28.04.1980
Efri deild: 70. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. ráðh. Ragnar Arnalds, sem hér lauk máli sínu, á að vita betur um skattamál en fram kom í máli hans. Hann hlýtur að vita að kvæntur eða ókvæntur verkamaður með meðaltekjur fær hærri skatta samkv. síðustu tillögum hans en hinum fyrri og að fyrri vinstri stjórn og núv. ríkisstj. hafa hækkað beina skatta verulega á verkafólki með meðaltekjur. Hæstv. ráðh. veit örugglega að síðustu tillögur hans í skattamálum hækka tekjuskatta á svo til öllum hjónum í landinu um 40 þús. kr. frá fyrri tillögum hans sjálfs, en ekki sumum hjóna þar sem konan vinnur úti, eins og ráðh. sagði áðan. Hæstv. ráðh. veit það einnig best sjálfur, að sú kerfisbreyting að skattleggja hjón sem tvo einstaklinga hækkar persónuafslátt þeirra frá fyrra kerfi. Þessi kerfisbreyting komst á fyrir forgöngu hæstv. fyrrv. fjmrh. Matthíasar Á. Mathiesen og kemur hjónum með mjög lágar tekjur til góða.

Ég læt þessar aths. nægja um málflutning hæstv. ráðh. Þetta frv., sem hér er til umr., verður að skoðast sem hluti af stefnu eða réttara sagt stefnuleysi núv, hæstv. ríkisstj. í skattamálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Hækkanir á söluskatti og vörugjaldi, útsvörum, flugvallagjaldi og bensíni, svo að nokkuð sé nefnt, hafa dunið yfir undanfarnar vikur og mánuði og nýtt orkujöfnunargjald, sem er í raun 1.5% hækkun söluskatts, lagt á. Þetta frv. hækkar tekjuskatta í ríkissjóð enn frá áætlun fjárlaga um tæpa 2.5 milljarða kr. ef miðað er við nýjustu og traustustu upplýsingar um tekjur manna á s. l. ári. Þessar upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun byggðar á úrtökum framtala benda til að tekjubreyting milli ára 1978 og 1979 hafi orðið 47–48%, en ekki 45%, eins og hæstv. ríkisstj. hefur látið reikna með. Þetta frv. er því skattahækkunarfrv. og óaðskiljanlegur hluti stórfelldra skattaálaga á almenning, sem núv. hæstv. ríkisstj. stendur fyrir ofan á allar álögur vinstri stjórnarinnar, sem hvergi hefur verið hróflað við.

Nú er svo ástatt í íslensku þjóðlífi að verðbólga er að verða að rótgrónu illkynja þjóðarmeini. Hrunadansinn er slíkur, að verðlag tvöfaldast á 18–20 mánuðum. Almenningur missir verð- og verðmætaskyn, siðferðisþrek dvín og félagslegt óréttlæti vex. Sparifé þeirra, sem ráðdeildarsamir eru, brennur á bálinu, en hinir blakta sem skulda og eyða. Atvinnuvegirnir berjast í bökkum í ólgusjó verðbólgunnar og þjóðartekjur í raunverulegum verðmætum minnka heldur en hitt. Allir kjarasamningar milli launþega og vinnuveitenda eru lausir og vaxandi óþols gætir um lausn kjaramála.

Og hvað hefur svo hæstv. ríkisstj. gert eða látið ógert við þessar þjóðfélagsaðstæður? Hún leggur skatt ofan á skatt á allan almenning í landinu. Hver fimm manna fjölskylda mun að meðaltali greiða 650 þús. kr. í hærri skatta á þessu ári en í fyrra, þ. e. söluskatt, vörugjald, útsvar, tekjuskatt og orkujöfnunargjald, og er þá átt við það verðlag sem fjárlög eru miðuð við. Hún hefur staðið fyrir mestu eyðslufjárlögum sem sögur fara af og raunverulegum greiðsluhalla, þveröfugt við það sem hæstv. ráðh. hélt fram áðan. Hún ætlar að tvöfalda erlendar lántökur frá fyrra ári. Hækkun erlendra lána verður milli 90 og 100 milljarða samkv. heimildum og yfirlýsingum ráðh. um væntanlega lánsfjáráætlun. Hún gerir engar ráðstafanir til að verðtryggja sparifé almennings og stuðla að auknum innlendum sparnaði.

Afleiðingar af þessu háttalagi hæstv. ríkisstj. láta ekki á sér standa. Ég hef hér í höndum glænýtt bréf frá Þjóðhagsstofnun til fjvn. Í því er áætlun um hækkun framfærsluvísitölu hinn 1. maí n. k. og einnig hugmyndir um hækkun 1. ágúst og 1. nóv. Þessi áætlun var gerð að beiðni fjvn. Niðurstaða Þjóðhagsstofnunar í samráði við Hagstofuna er sú, að framfærsluvísitala hækki um rúmlega 13% 1. maí, 9% 1. ágúst og ekki undir 10% 1. nóv. Hér sést glöggt hvert stefnir. Síðustu þrjá mánuði á undan, frá 1. nóv. í fyrra til 1. febr., hækkaði vísitalan um 9.1%, en nú síðustu þrjá mánuðina um 4% meira. 1. des. n. k. verður verðbólga tvöföld miðað við niðurtalningarformúlu ríkisstj.

Kaupgjaldsvísitala hækkar samkv. þessum áætlunum um 11–11.5% 1. júní og það eykur greiðslu launagreiðenda á árinu um 11–12 milljarða kr. Þessar áætlanir þýða 53–55% meðalhækkun verðbólgu milli ára. Þegar það er haft í huga, að slíkar áætlanir eða hugmyndir um verðbreytingar, sem gerðar hafa verið á vegum Þjóðhagsstofnunar í samráði við Hagstofuna, hafa alltaf reynst varfærnar og því miður oftast reynst of lágar, þá sést hvert stefnir.

Þessar dapurlegu horfur um áframhaldandi óðaverðbólgu sýna glöggt fáránleika þeirrar aðferðar ríkisstj. að láta vaða á súðum í ríkisfjármálum og skattamálum, lánsfjár- og peningamálum, en ætla jafnframt með stjórnvaldsákvörðunum að telja niður verðlag og kaupgjald. Sannleikurinn er sá að hæstv. ríkisstj. gæti með jafngóðum árangri sett brbl. um að sólskin skuli vera á öllu landinu í sumar.

Þessi lausatök hæstv. ríkisstj. á efnahagsmálum, sem ég hef drepið hér á, hafa fleiri alvarlegar hliðar. Við Íslendingar sem þjóð höfum í fyrra og á þessu ári verið að efna til hækkandi yfirdráttarskuldar erlendis. Jöfnuður á viðskiptum okkar við útlendinga var hagstæður 1978 um 9.7 milljarða kr. Viðskiptajöfnuðurinn var óhagstæður í fyrra samkv. nýjum tölum Seðlabankans um 7.2 milljarða og á þessu ári stefnir í 15–20 milljarða kr. viðskiptahalla. Við þær aðstæður, sem nú ríkja í þjóðlífinu, hámarksafla og besta verð á útflutningsmörkuðum, er hörmulegt að þurfa að taka eyðslulán til að jafna þennan viðskiptahalla. Slíkar lántökur eru mjög verðbólguhvetjandi, auk þess sem greiðslubyrði erlendra lána er orðin hrikaleg og komin yfir hættumörk.

Greiðslubyrði afborgana og vaxta af erlendum lánum á árinn 1978 var 13.1% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Í fyrra fór þessi greiðslubyrði upp í 14.2%. En í ár tekur steininn úr. Seðlabankinn áætlar að þessi byrði aukist í 16–17% á þessu ári af útflutningstekjum og hækki enn á næsta ári í 18.2%. Sú áætlun, sem ég fékk frá Seðlabankanum í dag samkv. ósk, er þó einungis miðuð við 90 milljarða kr. erlendar lántökur á árinu. Þess má geta, að skuld okkar í föstum erlendum lánum var um áramót 335 milljarðar kr. Hér er hreint út sagt um stórhættulega þróun að ræða. Hvað gerist ef afli brygðist eða verðfall yrði á útflutningsafurðunum? Þá stoðar það lítt til styrktar fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar að í málefnasamningi ríkisstj. segir: „Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr u. þ. b. 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum.“

Mörgum þótti nóg um skattgleði vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar, enda var hún harðlega gagnrýnd af okkur sjálfstæðismönnum fyrir þá stefnu. Hún byrjaði feril sinn með sérstakri aukaálagningu afturvirkra skatta 1978. Eftir það má segja að hún hafi bætt skatti ofan á skatt í þá þrettán mánuði sem hún sat. Mér telst til að á þessu ári greiði almenningur 26 milljörðum kr. hærri skatta vegna ákvarðana þeirrar ríkisstj. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur þó tekist að slá þetta skattamet á einungis rúmlega tveimur mánuðum. Hún ber ábyrgð á að 2% söluskattshækkun og 6% vörugjaldshækkun sem ákveðin var í fyrrahaust, leggur nú 15 milljörðum kr. meiri álögur á almenning en á síðasta ári vegna þess að nú á þessi hækkun að gilda allt árið, en í fyrra aðeins nokkra mánuði. Hún hefur heimilað sveitarfélögum að leggja á að giska 4–5 milljarða aukaútsvör á skattborgarana. Verði þetta frv., sem hér er til umr., um skattstiga samþ. ætlar hún að hækka tekjuskatta ofan á hækkun vinstri stjórnarinnar um 2.5 milljarða kr. Nýja orkujöfnunargjaldið, sem í raun og veru er almenn söluskattshækkun um 1.5%, eykur skattbyrðina til viðbótar um 6 milljarða á þessu ári. Hæstv. núv. ríkisstj. ber því ábyrgð á því að þyngja skattbyrðina um nálægt 28 milljarða á þessu ári, ef það frv. verður að lögum og brtt. fylgismanna ríkisstj. samþykktar sem hér eru til umr. Þetta jafngildir því að þyngja skatta um 650 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu að meðaltali, eins og ég sagði áðan, til viðbótar vinstristjórnarsköttunum, sem hækka skatta sömu fjölskyldu í ár um önnur 600 þús. Við þetta skattaregistur núv. hæstv. ríkisstj. mætti bæta hækkun flugvallagjalds og fleiri skatta og gjalda og síðast en ekki síst okursköttum á bensín. Hér er því fremur vansagt en ofsagt um skattaálögur þær sem dynja á almenningi.

Sérstaka athygli vekur hin gífurlega skattahækkun á bensín sem orðið hefur frá 1978 og nemur 10 milljörðum kr. umfram verðlagshækkanir. Hinir háu bensínskattar renna í sífellt auknum mæli til að standa undir eyðslu ríkissjóðs. Árið 1978, þegar sjálfstæðismenn fóru með ríkisfjármálin síðast, fór 51% af sköttum á bensín til vegagerðar í landinu. Ef það hlutfall væri óbreytt núna kæmi til vegaframkvæmda tæplega 4 milljörðum meira fé á þessu ári en raun ber vitni.

Það, sem er að gerast í vegamálum þessa dagana, er dæmigert um ofsköttunar- og eyðslustefnu núv. hæstv. ríkisstj. Í fyrra samþykkti Alþ. vegáætlun fyrir yfirstandandi ár, sem lögð var fram af þáv. hæstv. samgrh. Ragnari Arnalds. Þrátt fyrir að í málefnasamningi ríkisstj. standi skýrum stöfum: „Staðið verði við fyrirliggjandi vegáætlun fyrir árin 1980–1982“ — er nú unnið að því að skera þessa áætlun niður um 4.5 milljarða. Ástæðan er m. a. sú, að núv. hæstv. fjmrh. tekur nú 4 milljarða af bensínsköttum í ríkissjóð, sem ættu að ganga til vegaframkvæmda, og eyðir þeim samkvæmt eyðslufjárlögum sínum. Þannig verða einna arðbærustu félagslegu framkvæmdir, sem hið opinbera getur lagt í, vegaframkvæmdir, skornar niður og peningarnir notaðir til eyðslu. Þetta er sannleikurinn um skattaálögur á bensín og afrek ríkisstj. í vegamálum sem hæstv. ráðh. gumaði af áðan.

Alvarlegustu afleiðingar skattahækkana ríkisstj. eru að ráðstöfunartekjur heimilanna skerðast verulega, svo sem að framar greinir. Fólk kemst ekki hjá að greiða hækkun söluskatts, vörugjalds og svonefnt orkujöfnunargjald þegar það kaupir inn nauðsynjar, og gildir þá einu hversu tekjulágir menn eru. Þessi gífurlega skattahækkun hlýtur því að ýta undir launakröfur, auk þess sem slíkir veltuskattar auka og magna sjálfkrafa verðbólguna, að óbreyttum reglum um víxlhækkun kaupgjalds og verðlags.

Óhætt er að fullyrða að enginn skaðast eins mikið á verðbólgu og einmitt láglaunafólk og lífeyrisþegar. Hér er því vegið að því fólki sérstaklega sem hlífa skyldi, enda er það svo, að öll stærstu launþegasamtök landsins hafa lagst gegn stefnu ríkisstj. í skattamálum. Þar má fyrst nefna ASÍ og BSRB. Síðast samþykkti Verkamannasamband Íslands ályktun fyrir nokkrum dögum þar sem skattastefna ríkisstj. er harðlega gagnrýnd.

Við sjálfstæðismenn í fjh.- og viðskn. flugum við 2. umr. viðamiklar brtt. við þetta frv. Í þeim brtt. fólst fyrst og fremst afnám tekju- og eignarskatta vinstri stjórnarinnar á einstaklinga og félög. Þessar till. voru allar felldar af hv. þm. Alþb. og Framsfl. og hæstv. forsrh. Við viljum nú enn við 3. umr. freista þess að flytja nýjar brtt. Nýjar upplýsingar leiða í ljós að tekju- og eignarskattar einstaklinga hækka í raun meira frá 1978 en fyrri upplýsingar bentu til, eða um 10–11 milljarða, ef stefna fjárlaga og þessa frv. nær fram að ganga. Þá er einnig staðreynd að sveitarfélög munu nota heimild til 10% hækkunar útsvara í ríkari mæli en ætlað var. Síðast en ekki síst viljum við með brtt. okkar benda á leið til lausnar þeim rembihnút sem kjaramálin eru komin í vegna gegndarlausrar eyðslustefnu og skattahækkana ríkisstj. Till. eru fólgnar í eftirfarandi:

1 ) Að skattstiginn verði þannig: 20% af fyrstu 2.5 millj., 30% af næstu 3 millj., 40% af 5.5 millj. og þar yfir, persónuafsláttur verði 525 þús. kr. og barnabætur eins og eru í till. 1. minni hl. nefndarinnar.

2) Að sparifé og spariskírteini verði alltaf undanþegin eignarskatti.

3) Að ónýttur persónuafsláttur nýtist til greiðslu sóknargjalda og kirkjugarðsgjalda.

4) Að námsfrádráttur nýtist allt að fimm ár eftir að námsmaður lýkur námi, auk þess verði vextir og verðbætur námslána frádráttarbær.

Í þessum till. felst eftirfarandi meginstefna:

1) Að tekjuskattar verði afnumdir í áföngum á almennar og miðlungs launatekjur.

2) Að tekjuskattur verði verulega lækkaður á láglaunafólki og aukið svigrúm þess til að nýta persónuafslátt til greiðslu opinberra gjalda.

3) Að heildarskattprósenta beinna skatta: tekjuskatts, útsvars, sjúkratryggingargjalds o. s. frv., fari ekki fram úr 50%, eins og verið hefur stefnumið Sjálfstfl.

Þessar brtt. hefðu í för með sér heildarlækkun skatta um 13–14 milljarða kr. samkv. nýjustu upplýsingum um tekjubreytingu milli ára. Sem dæmi um áhrif þeirra lækkaði verkamaður með meðaltekjur um 200 þús. kr. frá tillögum ríkisstj. Samkvæmt upplýsingum Kjararannsóknarnefndar eru þessar meðaltekjur verkamanns 5.1 millj. kr. á s. l. ári. Þar yrði um örlitlar kjarabætur að ræða, sem vart er vanþörf á, þar sem staðreyndin er sú, að kjör verkamanna og verkakvenna versnuðu mest allra launþega á s. l. ári.

Ef þessar till. verða samþ, erum við sjálfstæðismenn reiðubúnir að standa að álagningu á 10% skyldusparnaði á tekjum yfir 7 millj. kr. og teljum það illskárra en 50% skattþrep. Þörf á niðurskurði útgjalda ríkissjóðs yrði 10–11 milljarðar kr. eftir innheimtu skyldusparnaðarins. Sjálfstæðismenn lögðu fram tillögur um niðurskurð útgjalda við afgreiðslu fjárlaga sem námu samtals 8–9 milljörðum kr. Við lýsum okkur enn reiðubúna til að ræða og styðja tillögur sem nema niðurskurðarþörfinni er mætti verða til að afstýra nokkru af því skattahækkunarflóði sem nú dynur á almenningi.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum. Ég vil að lokum leggja áherslu á að gegndarlaus eyðsla ríkisstj. og þrotlaus skerðing á ráðstöfunartekjum heimilanna og atvinnuveganna með nýjum og nýjum skattaálögum hlýtur að leiða til sjálfheldu og ófarnaðar, bæði í átökum um kaup og kjör og viðureigninni við verðbólguna. Þessi er samt leið hæstv. ríkisstj. Við sjálfstæðismenn höfum bæði fyrir og eftir kosningar lagt til niðurskurð á eyðslu ríkissjóðs og skattalækkun. Launþegasamtökin í landinu hafa nú lýst stuðningi við þá stefnu. Því mun áreiðanlega verða veitt sérstök athygli nú, hvor leiðin verður valin. — Góða nótt.