23.04.1980
Neðri deild: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

131. mál, flugvallagjald

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er til umr. enn þá eitt skattafrv. ríkisstj., en umr. hér á þingi hafa í allverulegum mæli snúist um aukna skatta á borgara þessa lands. Ég er ekki viss um að menn átti sig á því, hvers konar óréttlæti fylgir þeirri skattlagningu sem kemur fram í þessu frv. Þetta óréttlæti kemur einkum fram gagnvart íbúum dreifbýlis þessa lands. Þetta er skattur sem mætti að nokkru leyti jafna við átthagafjötra. Það eru lagðir fjötrar á það fólk sem fjærst býr höfuðborgarsvæðinu, þarf að ferðast til þess í margvíslegum tilgangi, fólk sem ekki nýtur þjónustu í sínum byggðarlögum, sem það þarf á að halda, og verður að sækja hana hingað til Reykjavíkur. Við skulum taka sem dæmi fólk sem þarf að sækja til Reykjavíkursvæðisins læknisþjónustu og annað slíkt.

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að þm. t. d. Vestfjarða eða þm. Norðurl. e., hvar í flokki sem þeir standa, séu tilbúnir að styðja þetta frv. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að þessir menn samþykki auknar skattaálögur á það fólk, sem þeir eru fulltrúar fyrir, ofan á allt annað sem komið hefur undanfarnar vikur. Ég vil benda á það m. a., að sú söluskattshækkun, sem nýverið var ákveðin hér á þingi, leggst með enn þá meiri þunga á fólkið í dreifbýlinu en fólkið í þéttbýlinu. Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér nál. frá 3. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. frá því málið var til umr. þar. Þar segir:

„Í ljósi þeirrar gífurlegu skattheimtu, sem ríkisstj. ryður nú fram á öllum sviðum, er ekki stætt á því að hækka sérstaklega um 60% flugvallagjald, sem innheimt er af öllum flugfarþegum, eins og fyrirliggjandi frv. gerir ráð fyrir, enda er það andstætt tilraunum til viðnáms gegn verðbólgunni.

Þvert á móti á ríkisvaldið að gæta þess, að álögð gjöld af þess hálfu hækki minna en áætluðum verðhækkunum nemur, og ryðja þannig brautina og sýna fordæmi um niðurtalningu verðbólgunnar. Í annan stað er að ýmsu leyti óréttlátt að innheimta flugvallagjald af innanlandsflugi og skattleggja þannig sérstaklega dreifbýlið, sem verður að reiða sig í ríkum mæli á flugsamgöngur.“

Ég er, herra forseti, alfarið andvígur því, að þessi flugvallaskattur verði hækkaður. Ég er andvígur því fyrst og fremst að hann verði lagður á innanlandsflugið. Ég gæti fremur hugsað mér einhvern skatt á millilandaflug og mun ekki mótmæla honum, þó mér þyki hækkunin allveruleg eða 60% og hefði kannske nægt um það bil 35% hækkun. Þessi skattur, sem hér er til umr. og ríkisstj. hyggst leggja á landsmenn, leggst svo til eingöngu á fólkið í dreifbýlinu og raunverulega því meir sem þetta fólk býr fjær Reykjavíkursvæðinu, vegna þess að þeir, sem nær búa, ferðast fremur með bifreiðum. Þeir, sem lengra búa frá Reykjavikursvæðinu, eru tilneyddir í mörgum tilvikum, t. d. yfir vetrarmánuðina, að nota flugvélar. Ég tel að þessi skattur á innanlandsflugið leggist á fólk sem kemst ekki hjá því að ferðast með flugvélum í talsverðum mæli, m. a. til þess að nálgast þá þjónustu sem ég nefndi áðan. Ég hélt að það væri nóg að gert að leggja himinháan söluskatt á allan aukakostnað vegna flutninga á vörum út á land, söluskatt sem þéttbýlisfólkið losnar við, þó ekki sé verið að bæta við einum skatti til viðbótar, sem leggst með mestum þunga á það fólk sem söluskatturinn leggst með mestum þunga á. Ég verð að segja að ef svo fer, að hv. þm, þeirra kjördæma, sem fjærst liggja Reykjavíkursvæðinu, fulltrúar þess fólks sem mest á undir því að nota flugvélar, samþykkja þessa hækkun, þá eru þeir að bregðast kjósendum sínum, og þeir gera það ekki í fyrsta skipti vegna þess að þeir gerðu það á mjög alvarlegan hátt þegar þeir samþykktu hækkaðan söluskatt á þetta sama fólk.

Það er kannske svo, að menn hafi ekki áttað sig á því hvað þetta þýðir í raun og veru, þessi skattlagning sem kemur svo misjafnlega niður á íbúum þessa lands. Ég skora á þessa þm., hvar í flokki sem þeir standa að samþykkja ekki skatt á innanlandsflug. Ég skora á þá að vera þeir menn að samþ. ekki þennan skatt. Það er orðið nógu dýrt að ferðast á milli landshluta. Það er orðið nógu dýrt að búa t. d. í Norðurl. e., í þeim hlutum þess sem nyrst liggja og þurfa að eiga nánast allar samgöngur við þéttbýlisstaði undir flugi, þó að ekki sé lagður á íbúana einn aukaskatturinn enn. Og ég er ansi hræddur um að þm. úr þeim kjördæmum, þar sem flug er mest notað, verði ekki þakkað ef þessum skatti verður bætt ofan á aðra skatta sem þegar hafa verið lagðir á kjósendur þeirra og þá sem þeir eru fulltrúar fyrir.