28.04.1980
Sameinað þing: 48. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

164. mál, vegáætlun 1979-1982

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Mér hugnaðist nokkuð vel hluti úr ræðu hæstv. ráðh. þegar hann fór almennum orðum um vegamálin og nauðsyn framkvæmda í vegamálum og hvað við Íslendingar hefðum dregist aftur úr á því sviði. Þeim mun meira varð ég undrandi yfir því að heyra hæstv. ráðh. segja að hann teldi 22% hækkun frá 1979 í nýframkvæmdum vega viðunandi á sama tíma sem skattar á umferðina hafa aukist svo gífurlega að þess munu sjálfsagt fá dæmi í veröldinni að slíkt hafi gerst.

Ég vil líka benda hæstv. ráðh. á að á þessum áratug hafa aldrei verið jafnlitlar framkvæmdir í vegamálum og á árinu 1979. Þess vegna er viðmiðun hans við árið 1979 og að hann telji vegaframkvæmdir á þessu ári „viðunandi“ alveg fráleit. Ég vil benda hæstv. ráðh. á að í ár er ætlunin að verja um það bil svipuðu fjármagni að raungildi til vegamála og á árunum 1975–1973, í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, en þá voru skattar á umferðina allt aðrir en nú er. Ég mun fara frekar út í þetta síðar í ræðu minni.

Einnig er á það að líta, að á þessu ári næst 22% magnaukning frá því í fyrra einvörðungu með nýjum lántökum. Svo ill eru viðskipti ríkissjóðs við Vegasjóð að það eru einvörðungu lántökur sem standa undir þessari magnaukningu. Þess vegna finnst mér, þegar hæstv. ráðh. mælir fyrir till., sem hér er til umr. og um að skerða framlög til vegamála frá núgildandi vegáætlun um 4.5 milljarða, og segir, að hann telji það sem samgrh. viðunandi, að ummæli hans séu alveg furðuleg. Mér finnst þetta undarlegt — ekki síst þegar haft er í huga að í málefnasamningnum stendur ef ég man rétt: „Staðið skal við fyrirliggjandi vegáætlun fyrir árin 1980–82.“ Ég vil spyrja hæstv. ráðh. og raunar fleiri hv. þm., eins og t. d. hv. þm. Eggert Haukdal sem því miður hefur ekki séð ástæðu til að vera viðstaddur umræður um vegamál hér, hvort þeir telji að þarna sé verið að standa við málefnasamning hæstv. ríkisstj. í vegamálum.

Þegar vegáætlun fyrir 1980–82 var til umr. fyrir réttu ári skrifuðum við Pálmi Jónsson og Ellert Schram, sem þá vorum fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn., undir nál. með fyrirvara. Í nál. segir:

„Þeir vilja taka fram, aðvegna ákvörðunar ríkisstj. um stórfelldan niðurskurð á framlögum ríkissjóðs til vegamála á þessu ári mun verða um 15% magnminnkun nýbygginga vega í landinu frá því í fyrra, þrátt fyrir gífurlega auknar skattaálögur á umferðina. Síðari ár vegáætlunar er stefnt í nokkra magnaukningu vegaframkvæmda, án þess að minnsta tilraun sé gerð til þess að ríkisstj. og Alþ. móti stefnu í fjáröflun til þess á annan hátt en gera ráð fyrir nýjum lántökum.“

Í ræðu, sem ég hélt við afgreiðslu vegáætlunar í fyrra benti ég á þennan annmarka. Ég benti á stórfellda skattahækkun á umferðina og að hún rynni til eyðslu ríkissjóðs og að á árunum 1980–82 væri ríkisframlag algerlega fellt niður úr vegáætlun, en framlag ríkissjóðs til vegamála var á föstu verðlagi í fyrra 2015 millj. kr. 1977 og árið 1978 2160 millj., en einungis 580 millj. í fyrra og síðan var það fellt út úr áætluninni eins og hún er nú í gildi. En ég skal taka það fram, að í þessari áætlun er gert ráð fyrir 1000 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði, sem mundi jafngilda 670 millj. á verðlagi ársins 1979.

Hér gildir einu þó að fjármagnskostnaður af lánum, sem ríkissjóður stendur straum af, sé tekinn inn í dæmið, vegna þess að á þessum árum hefur þessi fjármagnskostnaður verið í kringum 2000 millj. kr. á föstu verðlagi og er það enn. Þá stefnu gildandi vegáætlunar í vegamálum að ná framkvæmdamagni árið 1980 sem jafngildi meðaltalsframkvæmdamagni áranna 1970–1979 og 5% aukningu árin 1981 og 1982 átti að framkvæma þrátt fyrir að fella átti niður framlag ríkissjóðs til vegamála og án þess að gera ráð fyrir að markaðir tekjustofnar breyttust, en til að brúa bilið er í gildandi áætlun ákveðið að taka meiri lán. Á þetta benti ég og við fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. og um þetta sagði ég orðrétt í ræðu:

„Það kemur í hlut þeirra, sem fara með ríkisfjármál 1980–1982, að útvega það fjármagn sem þarf til þess að standa við þá vegáætlun sem hér er til umræðu.“

Ég verð að játa að mér datt síst í hug að hæstv. fyrrv. samgrh., sem mælti fyrir vegáætlun 1980–82, og hrósaði sér yfir því að brjóta í blað í vegamálum, yrði nú orðinn fjmrh. og stæði í því að skera vegáætlunina niður að raungildi um 4.5 milljarða á þessu ári, en það er skýrt tekið fram í grg. með þessari till., að vegáætlunin er skorin niður um 4.5 milljarða. Í grg. segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Til að verðbæta áætlunina að fullu“ — þá er átt við áætlunina sem samþykkt var í fyrra fyrir 1980 — „og greiða halla á nokkrum bundnum liðum frá 1979 (aðallega vetrarviðahaldi) þyrftu heildarútgjöld að hækka um 6.5 milljarða kr.

Á þessu stigi þykir ekki fært að auka útgjöld svo mikið, og frestast því um sinn að ná þeim markmiðum í magnaukningu, sem að var stefnt. Till. gerir ráð fyrir aukningu um 2 milljarða kr. Sá magnsamdráttur frá upphaflegri áætlun, sem þannig verður í ár, bitnar á þeim liðum sem mest var bætt við í áætluninni, þ. e. nokkuð á sumarviðhaldi, en þó einkum á nýjum framkvæmdum í vega- og brúagerð.“

Þessi skerðing frá vegáætlun, sem samþykkt var í fyrra, kemur þannig fram að almenn verkefni í nýbyggingu vega, ef frá eru talin Borgarfjarðarbrú og Önundarfjörður, skerðast að verðgildi um 2 milljarða 464 millj. kr. eða um 24.4%. Nýbyggingar brúa skerðast enn meira. Þar er skerðing um 400 millj. eða 40%. Til sumarviðhalds verður 1600 millj. kr. minna og til vetrarviðhalds 600 millj. kr. minna en upphaflega var gert ráð fyrir í áætluninni 1980.

Á árinu 1979, fyrsta ráðherraári hæstv. fyrrv. samgrh. og núv. hæstv. fjmrh., Ragnars Arnalds, urðu minnstar vegaframkvæmdir sem orðið hafa í landinu á þessum áratug. Hæstv. ráðh. talaði því um að brjóta í blað í vegamálum á árinu 1980 og skyldi þá náð því marki að framkvæmdamagn í nýbyggingum vega og brúa skyldi vera að raungildi sama og meðaltal áratugsins frá 1970. Hvernig verður nú í þetta blað brotið þegar tillaga er komin fram um skerðingu vegáætlunar í fyrra að raungildi um 4.5 milljarða?

Það má heita, eins og ég sagði áðan, að nákvæmlega jafnmiklu fé sé að raungildi varið til vegamála í ár og í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Meðaltalsframlög til nýbygginga vega árin 1975–78 voru að raungildi, miðað við verðlag í ár, 11 milljarðar 200 millj. kr. En samkvæmt þáltill. um endurskoðaða vegáætlun, sem er til umr., er áætlað að verja til þessa 11.4 milljörðum kr., sem sagt nákvæmlega sömu upphæð. Þetta er öll stökkbreytingin sem stefnt var að í vegamálum á sama tíma sem skattar á umferðina hafa aukist svo gífurlega umfram verðlag að heimsmet hefur verið slegið.

Það er athyglisvert við þessa vegáætlun, að eina framkvæmdin, sem ætlunin er að standa við samkv. gildandi vegáætlun, er Borgarfjarðarbrú. Það má því segja að hæstv. ríkisstj. hugsi sér að standa við málefnasamning sinn að því er varðar vegamál um þetta eina verkefni. Það var athyglisvert, að fram kom í ræðu hæstv. ráðh. að þetta bitnar á öðrum sérverkefnum úti um allt land. Ég sé að hæstv. landbrh. er kominn hér. Hann verður sjálfsagt kátur yfir því að þetta dregur úr fjárframlögum til vegaframkvæmda um Héraðsvötn, sem eru sérverkefni.

Það er einnig athyglisvert við till., sem hér er til umr., eins og kom glöggt fram í máli hæstv. ráðh., að það er dregið stórlega úr viðhaldi vega miðað við það sem stefnt var að. Sumarviðhald verður einungis 73% af því sem Vegagerð ríkisins áætlar að þörf sé á. Vetrarviðhald er þó skorið sérstaklega niður, langt umfram öll eðlileg mörk. Upplýst er að næsta haust þurfi að verða eins snjólétt og seinni hluta þessa vetrar á öllu landinu til þess að sú upphæð hrökkvi til sem hér er á blaði. Spurningin er hvort hæstv. ríkisstj. ætlar að setja brbl. um að næsti vetur verði jafnsnjóléttur og þessi.

Ég verð að segja alveg eins og er, að mér er ekki hlátur í hug í þessu máli að því er varðar vetrarviðhaldið. Það er víða svo, að vetrarviðhaldi er áfátt og þörf á meiri snjómokstri til þess að íbúar stórra byggðarlaga komist leiðar sinnar á vetrum. Þess vegna er hér ekki um að ræða einungis samgöngumál, heldur nánast mannréttindamál. Víða er það svo, að fólk getur ekki komist til læknis nema samgöngur séu í lagi. Hér er því um að ræða alveg fáránlega hugmynd, að skera vetrarviðhald niður með þessum hætti. Mér er líka til efs að það hafi verið ætlunin. Hins vegar kom það fram í máli hæstv. ráðh., að hann lagði metnað sinn í að nýbyggingar vega yrðu ekki skornar niður frá gildandi vegáætlun að krónutölu til milli þessarar till. og gildandi vegáætlunar. Það mun hafa ráðið því, að ráðist var þarna á garðinn, að mér finnst þar sem hann var lægstur fyrir að öðru leyti í vegáætlun.

Í fyrra, þegar vegáætlun fyrir 1980–82 var til umr., fór hæstv. þáv. samgrh. og núv. hæstv. fjmrh., Ragnar Arnalds, nokkrum orðum um þann málflutning minn að fjáröflun til að standa við vegáætlun væri í raun botnlaus og að það kæmi í hlut þeirra, sem færu með ríkisfjármál 1980–82, að útvega fjármagn til að standa við stefnu áætlunarinnar um vegaframkvæmdir. Hæstv. ráðh. sagði í þessu sambandi orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

Hv. þm. Lárus Jónsson hafði miklar áhyggjur af því, að tölurnar fyrir árið 1980 væru úr lausu lofti gripnar, vegna þess að ekki væri í smáatriðum gerð grein fyrir því, hvernig fjárins skyldi aflað.“ Og enn sagði hæstv. ráðh.: „Ég tel hins vegar að þarna þurfi ekki að vera um neitt sérstakt áhyggjuefni að ræða.“

Og svo bætti hæstv. ráðh. við, þegar hann er búinn að tala um nauðsyn þess að viðhalda verðgildi markaðra tekjustofna:

„Ef við gerum síðan ráð fyrir því einnig, að ríkisframlög verði svipuð, miðað við óbreytt verðlag, eins og var á árunum 1972–78, en þá var um að ræða ríkisframlag á hverju ári sem nam frá 1400 og upp í 1700 millj. kr. á ári hverju miðað við verðlag ársins 1978, þá virðist mér, án þess að ég sé að sundurliða það í smærri atriðum, að ekki þurfi að vera um að ræða meiri lántökur til vegagerðar á árinu 1980 til þess að uppfylla þann ramma, sem fyrir liggur, en oft hefur áður verið.“

Hér kemur hæstv. ráðh. að kjarna málsins, þ. e. raunverulegum framlögum ríkissjóðs til vegaframkvæmda. Það kom nefnilega í ljós, að ástæða var til að hafa áhyggjur af þessu, jafnvel þó svo skemmtilega vildi til að hæstv. samgrh. yrði fjmrh. og það kæmi í hans hlut að stýra framlögum ríkissjóðs til vegaframkvæmda á árinu 1980, þegar hann ætlaði að brjóta í blað í vegamálum. Beint framlag ríkissjóðs til vegaframkvæmda á þessu ári er 1000 millj. kr. á núverandi verðlagi samkv. þáltill. Þetta framlag var 1978, þegar sjálfstæðismenn réðu ríkisfjármálunum, á núgildandi verðlagi 3200 millj. kr. Þótt fjármagnskostnaði, sem ríkissjóður greiðir af lánum til vegagerðar, sé bætt við bæði árin breytir það ekki þessari mynd, því að hann er svipaður á föstu verðlagi samkv. upplýsingum Vegagerðar ríkisins.

Á þessu tímabili, milli áranna 1978 og 1980, hafa skattar af bensíni aukist umfram verðlagshækkanir um 10 milljarða kr. Þessir skattar nema alls á verðlagi fjárlaganna 29 milljörðum í ár. 1978 fóru 51% af þessum sköttum til vegaframkvæmda. Samkv. því ætti að verja nú 14 800 millj. kr. af bensínsköttum til vegagerðar. Samkv. þessari till. á einungis að verja 11 milljörðum kr. til vegagerðar. Í því sambandi var fróðlegt að heyra hæstv. samgrh. segja að hann væri þeirrar skoðunar, að það ætti að verja öllum sköttum af bensíni til vegagerðar. Hann hefur gert tillögu um að 11 milljörðum af 29 verði varið til vegagerðar, 3.8 milljörðum minna eftir sama hlutfalli en gert var 1978. Samtals eru bæði ríkisframlög og skattar af bensíni með þessari till. og stefnu í fjárlögum skert um hvorki meira né minna en 6 milljarða kr, að raungildi frá því í 978. Ég sé að hv. þm. Alexander Stefánsson hristir höfuðið. Ég skal rekja þetta nánar.

Ef 51% af sköttum af bensíni væri varið til vegamála í ár kæmi til framkvæmda í vegamálum 3800 millj. kr. meira en er í þessari till., og ef ríkið borgaði sama hlut í Vegasjóð og það gerði 1978 kæmu 3200 millj. kr. í hlut Vegagerðarinnar eða 2200 millj, kr. meira en í þessari áætlun. Samtals er þarna um 6 milljarða kr. að ræða.

Hæstv. ríkisstj. væri ekki í neinum vandræðum með að standa við þá vegáætlun sem er í gildi ef hún hefði varið þessum fjármunum til vegagerðar, en eyddi þeim ekki í eyðsluhít ríkissjóðs, en það er hæstv. fyrrv. samgrh. að gera núna og raunar ríkisstj. öll. Hún er að taka þessa 6 milljarða og eyða í annað, í útþenslu ríkisbáknsins, í eyðslu ríkissjóðs.

Þetta er dapurleg niðurstaða þegar á það er að líta, eins og hæstv. ráðh. kom hér inn á, að sjálfsagt eru vegamálin eitthvert allra arðbærasta félagslega mál sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir. Það er upplýst að bundið slitlag á nýjum olíumalarvegi borgar sig á 6–7 árum. Það er upplýst að það sparar 19% í bensíni, 170% í viðhaldi hjólbarða og 45% í viðhaldi bifreiða. Að meðaltali er slit bifreiða 63% meira á malarvegi en vegi með bundið slitlag. Og þegar haft er í huga, að Vegagerð ríkisins telur að á 2000–2500 km af íslensku vegakerfi sé arðbært að leggja bundið slitlag, sést hversu gífurlegt verkefni hér er fram undan fyrir okkur Íslendinga. Ég hika ekki við að halda því fram að þetta sé mesta félagslega verkefni sem við stöndum frammi fyrir og arðbærasta félagslega verkefnið sem við stöndum frammi fyrir við hliðina á orkumálum. Og samt segir hæstv. ráðh. efnislega: Ég er bara ánægður með það, á sama tíma sem skattar á umferðina hafa margfaldast, að sitja í sama farinu og 1975–78, þegar þessir skattar voru miklu, miklu minni og þegar ríkissjóður lagði í raun 6 milljörðum meira til vegamála á núgildandi verðlagi en hann gerir nú.

Herra forseti. Kjarni þáltill. um breytingar á núgildandi vegáætlun felst í eftirfarandi meginatriðum:

1) Gildandi vegáætlun er skorin niður um 4.5 milljarða kr. að raungildi. Það er í mínum huga skýlaust brot á stjórnarsáttmálanum.

2) Niðurskurður á fé til vetrarviðhalds í snjóþungum héruðum er fáránlegur og ófélagslegur í hæsta máta.

3) Ríkisframlög til vegagerðar af bensínsköttum o. fl. eru skorin niður miðað við 1978 um 6 milljarða kr. á núgildandi verðlagi. Það fé er notað til almennrar eyðslu ríkissjóðs.

4) Þrátt fyrir hrikalegar hækkanir skatta á umferðina, svo skiptir á annan tug milljarða á tveimur árum, verður framkvæmdamagn í nýbyggingu vega og brúa hliðstætt og meðaltal áranna 1975–78.

5) Þetta framkvæmdamagn næst því aðeins að taka 2 milljörðum kr. meira lán en í fyrra, svo hrikalegur er viðurgerningur ríkissjóðs við vegamálin.

Þetta er því miður, herra forseti, ekki fallegur lestur, en þetta er nú einu sinni eins og hæstv. ríkisstj. hugsar sér að standa að vegamálum samkv. þessari þáltill.