23.04.1980
Neðri deild: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2072 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

131. mál, flugvallagjald

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Út af þessum málum vil ég aðeins taka undir með hæstv. forseta, hv. þm. Sverri Hermannssyni, þau atriði sem hann fjallaði um í ræðu sinni þegar hann gerði enn einu sinni skil þeim skattheimtuaðferðum sem hæstv. ríkisstj., sem nú situr, hefur staðið fyrir um nokkurt skeið. Og vegna orða hæstv. ráðh. um áhrif orkujöfnunargjalds á verðbótavísitölu tel ég skylt að það komi fram hér, að í 50. gr. — mig minnir að það sé 50. gr. — svokallaðra Ólafslaga, laga um efnahagsmál, nr. 13 frá 1979, er sérstaklega tekið fram að slíkur frádráttur hefði jafnframt komið fram þótt um aðrar aðgerðir en um skattheimtu hefði verið að ræða. Þetta er skýrt tekið fram í þessum lögum og þýðir auðvitað að á þeim tíma gerði þáv. hæstv. ríkisstj. ráð fyrir að hægt væri að fara aðrar leiðir en skattahækkanaleiðir til að ná þeim fjármunum fram sem þyrfti til að sinna réttlætismáli því sem felst í að greiða niður eða jafna húshitunarkostnað í landinu.

Það verður að koma fram í þessum umr., fyrst á þessi mál er minnst, að hæstv. núv. ríkisstj. notfærði sér bókstaflega bágindi fólksins í landinu til að heimta inn aukna skatta í nafni orkujöfnunar. Þannig voru á sínum tíma teknir út úr fjárlagafrv. 2.8 milljarðar sem voru í fyrstu tveimur útgáfunum fyrir þetta ár. Þeir hurfu sporlaust án þess að niðurstöðutölur gæfu nokkuð til kynna um að það kæmi fram í lækkaðri tekjuáætlun ríkissjóðs. Auðvitað gerðist þetta vegna þess að ríkissjóður þurfti á þessum fjármunum að halda í aðra alls óskylda hluti. Hæstv. fjmrh. lýsti þá yfir því á hv. Alþ., að þetta skipti í sjálfu sér engu máli þar sem þarna væri um beina millifærslu að ræða, sérstakan skatt sem rynni til ákveðins verkefnis, slíkur skattur væri fyrirhugaður og hann ætti ekkert frekar heima í fjárlögum. Auðvitað varð hæstv. ráðh. að renna þessu öllu saman ofan í sig aftur og þetta atriði lenti innan fjárlaga við 3. umr., en þá var heimt inn með nýrri skattheimtu svokallað orkujöfnunargjald, sem auðvitað var ekkert annað en hækkun á söluskatti sem í fyrstu átti að vera 2 prósentustig og hefði gefið ríkissjóði u. þ. b. helmingi meira en þurfti til að jafna húshitunarkostnaðinn samkv. þeim áformum sem hæstv. ríkisstj. hafði í því máli. Þetta var síðan lækkað og mér hefur skilist að það hafi gerst vegna gífurlegs þrýstings ákveðinna hv. þm., bæði í Alþb. og eins í Framsfl., og skil ég vel að skatturinn skuli hafa verið lækkaður. Hann var þó ekki lækkaður meira en svo að gera má ráð fyrir að talsverðir fjármunir verði umfram það sem á að fara til niðurgreiðslu á húshitunarolíunni.

Þannig má gera ráð fyrir, og það stendur og hefur ekki verið hrakið, að ríkisstj. hafi í raun náð sér í milli 4 og 5 milljarða kr. út á það réttlætismál að greiða niður húshitun á olíu, en notað það fjármagn til allt annarra og óskyldra hluta. Þetta þarf að ítreka eins oft og maður getur í sölum hv. Alþingis vegna þess að þjóðin á auðvitað heimtingu á því að fá að vita hvernig hæstv. núv. ríkisstj. beitir slíkum málum sér til framdráttar í allt öðrum málum en hún þykist í orði kveðnu vera að berjast fyrir.

Varðandi það mál, sem hér liggur fyrir, er það alveg rétt sem komið hefur fram, að skatturinn var settur á sínum tíma til bráðabirgða, eins og fjölmargir aðrir skattar í þjóðfélaginu. En það ætlar að vera eins með þennan skatt og marga aðra skatta, að þeir öðlast eiginlega eilíft líf um leið og þeir eru komnir í lagabúning. Og með því frv., sem hér liggur fyrir, en m. a. s. tryggt með þeim hætti að nú þarf ekki lengur að leita til hv. Alþ., til löggjafar- og fjárveitingavaldsins, um að þessi skattur hækki, heldur á hann að hækka alveg sjálfvirkt samkv. þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Þannig verður þessi skattur ein varðan á varðaðri skattaleið ríkisstj., enn ein yfirlýsingin um að leysa eigi öll mál þjóðfélagsins með því að kafa ofan í vasa skattborgaranna, en spyrja aldrei hvort ekki sé ástæða til að skera einhvers staðar niður eða spara þannig að skattgreiðendur í þjóðfélaginu fái haldið eftir einhverju af fjármunum sínum.

Það er vegna þessa sem við sjálfstæðismenn munum leggja á það ofurkapp á þessu þingi að koma í veg fyrir, að þetta frv. nái fram að ganga, og munum leggja okkur fram um það sem mest við megum og vonumst til þess að þeir sjálfstæðismenn, sem hafa lýst yfir einhvers konar stuðningi við ríkisstj. og sitja jafnvel í henni, fái ráðrúm til að kanna aftur hug sinn og taka aðra afstöðu til málsins en hv. Ed. gerði.

Ég vil ljúka máli mínu með því að höfða sérstaklega til þessara aðila um að þeir standi við yfirlýsingar sem Sjálfstfl. gaf fyrir kosningar og komu fram í skýru máli hv. þm. Sverris Hermannssonar áðan.