23.04.1980
Neðri deild: 63. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af því, að hv. síðasti ræðumaður kvartaði undan því að ekki hefði verið upplýst hvers vegna Vesturlínu varð ekki lokið haustið 1979. Ég var dálítið undrandi á þessu, því þetta er margþvælt og rætt mál bæði fyrir vestan og hér og ég held að fjöldi manna hafi komið með skýringar á því. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að til stóð að ljúka þessari línu fyrir haustið 1979. En staðreyndin er sú, að þegar starf við lánsfjáráætlun hófst í nýrri ríkisstjórn, sem settist að völdum 1. sept. 1978, var upplýst að ekki yrði unnt að ljúka við Vesturlínu á tilsettum tíma haustið 1979 þar sem ekki hafði verið ákveðin pöntun á efni til línanna í tæka tíð. Því var alls ekki tæknilega um það að ræða að unnt yrði að ljúka línunni fyrir þann tíma. Af hverju efnispöntun var ekki ákveðin fyrr skal ég ekki segja, en ég hygg að það hafi verið vegna þess að þá sat í nokkurn tíma ríkisstj., eftir kosningar, sem má segja að hafi beðið eftir því að láta af völdum og því ýmsar ákvarðanir lagðar til hliðar, og er ég ekki að kenna neinum um það.

Þetta voru þær upplýsingar sem okkur voru gefnar. Það var ekki tæknilega um það að ræða að ljúka línunni fyrir haustið 1979 af þessari ástæðu. Hitt vil ég svo jafnframt upplýsa, að í þeirri lánsfjáráætlun, sem að hluta hefur nú verið afgreidd, hefur fjárútvegun til að ljúka þessari línu haft forgang og samþ. að fullu áætlun Rafmagnsveitna ríkisins til þessa verks.