23.04.1980
Neðri deild: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

131. mál, flugvallagjald

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það má raunar segja að hið háa Alþingi hafi tekið afstöðu til þessa máls við afgreiðslu fjárlaganna, þar sem gert er ráð fyrir svo og svo miklum tekjum af þessu gjaldi. Allt að einu er að því gætandi, að fjárlög taka ekki af önnur lög, þannig að lokaákvörðun felst í frágangi þessa frv.

Hér er á ferðinni áframhald á hinni mögnuðu áráttu núv. hæstv. ríkisstj. að halda áfram skattpíningarstefnu í öllum þeim efnum sem hún við kemur, og má helst líkja þessu við það að hæstv. ríkisstj. sé skipuð pólitískri sjálfsmorðssveit. Boðuð er niðurtalning, en hvar sem borið er niður í tekjuaukningarmöguleikum fyrir ríkissjóð er lagst á þá sveifina og henni snúið með þeim hætti að allt er auðvitað í þá veru að auka á ósköpin sem viðgangast í þjóðfélaginu og þessi hæstv. ríkisstj. var mynduð til þess að stemma stigu við, þar sem er óðaverðbólgan. Og svo afsaka menn sig með því, eins og hæstv. fjmrh. gerði við afgreiðslu fjárl., að þetta hefði verið fundið upp af einhverjum fyrirrennara sínum! Það er nú mynd á því, eins og þá var getið um, að menn væru ekki skuldbundnir að éta upp alla þá vitleysu sem einhverjir fyrirrennarar þeirra kynnu að hafa fundið upp á.

Hér er sem sagt lögð til stórhækkun á flugvallagjaldi. Ef menn ætla að hér sé verið að leggja skatt á einhverja auðkýfinga, sem ferðast á milli landa eða innanlands, er það alger misskilningur. Ferðalög eru orðin almenningsháttur og stunduð af öllum, háum sem lágum, þannig að gjaldið kemur mjög illa við. Ég hélt út af fyrir sig, að okkar flugfélög, sem við þurfum að styðja og styrkja í framtíðinni, stæðu nægjanlega illa þó að ekki væri með þessum hætti verið að draga úr sölumöguleikum og framfærslumöguleikum þess fyrirtækis, eins og hlýtur að verða með þessum háa skatti. Og ekki nóg með að hann sé hækkaður um 60% frá því sem fyrri vinstri stjórnin gerði 1978, úr 5500 kr., sem þá hafði verið hækkað úr 2500, heldur vilja menn nú tryggja sig í framtíðinni með beitingu hæstu vísitölu sem finnanleg er, byggingarvísitölunni, þannig að heimildin verði nú í höndum ráðh. og þurfi ekki að sækja til Alþingis jafnóðum um leyfi til að hækka þetta eins og verðbólguhjólið snýst.

Með því að ætla að gera ráð fyrir flugvallagjaldi vegna innanlandsflugs er verið að leggja skatt á strjálbýlið alveg sérstaklega. Ég hefði haldið að samgöngur við það væru ekki með þeim hætti að frambærilegt væri að skattleggja það alveg sérstaklega.

Ég á von á því að þessu máli verði vísað til þeirrar n. sem ég á sæti í, fjh.- og viðskn., þannig að ég get stytt mál mitt nú, en kaus að nota þetta tækifæri til þess enn á ný að vekja athygli á þessari ósvinnu sem viðgengst og hæstv. ríkisstj. virðist einbeita sér að, og það er að halda fram hinni mögnuðu skattpíningarstefnu, ekki til að safna í sjóði, heldur til að eyða öllu saman jafnóðum aftur.

Við eigum eftir að koma hér að umr. um skattstigafrv., sem hæstv. ríkisstj. hefur í takinu og er til meðferðar í Ed. og menn koma sér ekki að því að ræða fyrir alþjóð og er frestað dögum og vikum saman. Þar munum við sjá að ekki er nóg með að seilst sé þar eins langt og tök eru á, heldur ýmsar forsendur viljandi hafðar rangar, eins og til að mynda að ekki hefur verið tekið nálægt því nægjanlegt tillit til hækkunar á tekjum milli ára, þar sem miðað er við 45% hækkun, en menn áætla þetta upp undir 50% milli ára. Það þýðir auðvitað milljarða sem er með þeim hætti verið að fela til þess að auka tekjur ríkissjóðs. Síðan veltast þeir fram á eftir, þessir háu herrar, með nýjar og nýjar tillögur og vita auðvitað vart sitt rjúkandi ráð því að þeir eru dauðhræddir orðnir í málinu. Þá er allur myndarskapurinn sá eftir nýjustu tillögum þeirra að færa nokkra milljónatugi á milli flokka innan sjálfs frv., en það má auðvitað ekki sjá af einum einasta eyri í að draga úr skattpíningu, enda þótt hægt sé að sýna fram á að umframtekjurnar vegna hærri tekna milli ára nema milljörðum fram yfir það sem reiknað er með.

Þetta er þess vegna allt á sömu bók lært. Og ég verð enn á ný að lýsa hryggð minni yfir því, að félagar mínir nokkrir, sem nú eru í bland við tröllin, hafa brugðist þeim hátíðlegu loforðum sem þeir gáfu ásamt okkur um að afnema hina nýju skatta sem settir voru í tíð vinstri stjórnarinnar og Tómas Árnason var frumkvöðull að, eins og t. a. m. hækkun á flugvallagjaldinu. Þeir höfðu hátíðlega lofað því í kosningabaráttunni við alþjóð og voru kosnir vegna þeirra loforða ekki síst, þar sem átti að afnema alla þá nýju skatta. Þeir gera þveröfugt, og á maður bágt með að skilja hvernig í ósköpunum stendur á því.

Líka marglýsti hæstv. forsrh. yfir á opinberum vettvangi að ekki yrði um skattahækkanir að tefla. Vilja menn kannske líta á hvað það þýðir að viðhalda aukningunni á söluskatti og vörugjaldi sem sett var á í septemberlok 1979 og gaf þá í ríkissjóð 3 milljarða? Hvað ætti það þýði í aukningu á þessu ári? Þetta gefur í allt 18 milljarða á þessu ári. Aukningin er þar af leiðandi 15 milljarðar.

Svo koma æðstu menn þjóðarinnar fram fyrir alþjóð og leyfa sér að halda því fram, að ekki sé verið að auka skatta, eða öllu heldur lýsa því yfir, að svo verði ekki gert. Og í viðtölum nýlega, í blaði í dag, lýsir hæstv. forsrh. yfir að ekki séu tök á að lækka skatta. Er það að furða að ekki séu tök á því þegar menn eru að margfalda þá með tugmilljarða nýjum álögum. Á okkar gömlu félaga, sem bráðum verða okkar góðu samvinnumenn aftur, — á því er enginn vafi þó að þeir hafi villst af leið í bili, misst áttanna, — er meira en sorglegt að horfa taka þátt í þessum leik hafandi lofað alþjóð allt öðru og fengið umboð kjósenda Sjálfstfl. til þess að haga sér samkv. þeim loforðum.

Ég sé ekki ástæðu til að setja á lengri tölu vegna þessa sérstaklega. Þetta er lítilmótleg aðferð, sem hér er viðhöfð, en hún gefur dálítið í aðra hönd. Hún gefur vel á annan milljarð í aðra hönd, þótt það láti kannske ekki mikið yfir sér. Með öllum hætti þarf að seilast ofan í vasa almennings, eins og hér ber raun vitni um. Það er alveg sama uppi á teningnum og með orkujöfnunargjaldið. Það er lífsnauðsynleg framkvæmd að jafna orkukostnað í landinu, en þá er því kippt út úr fjárlögunum og sett upp ný innheimtuaðferð til þess líka að stela þessu fram hjá kaupgjaldsvísitölu, en fulltrúar Alþb. hafa ekki alltaf hælt þeirri aðferð.

Vitaskuld er þetta m. a. varið með því að hér eigi að fara að hygla framkvæmdum í flugvallagerð. Það er hægt að kalla svona aðferðir ýmsum nöfnum, draga gjaldið út úr sjálfu fjárlagadæminu, sem á að sjá fyrir þessum þörfum, og skýra það einhverjum göfugum nöfnum. En ekki er þetta nema vegna þess að það er þá búið að eyða í óráðsíuna öðrum tekjum ríkissjóðs sem hefðu átt að geta runnið til þessara framkvæmda. Allt eru þetta mannasetningar, en ef grannt er skoðað á það sér enga stoð og síst sanngirnisstoð.