23.04.1980
Neðri deild: 63. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

120. mál, tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef staðið að því nál., sem hér liggur fyrir frá heilbr.- og trn., og tel mér því skylt að lýsa aðeins mínu sjónarmiði á þessu máli.

Ég held að þessi deila, sem staðið hefur lengi, um hvar tannsmiðir heyra til fræðslukerfinu þarfnist sem skjótastrar lausnar. Sannleikurinn er sá, að eins og málum er komið njóta tannsmiðir afskaplega takmarkaðrar kennslu að því leyti að þeir, þó að þeir heyri raunverulega undir iðnfræðslulögin, eru stétt sem ekki þarf að ganga í iðnskóla og getur þar af leiðandi á engan hátt talist iðnaðarstétt. Hins vegar, eins og mönnum er kunnugt, er enginn skóli til á vegum heilbrigðiskerfisins, þannig að kennsla tannsmiða hefur farið fram eingöngu hjá tannlæknum. Nú veit ég ekki til að tannlæknar hafi raunverulega nein staðfest réttindi til að kenna tannsmíði, sem er ærið mikið annað en tannlækningar, þannig að þetta ástand er auðvitað óþolandi eins og er. Hitt er e. t. v. stærra mál og þarfnast verulegrar umhugsunar að mínu mati, hvað langt á að ganga í skólanámi hinna ýmsu stétta sem tengdar eru heilbrigðiskerfinu og þá fyrst og fremst læknastéttinni. Ég hef persónulega ákveðnar efasemdir um að sú þróun, sem þar hefur farið fram, sé rétt, og ég get ekki séð að töluvert athuguðu máli nauðsynina á því að stofnaður verði sérstakur tannsmiðaskóli.

Vitaskuld getur aldrei komið til mála að tannsmiðir taki mót af tönnum og kjálkum og gómum manna. Það er auðvitað læknisfræðilegt atriði sem tannlæknar hljóta alltaf að annast. Mér er hins vegar fyrirmunað að sjá að verkefni tannsmiðsins sé annað en að smíða þessa hluti, sem við mörg þörfnumst að einhverju leyti eða öllu, og þar af leiðandi sýnist mér liggja nokkuð ljóst fyrir að þetta fólk er raunverulega einungis iðnaðarmenn. Á ég þá ekki við það í neikvæðri merkingu nema síður sé.

Mér er kunnugt um að tannlæknar hafa af þessu miklar áhyggjur og eru þar í stétt miklar æsingar uppi um þetta mál. Það er sjaldnast leiðin til að leysa mál. Þeir óttast að þessir iðnaðarmenn slitni úr tengslum við tannlæknastéttina. Slíkt er auðvitað fullkomlega fráleitt, og verkleg kennsla tannsmiða hlýtur eftir sem áður að fara fram í tengslum við tannlækna. Ég sé ekki annað en það sé svipað kerfi og er varðandi aðra iðnfræðslu, að menn eru í iðnskóla, en síðan stundi þeir verklegt nám hjá sínum meistara. Í þessu tilviki sýnist mér að það væri ósköp auðvelt að koma málum þannig fyrir.

Ég hef kynnt mér sjónarmið beggja aðila og sannarlega látið sannfærast um að sjónarmið tannsmiðanna sjálfra sé hið rétta, en þeir sækja sem kunnugt er fast að teljast til iðnaðarstétta.

Ég hef ekki verið áhugasöm um þær launadeilur sem átt hafa sér stað í sambandi við þetta mál. Hins vegar er það alkunna, að tannsmiðurinn fær eins og sakir standa tæplega nema 1/3 greiddan af því verki sem unnið er. Ég hef á engan hátt talið mig hæfa til að meta hvort það er ósanngjarnt hvernig efniskostnaði er fyrir komið í uppgjöri milli tannlækna og tannsmiða, en ég er hins vegar þeirrar bjargföstu skoðunar, að eðlilegast sé að þessir menn séu iðnaðarmenn sem gangi í iðnskóla og stundi síðan verklegt nám undir handleiðslu tannlækna.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að vel kann að vera að hér sé nokkurt fordæmi á ferðinni, og vil minna á aðra stétt sem má segja að sé í mjög svipaðri aðstöðu, en það eru gervilimasmiðir. Þeir tilheyra tæknimenntuðum heilbrigðisstéttum. En ég verð að lýsa þeirri skoðun minni, að þar finnst mér nákvæmlega sama málið á ferðinni. Ég óttast satt að segja dálítið hvernig mál eru að þróast í sambandi við heilbrigðisstéttirnar, og það mál á sennilega eftir að verða mikið hitamál þegar kemur að afgreiðslu á frv. um framhaldsskólamenntun. Við erum, hygg ég, æðimörg sem efumst um þróun mála hjúkrunarfræðinga, þar sem margir skólar og mörg menntakerfi eru í gangi. Þá er komin ný stétt sem heitir sjúkraliðar. Mér er ekki alveg grunlaust um að sjúkraliðarnir séu farnir að gera meira að því að hjúkra fólki en hjúkrunarfræðingarnir. Og það kann að vera afturhaldssemi í meira lagi, en það verður þá að hafa það, en þegar fólk er farið að heita hjúkrunarforstjórar finnst mér skörin vera farin að færast upp í bekkinn í þessum efnum.

Ég mun þess vegna styðja þetta frv. eins og það nú liggur fyrir og hef þegar gert það með aðild að nál. og tel það vera rétt mál og beri að athuga fleiri því tengd mál. Eins og er eru tannsmiðir eina stéttin, sem tengd er heilbrigðiskerfinu, sem er inni í iðnfræðslulögunum, en ég tel hiklaust að þar mættu koma til fleiri slíkar stéttir.