hafa rannsakað vikurinn og telja að hann standist kröfur þýskra staðla um léttsteypu. Nothæft byggingarefni er að ganga til þurrðar úti í Evrópu. Magn vikurs á Mýrdalssandi er óhemjumikið og mun duga í mörg hundruð ár með miklum útflutningi. Athuganir þær, sem gerðar hafa verið á því, hvernig koma mætti vikrinum um borð í skip úti fyrir sandinum með færiböndum eða dælukerfi, benda til þess að þau mannvirki yrðu mjög dýr vegna aðstæðna við ströndina. Hins vegar er stutt af Mýrdalssandi til Dyrhólaeyjar og væri því ekki mikill kostnaður við að flytja vikurinn þangað á bílum, enda þá sjálfsagt að athugað yrði í sambandi við það, hvort ekki væri rétt og sjálfsagt að færa þjóðveginn í Mýrdal og gera göng í gegnum Reynisfjall. Kæmi höfn í Dyrhólaey yrði það líka arðbær framkvæmd. En allir, sem þarna eru kunnugir, vita hversu mikil samgöngubót það yrði vegna allra flutninga austur þar og allt til Austurlands, enda yrði þá snjóþyngsti kaflinn á þjóðveginum um Mýrdal lagður niður.

Það þarf varla að taka fram, að óhugsandi er að flytja vikurinn alla leið til Þorlákshafnar, sem er næsta höfn nú, vegna vegalengdar. Miðað við þá útreikninga og till. um hafnargerðina, er fyrir liggja og gerð hafa verið af opinberum aðilum, Vita- og hafnamálastjórn og framkvæmdadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, og miðað við að tæknilegar forsendur þeirra séu réttar, er talið líklegt af verkfróðum mönnum, sem ég hef rætt um þetta við, að um ein millj. tonna af vikri til útflutnings árlega geti farið langt með að standa undir byggingu hafnarinnar. Og þá kæmu til viðbótar öll önnur not hafnarinnar.

Nauðsyn ber til þess að efla og mynda nýjar gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar á Íslandi, gera framleiðslu þjóðarinnar fjölbreyttari, auka þjóðarframleiðsluna svo að meira verði til skiptanna. Því ber að veita athygli og rannsaka til hlítar alla nýja möguleika til aukins útflutnings.

Útflutningur Heklu- og Kötluvikurs og e. t. v. fleiri jarðefna gæti orðið þýðingarmikill þáttur í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Engin ástæða er til annars en að nýta þessi jarðefni eins og aðrar auðlindir landsins. Óhemjumikið magn er til af þessum jarðefnum á Suðurlandi og vafalaust viðar. Á Mýrdalssandi hefur verið giskað á að séu allt að þúsund millj. rúmmetra af nýtanlegum vikri eða jafnvel meira. Það mundi endast til útflutnings í mörg hundruð ár. Auk þess er hætt við að eitthvað gæti bæst við á næstu öldum þannig að framleiðsla náttúrunnar sjálfrar haldi áfram af og til svo lengi sem eldvirkni verður á þessu landi.

Útflutningur vikursins mun auka atvinnu í nálægum byggðarlögum, sem sannarlega er ekki vanþörf á, og það án þess að nokkuð sé frá öðrum tekið eða það rýri í nokkru hlut annarra byggðarlaga.

Eftir því sem nýtanlegt byggingarefni minnkar úti í Evrópu mun eftirspurnin eftir íslenskum vikri til bygginga þar vaxa. Vikurinn mun því hækka í verði á komandi tímum.

Þó að aðallega muni nú rætt um útflutning á óunnum vikri, þá þarf svo ekki að verða um alla framtíð, heldur getur hér vaxið upp mikill byggingariðnaður úr Kötluvikri við væntanlega Dyrhólahöfn, að því tilskildu að Íslendingar geti einhvern tíma lært að ná þeim tökum á efnahagsmálum sínum að um slíkan útflutning eða annan á iðnaðarvörum geti orðið að ræða.

Eins og ég hef tekið fram hefur af ýmsum verið talið að sú hafnargerð, sem hér er rætt um, væri ekki þjóðhagslega arðbær. Við flm. þessarar till. teljum að hafi svo verið, þá sé það viðhorf nú gerbreytt, jafnvel geti verið vafasamt hvort þjóðin hafi efni á öðru en að gera þarna höfn. Allar líkur benda til þess, að hafnargerðin sé nú mjög arðbær. Og til þess að fá úr því skorið er till. þessi flutt.

Ég hef lokið máli mínu, en vil leggja til að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til atvmn.