28.04.1980
Efri deild: 70. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Helgi Seljan:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það duldist engum að verulegur vandi blasti við í íslensku þjóðlífi þegar núv. ríkisstj. tók við völdum. Vissulega stóðu menn líka andspænis vandamálum á liðnu hausti. En í stað þess að snúa sér að lausn þeirra mála flúði Alþfl. af hólmi, flúði vandann, tók við stjórnartaumum í orði með stuðningi sjálfstæðismanna, en lét í raun allt reka á reiðanum. Stjórn þeirra var bráðabirgðastjórn stórra yfirlýsinga í auglýsingaskyni, en lítilla verka og lélegra í hvívetna. Vandamálin höfðu því hrannast upp enn frekar. Frestur er á illu bestur, hlýtur að hafa verið kjörorð þeirrar stjórnar, því öllu var frestað sem máli skipti og það kom í hlut núv. ríkisstj. að ná tökum á vandanum, leysa úr þeim fjölmörgu hnútum sem á höfðu hlaupið í stjórnleysinu og óreiðunni. Þegar fólk í dag finnur til þessa vanda, þegar ýmis þjónustugjöld hækka og aðrar óumflýjanlegar verðlagshækkanir ganga yfir, þá skyldu menn minnast þess uppsafnaða vanda sem velt hafði verið á undan sér á því óheillaskeiði sem Alþfl. skóp og Sjálfstfl. bar óskoraða ábyrgð á. Eiður Guðnason kvartaði undan þessu áðan og sagði að víst hefði ekki allur vandinn verið þeirra sök. Fyrr mætti nú líka vera, en há er prósenttala þeirra Alþfl.-manna í þeim vanda. Og hraklegt má það teljast þegar kjaraskerðingarpostular Alþfl. á síðasta ári, í síðustu stjórnatmyndunarviðræðum, tala nú dýsætum hunangsrómi til láglaunafólksins og spara ekki gífuryrðin til þeirra sem þar stóðu gegn.

Ríkisstj. stóð andspænis þessu öllu við upphaf ferils síns. Hún varð að gera allt í senn: veita sem mest aðhald og viðnám, en jafnframt tryggja stöðu atvinnulífsins, sjá til þess að verklegar framkvæmdir yrðu með eðlilegum hætti á árinu, að vanrækt verkefni yrðu tekin fyrir af fullri einurð til úrlausnar, að þjónustufyrirtæki almennings gætu sinnt sínu eðlilega hlutverki, að sveitarfélögin í landinu gætu staðið við brýnustu skyldur sínar við íbúana í þjónustu og framkvæmdum. Þetta hlaut að gerast, en þetta hlaut að hafa það í för með sér að ný lög varð að setja, fjáröflun varð til að koma og vissar verðhækkanir urðu staðreynd. Hér hefur hins vegar ekkert óeðlilegt gerst miðað við uppsafnaðan vanda upplausnartímans og miðað við þau félagslegu samneyslumarkmið sem ríkisstj. hefur sett sér.

Það frv., sem hér er til 3. umr., um skattstiga, er að sjálfsögðu ákvarðandi og afgerandi um skattbyrði þessa árs. En þegar gerbreytt tilhögun skattamála tekur gildi hljóta óvissuþættirnir í útkomu hvers einstaks að vera meiri en annars væri, ef eldri skattalög væru í gildi sem hlotið hefðu eldskírn árareynslu. Á það er engin dul dregin að engin meðaltöl, engin úrtök gefa hina einu raunsönnu mynd, aðeins vísbendingu, þegar svo margt nýtt kemur til sögu. En á það hefur verið lögð höfuðáhersla, og það er mergurinn málsins að þeir tekjulægstu bæru sem bestan hlut frá borði. Ekki síst gildir þetta eftir síðustu tilfærslu samkv. tillögum fjmrh., sem þeir tekjulágu njóta sannarlega. Aðstaða þeirra er að vísu misjöfn og hreinar tekjur segja ekki allt. En þann aðstöðumun þarf þá að jafna með öðrum hætti, með félagslegum aðgerðum, en á þær er nú einmitt lögð þung áhersla. Þar þarf víða stórátak, en hiklaust eru þau verkefni þó stærst að auðvelda fólki sem allra mest lausn húsnæðismála sinna, gera það sem viðráðanlegast öllum að komast í húsnæði með viðunandi kjörum, að veita fjármagni í stórauknum mæli til að bæta aðstöðu hinna öldruðu og þá fyrst og fremst dvalar- og sjúkraaðstöðu þeirra, og í þriðja lagi að tryggja sem allra fyrst dagvistarrými handa öllum, sem á þurfa að halda, og búa þannig sem best að uppvaxandi kynslóð og um leið gefa foreldrum betri tækifæri til þátttöku í námi sem starfi. Til þessa þarf hins vegar að verja verulegu fjármagni og það fæst ekki með öðru en einhvers konar skattlagningu, beinni eða óbeinni.

Félagslega hugsandi fólk skilur þessa nauðsyn. Það sér ekki eftir þeim fjármunum sem til þessa renna. Það er hlálegt að heyra stjórnarandstöðuna nú segja að félagslegar umbætur séu sjálfsagðir hlutir, svo að ekki þurfi um að tala, hvað þá afla þar til fjármagns, og þegar þannig á að vinna beint og á raunhæfan hátt að lífskjarajöfnun, aðstöðujöfnun almennings, er rætt um það með fyrirlitningu og slíkt kallað að versla í samningum með sjálfsagða hluti. Lágtekjufólkið í landinu hefur þó sannarlega ekki síður þörf fyrir slíka lífskjarabót en þá sem felst í launahækkunum. Alþýða þessa lands hefur af því óþyrmilega reynslu, að þegar afturhaldsöflin hafa ráðið ferðinni hafa engin félagsleg réttindi þótt sjálfsögð, þvert á móti heimtufrekja og fjarstæða. Og margar og dýrar fórnir hefur þurft að færa til að ná fram þeim margvíslegu réttindum sem fólk nýtur þó í dag. Lágtekjufólkið skilur og finnur því betur en aðrir þegar fjármunum samfélagsins er beint í rétta átt til umbóta, til jöfnunar, til félagslegra réttinda. Það metur þetta að verðleikum þótt kjarabarátta þessa snerti fleiri svið og þar þurfi einnig að sækja fram.

Þegar um skatta og skattheimtu er að ræða skiptir það öllu fyrir þjóðarheildina að því fé, sem aflað er, sé varið til varanlegrar uppbyggingar til félagslegra þarfa, til aðstoðar og hjálpar þeim lakar settu, til samfélagslegra verkefna sem til framtíðar horft skila okkur fram á veg til efnalegrar, en ekki síður félagslegrar og andlegrar velferðar. Í ljósi þessa skoða ég skattheimtu, finn henni réttlætingu eða ekki. En um leið hlýtur að verða að skoða hina hlið málsins, þ. e. hvernig skattbyrðin dreifist, hverjir bera þar byrðar og hversu réttlátar þær eru. Á það hefur skort. Úr því er reynt að bæta nú. Reynslan mun þar ólygnust. Þetta tvennt: réttlát dreifing skattheimtu á þjóðfélagsþegnana eftir raunverulegum aðstæðum þeirra og til hverra verkefna varið er, eru meginviðfangsefni stjórnvalda hverju sinni og eftir því hvernig til tekst eru þau dæmd.

En auk þeirra almennu viðfangsefna, sem kalla á fjármagn hverju sinni, koma ævinlega upp sérstök vandamál sem mæta þarf með sérstökum ráðstöfunum svo úr megi leysa. Þar ber tvennt hæst um þessar mundir og er hvort tveggja svo gróflega afflutt af stjórnarandstöðunni að undrum sætir. Annað þessara atriða snertir þær sterku og áhrifamiklu félagslegu heildir sem eru sveitarfélögin í landinu. Hlutverk þeirra fara sívaxandi, umfang verkefna þeirra eykst. Íbúarnir gera eðlilega auknar kröfur á hendur þeirra um framkvæmdir og þjónustu. Í verðbólgu liðinna ára hafa tekjur sveitarfélaganna rýrnað stórlega að raungildi. Þau hafa því eðlilega farið fram á að tekjustofnar þeirra héldust sem allra mest. Þegar gengið er til móts við sveitarfélögin að hluta er rekið upp mikið ramakvein í herbúðum stjórnarandstöðunnar, þó allir hafi áður þóst vilja leysa vanda þeirra, — vanda sem vitanlega bitnar einvörðungu á íbúunum. Það situr að minnsta kosti illa á þeim sjálfstæðismönnum að blása í herlúðra þegar lágmarksleiðrétting er gerð í þágu sveitarfélaganna og það sett í þeirra vald að sjálfsögðu hvernig með skuli fara. Oft hafa þeir sjálfstæðismenn æpt á aukið fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga. Tekjustofnalögin frá 1972 voru talin aðför að sveitarfélögunum þar sem skorður væru settar mjög strangar um útsvarsálagningu — eða hver man ekki sönginn um aðförina að Reykjavík, enda réð íhaldið henni þá?

En til hvers þessi útsvarshækkun? Hún er gerð í þágu íbúanna til þess að þau geti betur sinnt félagslegri þjónustu hvers konar, þ. e. sinnt hlutverki sínu betur. Og auðvitað munu allra flokka menn um allt land í sveitarstjórnum nýta heimildina alla eða að hluta, ekki af illvilja, heldur sjáandi þá þörf sem hvarvetna blasir við. Þar verða sjálfstæðis- og Alþfl.-menn engar undantekningar, því fjölmargir sveitarstjórnarmenn í þeirra röðum blása á svartagallsrausið í flokksbræðrum sínum hér, vitandi betur um þörfina og til hvers fjármagnið rennur.

Hitt atriðið varðar olíuvandann. Það er grátbroslegt að heyra það æ ofan í æ, að þessi tugmilljarðaskellur fyrir þjóðarbúið sé svo sem ekkert til að gera veður út af. Stjórnarandstaðan virðist a. m. k. oft gleyma eða hlaupa yfir þennan mikla vanda. Ekki síst gerist það þegar hún kemst upp á hæstu tónana í hneykslan sinni á skattaálögum núv. ríkisstj. En þó olíuvandinn bitni á þjóðarbúinu í heild bitnar hann mishart á íbúum þessa lands svo sannarlega. Þegar dekurdrengir hitaveitusvæðanna ná ekki andanum í hneykslun yfir hækkun bensínverðs man ég aldrei til þess að þeir hafi ýjað orði að kyndingarkostnaði fólks, sem við olíuna eina býr enn, og þeim gífurlegu aukaálögum ofan á aðrar fjölmargar sem þetta fólk ber þrátt fyrir bætur í formi olíustyrkja. Nú þegar gera á hvort tveggja, jafna sem kostur er þennan gífurlega aðstöðumun og aðstoða fólk við aðgerðir af ýmsu tagi til sparnaðar, byrja kveinstafirnir á fullu og nýtt stef í áþjánaróratoríuna bætist við.

Ekki dreg ég úr því að orkuskattsleið iðnrh. Alþb. var réttlátari og betri en sú leið sem samkomulag varð um og una verður við. Aðalástæður eru vitanlega þær, að skattheimtan nú leggst með meiri þunga á landsbyggðarfólkið, sem verið er að jafna metin hjá, og gagnast því ekki eins vel og hin aðferðin, og eins hitt, að eðlilegt hlýtur að teljast að þeir, sem við hinn lága kyndingarkostnað búa, leggi meira af mörkum hlutfallslega. En hvor leiðin sem valin hefði verið hefði áþjánarstef stjórnarandstöðunnar hljómað, tónbrigðin aðeins verið önnur.

Ekki ætla ég neinum andstöðu í raun við svo sjálfsagða jöfnun, en því forkastanlegri er afflutningur þessa máls hér í þinginu. Hér verður nefnilega ekki um einhliða styrki að ræða. Hér verður fólk einnig aðstoðað við lagfæringar og einangrun húsa sinna, og allar aðrar aðgerðir stjórnvalda stefna í þá átt að útrýma hinum erlendu orkugjöfum sem hraðast. Tilvísun stjórnarandstöðu á niðurskurð til að mæta þessum aðgerðum í ljósi þess, að margir aðaltalsmenn þeirra kvarta á sama tíma sáran yfir of lágum framlögum til ýmissa verklegra framkvæmda, er vægast sagt brosleg. Það vantar ekkert á feilnóturnar í kveinstafahljómkviðunni.

En af því ég minntist á niðurskurð væri fróðlegt að vita hvernig stjórnarandstaðan hyggst framkvæma hann til að koma í veg fyrir aukna skattheimtu. Alþfl. er að vísu „stikkfrí.“ Hann er ekki marktækur hvað þetta varðar frekar en annað. Hann vísar öllu á eina atvinnustétt þessa lands, bændur, og vill með skyndiniðurskurði á tekjum þeirra og lífsmöguleikum ráðast hart til atlögu. Hann sér þarna milljarða á milljarða ofan sem alla má taka af bændum, svo auðveld og einföld er lausn hans. Varla eru þó allir á þessu máli, því svo mikla skammsýni og illt innræti ætla ég ekki öllum þeim sem þar sitja við reikningskúnstir. En þeir eru ekki marktækir.

En sjálfstæðismenn? Eitthvað rámar mann í leiftrandi leiftursókn á haustdögum, en aðspurðir ætluðu þeir eiginlega ekkert að skera, aðeins að spara. Matthías Á. Mathiesen nokkur fékk ágætisfrið til að sýna okkur sparnaðargaldurinn heil fjögur ár, en allt tútnaði út sem tútnað gat, enda eiga engir meira í kerfinu okkar blessuðu en einmitt sjálfstæðismenn. Þeir hafa hreiðrað um sig við ríkisjötuna og jórtrið gengur bærilega. En hver yrðu þá niðurskurðarverkefnin? Þau þekkja menn af gamalli reynslu. Á framlög til samfélagslegra framkvæmda, svo sem til vega, hafna, skóla, sjúkrastofnana og dagvistarheimila, hefur hnífnum ævinlega verið beitt fyrst og oftast nær eingöngu. Skattalækkun þýðir samdrátt þessara framkvæmda í munni þessara manna, þó við afgreiðslu fjárlaga sé rætt um hvort tveggja: of lág framlög og of lítinn sparnað.

Allir vita af reynslu að sparnaður í ríkiskerfinu eftir nótum sjálfstæðismanna gefur ekki tilefni til skattalækkunar af hálfu hins opinbera. Það er því verið að biðja um minni samfélagslegar framkvæmdir, minni félagslega þjónustustarfsemi, minni samfélagslega aðstoð við þá lakast settu þegar hæst er látið af hálfu sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðunni. Í því ljósi ber að skoða afstöðu þeirra.

Að lokum þetta: Farsæld þjóðarinnar fer vissulega eftir því, hvernig hún ver fjármagni sínu, alveg sérstaklega á samneyslusviðinu til jöfnunar lífskjara, til aukins jafnréttis þeim til handa sem enn búa við skarðan hlut. Til þess þarf vissulega aðhald og aðgát. En fram hjá því verður ekki gengið, að aukin verkefni á samfélagssviðinu, jafnréttissviðinu, kalla á fjármagn. Það fjármagn þarf að fást og því þarf að ráðstafa sem best.

Um leið þarf að hyggja að þeirri undirstöðu sem allt byggist á: verðmætasköpun atvinnuvega okkar. Þar þarf að nýta sem best þann auð sem við eigum í fiskimiðum okkar. Það gildir jafnt um veiðar sem vinnslu. Verðmætaaukningu er unnt að ná með samstilltu átaki og á því eiga stórbætt kjör vinnandi fólks að grundvallast.

Í landbúnaði þarf að huga vel að byggð þessa lands, leysa vandann með markvissum framtíðaraðgerðum, fá virkari stjórntæki til framleiðslustýringar, eins og bændur sjálfir kjósa, og byggja síðan á aukinni úrvinnslu dýrmæts hráefnis og nýjum leiðum í landbúnaðarframleiðslu. Þar má í engu láta skammsýna upphlaupsmenn draga úr sér kjark, því landgæði okkar ber að hagnýta sem best fyrir þjóðarheild.

Iðnaðurinn býður ótalin tækifæri ef að honum er hlynnt og framtíðarstefna mörkuð þar sem innlend iðnbylting er höfð að leiðarljósi. Nýting orkunnar í eigin þágu er stórverkefni komandi ára, nátengt alhliða atvinnuuppbyggingu í innlendri eigu. En jafnhliða þessu öllu og þó raunar í eðlislægum takti við það þarf að gera stórátak í víðustu merkingu til að lyfta lífskjörum þess fólks, sem býr ýmist við allt of lág laun fyrir unna vinnu sína, eða fólks sem hefur ekki aðstöðu til jafns við aðra þjóðfélagsþegna til sjálfsagðs jafnréttis.

Til þessara miklu verkefna, allra þátta þeirra, þarf þjóðarauðurinn að nýtast. Þeim auði þarf að skipta sem réttlátast, en ef sameiginlegt fjármagn okkar úr ríkissjóði fer til sannrar samneyslu, þ. e. til meiri jafnaðar, þá er vel. Skattáþján er kjörorð stjórnarandstöðu í dag. Það bergmálar víða órökstutt, en hávært. Skattlagning til samfélagslegs réttlætis á að vera leiðarljós okkar. Að því ber að vinna. Í engu má þar hvika frá lokamarkinu: félagslegu réttlæti, fullum jöfnuði. Eftir því fer gifta þessarar stjórnar, hvernig þar tekst að þoka málum fram. — Ég þakka áheyrnina.