23.04.1980
Neðri deild: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

161. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki o.fl.

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er eina ástæða til þess að ég kveð mér hljóðs um þetta mál, að mér finnst málfarið á þessu frv. það svakalegasta sem ég hef nokkru sinni séð í frv. sem lagt hefur verið hér fram, og þarf meira en meðalmann til að skilja hvað hér er á ferðinni. En ég er sannfærður um að hæstv. landbrh. kom því til skila sem þarna þurfti að koma fram, þ. e. að tilgangurinn með þessu er að reyna að draga úr smjörfjallinu fræga. En þá er það bara spurning sem ósvarað er: Ef smjörlíkið verður bætt mjög með smjöri dregur það þá ekki úr sölu á smjöri, þ. e. verður þá ekki keypt meira smjörlíki?

En herra forseti. Það eru hér tvær setningar úr þessu frv. sem mig langar að lesa, með leyfi hæstv. forseta. (Forseti: Það er veitt það leyfi.) „Rjómalíki nefnist feiti jafningur sem líkist rjóma, en inniheldur aðra feiti en mjólkurfitu í magni er nemur meiru en 25% af fitumagninu.“

Síðan má halda áfram, með leyfi hæstv. forseta: (Forseti: Það er veitt.) „Mjólkurlíki kallast vökvi sem líkist mjólk að útliti og efnasamsetningu, en inniheldur feiti sem ekki á rót sína að rekja til mjólkur, í magni er nemur meiru en 25% af heildarfitumagni.“

Síðan kemur í grg., með leyfi hæstv. forseta: „Hefur þar verið haft í huga að halda bragðeiginleikum smjörsins og fjölbreytni þess í tegundum fitusýra og gera það auðsmyrjanlegt við kæliskápshitastig.“

Ég ætla ekki að öðru leyti að amast við þessu frv. né tilganginum sem í því felst. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að þegar frv. af þessu tagi, eru lögð fram, er það nánast frumskilyrði að, þeir, sem um þau fjalla, skilji hvað um er að ræða.