23.04.1980
Neðri deild: 63. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Í frv. því til l. um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, sem hér liggur fyrir, eru sett að ýmsu leyti ný ákvæði um ráðstafanir til jöfnunar og lækkunar hitunarkostnaðar. Í frv. er gert ráð fyrir víðtækari ákvæðum en nú eru í lögum, — ákvæðum sem miða að hagkvæmari orkunotkun og orkusparnaði, aukinni notkun innlendra orkugjafa í stað olíu og breytingu á tilhögun olíustyrksins. Ákvæði frv. koma í stað laga nr. 13 frá 1977. Í þessu frv. eru ákvæði um verðjöfnun á hitunarkostnaði olíukyntra húsa og jafnframt ráðstafanir til að lækka heildarkostnað við húshitun í landinu.

Frv., sem einkum hefur verið samið á vegum iðnrn., sérstaklega að því er varðar öll tækniatriði, byggist í veigamiklum atriðum á tillögum nefndar sem iðnrh. skipaði 6. sept. 1979 til að gera tillögur um leiðir til jöfnunar á upphitunarkostnaði. Nál. er prentað sem fskj. með frv.

Með því að gert er ráð fyrir að viðskrn. fari áfram með veigamikinn þátt í framkvæmd ákvæða frv., þ. e. greiðslu olíustyrkja og allt er þá varðar, þótti rétt að viðskrh. flytti málið. Gert er ráð fyrir að iðnrh. sé heimilt að setja reglugerð um framkvæmd III. og IV. kafla laganna.

Frv. greinist í fjóra kafla. I. kafli fjallar um markmið, II. kafli um olíustyrk, III. kafli um orkusparnað og IV. kafli um nýtingu innlendra orkugjafa. Mun ég víkja að efni einstakra kafla.

Í upphafi máls míns gat ég um meginmarkmið frv. eins og þau eru talin í I. kafla, þ. e. í 1. og 2. gr. þess.

II. kaflinn fjallar um olíustyrk og eru þar veigamiklar breytingar frá núgildandi lögum. Olíustyrkur er nú 18200 kr. á einstakling ársfjórðungslega. Frv. gerir ráð fyrir að olíustyrkurinn hækki í 20 þús. kr. Á 60% heimila í landinu mun olíustyrkur á ári hækka meira en sem þessu nemur. Á seinasta ári námu útgreiddir olíustyrkir samtals 2 milljörðum 71 millj. kr. Á þessu ári er gert ráð fyrir samtals 4500 millj. til jöfnunar og lækkunar hitunarkostnaðar, þannig að framlög úr ríkissjóði hækka því um rétt 2.5 milljarða eða meira en tvöfaldast frá því sem var á fyrra ári.

Í 3. gr. eru ákvæði um að heimili, sem eingöngu nota gasolíu sem orkugjafa til hitunar, eigi rétt á olíustyrk. Nokkuð hefur verið um það að menn hafi notað bæði rafmagn og olíu til upphitunar og hefur rn. þá heimilað greiðslu olíustyrks að hluta. Gert er ráð fyrir að olíustyrkir falli alveg niður í slíkum tilvikum. Samkv. frv. verður fjárhæð olíustyrksins lögbundin með heimild til breytinga miðað við olíuverð.

Gert er ráð fyrir, að olíustyrkir verði greiddir húsráðanda ársfjórðungslega vegna íbúa sem hafa fasta búsetu í viðkomandi íbúð. Frá upphafi hefur olíustyrkur verið greiddur hverjum framteljanda til skatts og einnig vegna maka og barna sem hafa verið á framfæri hans og ekki hafa verið sjálfstæðir framteljendur. Í frv. er gert ráð fyrir að breyta útreikningi olíustyrksins fyrir hvert heimili. Áður hefur verið greiddur einn styrkur á mann, en í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir að draga hlutfallslega úr greiðslum til fjölmennra heimila og hækka greiðslur til fámennari. Þannig er gert ráð fyrir að greiða 2 olíustyrki fyrir einn íbúa í heimili, 3 olíustyrki fyrir tvo í heimili, 3.5 olíustyrki fyrir þrjá íbúa, fyrir fjóra íbúa 4 olíustyrki, fyrir fimm íbúa 4.5 styrki, fyrir sex íbúa greiðast 5 olíustyrkir og fyrir 7 íbúa eða fleiri greiðist 5.5 olíustyrkir. Styrkurinn hefur til þessa verið greiddur á nef, en nú er einnig tekið tillit til eðlilegrar stærðar húsnæðis.

Í frv. er ákvæði um viðbót, sem nemur hálfum olíustyrk, vegna lífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar almannatrygginga eða hafa svipaðar heildartekjur.

Eins og verið hefur er ekki gert ráð fyrir að olíustyrkur verði færður til tekna við álagningu tekjuskatts og útsvars.

Í 5. gr. frv. er nýmæli, þar sem heimilað er að greiða einn aukaolíustyrk árlega á hvert olíukynditæki sem hefur verið hreinsað og stillt. Ekki þótti fært að binda greiðslu olíustyrks því skilyrði, að hreinsun og stilling hefði farið fram, m. a. vegna þess að ekki er alls staðar kostur á að fá það gert. Þykir rétt að veita þessa heimild, en notkun hennar ýtir undir menn að láta stilla tæki sin.

Í 6. gr. frv. er ákvæði um að þeir, sem kost eiga á hitaveitu, fjarvarmaveitu eða rafhitun, eigi ekki rétt á olíustyrk. Áður náði samsvarandi ákvæði aðeins til þeirra sem kost áttu á hitaveitu. Þetta nýja ákvæði er sérstaklega sniðið til að stuðla að æskilegri þróun í nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíunnar.

Ákvæði 7. gr. eru óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því, að ákvæði um olíustyrk vegna skólahúsnæðis á við um allt skólahúsnæði sem kynt er með olíu, en ekki eingöngu heimavistarskóla á grunnskólastigi. Þá er viðmiðun varðandi styrk við þær breytt.

Í 8. gr. eru óbreytt ákvæði frá gildandi lögum um að sveitarfélög annist úthlutun olíustyrksins. Nýmæli er um ársfjórðungslega skilagrein um úthlutun olíustyrkja og skyldu orkusala til upplýsingagjafar. Í grg. frv. er kveðið á um að í reglugerð um framkvæmd laganna verði sett ákvæði um framkvæmd og eftirlit með greiðslu olíustyrkja. Ég tel nauðsynlegt að herða á öllu eftirliti til að koma í veg fyrir misnotkun.

Í III. kafla frv. eru ákvæði um orkusparnað, sem öll eru nýmæli.

Í 9. gr. er Orkustofnun falið að gera áætlun um hagkvæma orkunotkun og orkusparnað í húshitun. Skort hefur á að fyrir lægi heildaryfirlit um hina ýmsu þætti í þessu sambandi. Árið 1977 hófst skipulögð áætlunargerð um fjarvarmaveitur á þeim þéttbýlissvæðum sem ekki höfðu von um jarðvarmahitun. Gert er ráð fyrir að orkusparnaðaráætlun verði kynnt Alþ. á næsta hausti, en í henni verður jafnframt gerð grein fyrir nauðsynlegum aðgerðum af hálfu hins opinbera í samræmi við þau markmið sem stefnt er að.

Í 10. gr. er svo fyrir mælt, að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins skuli halda námskeið um húshitun. Með námskeiðum þessum er stefnt að því að þjálfa menn til að vinna að einstökum þáttum í orkusparnaði, svo sem stýringu hitakerfa, bættri einangrun húsa o. fl.

Í 11. gr. er gert ráð fyrir að verja árlega til fræðslu og upplýsingastarfsemi um orkusparnað fjárhæð sem nemi a. m. k. 1/2% af áætlaðri upphæð olíustyrkja. Á þessu ári er fyrirhugað að verja 20 millj. kr. í þessu skyni.

Í 12. gr. frv. er gerð ráð fyrir heimild til að veita sveitarfélögum, þar sem olía er notuð til húshitunar, styrki vegna tækniþjónustu á sviði orkusparnaðar og til að undirbúa aðgerðir sem stuðlað geti að hagkvæmari orkunotkun. Tilgangur ákvæðisins er að hvetja sveitarfélög til að hafa milligöngu um ráðgjöf fyrir íbúana vegna undirbúnings hvers konar aðgerða sem dregið geta úr olíunotkun. Enn fremur er tilgangur þess að hvetja til athugunar á nýjum og hagkvæmari orkugjöfum.

Í 13. gr. er Húsnæðismálastofnun heimilað að veita einstaklingum lán til orkusparandi endurbóta á íbúðarhúsnæði sem hitað er með olíu. Nánari ákvæði um lánveitingar þessar þarf að setja í reglugerð. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að fyrir Alþ. liggur frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins og þetta ákvæði ætti sennilega frekar heima í þeim lögum, en það er hægt að samræma þegar sú lagasetning verður framkvæmd.

IV. kafli frv. hefur að geyma ákvæði um nýtingu innlendra orkugjafa.

Í 14. gr. er Orkustofnun falið í samráði við Rafmagnsveitur ríkisins að gera áætlun fyrir tímabilið 1981–1983 um nýtingu innlendra orkugjafa til húshitunar í stað olíu. Skal það gera tillögur um árlegar framkvæmdir í orkumálum sem nauðsynlegar teljast til að sem flestir landsmenn búi við innlenda orkugjafa eða njóti orku frá olíukyntri fjarvarmaveitu í árslok 1983. Áætlunin skal kveða á um nauðsynlegar framkvæmdir og fjárþörf á hverju ári miðað við ákveðin markmið um hlutdeild innlendra orkugjafa í húshitun.

Í 15. gr. er heimild til að veita varmaveitum framlag til að jafna þann mun sem orkuverð þeirra er metið hærra en sem nemur hitunarkostnaði með olíu að frádregnum olíustyrk. Tvær hitaveitur á landinu selja orku á hærra verði en sem nemur kyndingarkostnaði með olíu að frádregnum olíustyrk, þ. e. á Suðureyri, minnir mig, og líklega á Blönduósi. Gera má ráð fyrir að þessum veitum fjölgi nokkuð á næstu árum.

Þá skal ég víkja nokkuð að kostnaðarhlið þeirra aðgerða sem í frv. felast. Gert er ráð fyrir að kostnaður árið 1980 verði sem hér segir miðað við verðlag í marsmánuði s. l.: Olíustyrkur samkv. 4. gr. og núgildandi lögum vegna fyrsta ársfjórðungs samtals 3 milljarðar 760 millj. kr., aukaolíustyrkur samkv. 5. gr. 200 millj. kr., skólahúsnæði samkv. a-lið 7. gr. 140 millj., rafveitur samkv. b-lið 7. gr. 80 millj., aðilar utan samveitu samkv. c-lið 7. gr. 20 millj., fræðslu- og upplýsingastarfsemi samkv. 11. gr. 20 millj., styrkir vegna ráðgjafarþjónustu samkv. 12. gr. 40 millj. og styrkir til varmaveitna samkv. 15. gr. 200 millj. eða samtals 4460 millj. kr. Í fjárlögum fyrir árið 1980 eru veittar í þessu skyni 4000 millj. kr. á vegum viðskrn. og 500 millj. kr. eru á vegum fjmrn., sem verða millifærðar eftir þörfum, og eru þær á lið 09 999 141 í fjárlögunum.

Í 16. gr. frv. er gert ráð fyrir að viðskrh. sé heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd II. kafla og iðnrh. um framkvæmd III. og IV. kafla laganna og er það í samræmi við fyrirhugaða verkaskiptingu um framkvæmd þeirra. Gert er ráð fyrir að ákvæði frv. gildi um greiðslu olíustyrks frá og með öðrum ársfjórðungi 1980, en greiðsla fyrir fyrsta ársfjórðung fari eftir núgildandi lögum.

Frv. fylgir mjög ítarleg grg. svo og margvíslegar töflur. Til upplýsinga að öðru leyti en því, sem ég hef nú rakið, vísa ég til texta frv. svo og grg. þess.

Þetta mál er hið mesta réttlætismál, þar sem mjög mikill munur er á kostnaði við upphitun húsa, sem hita verður upp með olíu, og hinna, sem hituð eru upp á annan veg. Ætla ég að málið fái góðar viðtökur hér á hv. Alþ. og greiðan gang í gegnum þingið.

Að lokum legg ég til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.