28.04.1980
Efri deild: 70. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í ræðu sinni áðan gerði Lárus Jónsson ítarlega og glögga grein fyrir skattránsstefnu ríkisstj. og tillögum þeim sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram til að lina nokkuð skattáþjánina og létta byrðar þeirra, sem verst eru settir, í samræmi við stefnu þá sem bæði launþegasamtök og vinnuveitendur hafa sett fram. Ekkert af því, sem hann hér sagði, hefur verið hrakið og þarf ég því ekki að endurtaka það.

Eðli málsins samkvæmt hefur í umræðum þessum gætt mjög talnalesturs til skýringa, svo að hlustendur hafa sjálfsagt fengið nægan skerf talna fyrir svefninn, svo að ekki sé nú talað um allt niðurtalningarskrafið sem enginn skilur — eða a. m. k. geri ég það ekki. Ég mun því ekki reyna að bæta um í þessum talnalestri, en mun í þess stað reyna að ræða almennt um afleiðingar skattheimtustefnunnar og óðaverðbólgunnar sem nú er keyrð áfram, enda er það hugmynd stjórnarinnar að ljúka afgreiðslu þessa máls á miðvikudagskvöld og færa verkalýðnum hina nýju skattalöggjöf sem hátíðargjöf að morgni 1. maí. Það þykir víst verðugt og hyggilegt svar við síðustu ályktunum verkalýðssamtaka um skattalækkanir fremur en miklar krónutöluhækkanir launa. A. m. k. fór ekki dult að fjmrh., Ragnar Arnalds, taldi svo vera. Hann talaði um ályktanir verkalýðsfélaganna sem marklaust orðagjálfur og annað í þeim dúrnum og sagði að það væri ekkert svigrúm til grunnkaupshækkana og því siður auðvitað til skattalækkana, enda er hann dag hvern að hækka skattana og reiða hnefann framan í landslýð og þá sérstaklega lágtekjufólk.

Fjmrh. talar mjög um að það sé nauðsynlegt að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög. Á sama tíma er hann að taka erlend lán fram hjá fjárlögum til framkvæmda og nytsamlegra hluta upp á 90 milljarða, skilst mér, og nokkra tugi milljarða í innlendum lánum að auki. Auðvitað er það nákvæmlega sama eðlis og að reka fjárlög með einhverjum greiðsluhalla að taka þessi lán. Og sérstaklega er það þó alvarlegt að dengja yfir okkur svona miklum erlendum lántökum. Hagfræðingar hafa verið að tönnlast á þessu, sem Ragnar trúir enn, en ég held að flestir hagfræðingar séu farnir að gera sér grein fyrir því, að það er ekkert sáluhjálparatriði endilega alltaf að sölsa allt fé til ríkisins. Það getur jafnvel verið hyggilegt undir vissum kringumstæðum að reka ríkið með einhverjum greiðsluhalla og afla þá innlends lánsfjár og lina á skattheimtu og koma þannig verðbólgunni niður, eins og er stefna Sjálfstfl.

En þessi ráðh. var hreinlega montinn af skattlagningunum. Það var ekki annað að heyra. Og hann talaði um að við værum eftirbátar nágrannaþjóðanna, svo að vart væri viðunandi, í skattheimtu og því sem hann kallar félagsleg útgjöld og félagslegar þarfir. En annað veifið leið honum ekki sem best og talaði um að upplausnarástandið hefði farið jafnt og þétt vaxandi á undanförnum árum. Mikið var að hann gerir sér þó grein fyrir þessu. Þetta vissi allur landslýður fyrir. En þó hefur aldrei keyrt svo um þverbak sem allra síðustu vikurnar. Samt segir ráðh. að það sé unnið af miklum heilindum og samhug í ríkisstj. Það held ég að ég sé álíka ósatt og ýmislegt annað sem hann lét sér hér um munn fara. Og einna lengst komst hann þó í blekkingunum þegar hann hélt því fram blákalt, að bensíngjaldið, sem á hefur verið lagt, rynni allt til vegamála. Sannleikurinn er sá, að 1978 runnu að vísu 49'% af bensínsköttunum í ríkissjóð, en núna er gert ráð fyrir að taka 62% af þeim gífurlegu sköttum, sem hafa verið lagðir á bensín, þar á að taka 4 milljarða, en síðan er úr ríkissjóði veitt beint til vegamála 2 milljörðum minna en var 1978. Þarna er því skerðing um hvorki meira né minna en 6 milljarða til þessa geysilega mikilvæga málaflokks.

Viðskrh. gerðist svo djarfur að víkja að gengisbreytingum. Hann kallaði það reyndar gengissig. Hafði hann þó tekið æðistórt upp í sig um að ekki yrðu gengisfellingar — ég held nærri því bara nokkrum klukkutímum áður en gengið var fellt. En nóg um það.

Eftir því sem næst verður komist rýrði vinstri stjórn nr. 3, stjórn Ólafs Jóhannessonar, kjör launafólks í lægri launaflokkum a. m. k. um eitthvað nálægt 1% á mánuði að meðaltali þann tíma sem hún sat og samhliða dengdi hún yfir skattahækkunum og mokaði fjármunum frá fólkinu inn í kerfið. Nú skal ég játa að ég er lítill aðdáandi reikningskúnstakerfisins, þeirrar listar sem súkkulaðidrengir og pappírstígrisdýr í virðingarstöðum þjóðfélagsins tigna og líta á sem guðsorð. En samt verður víst að hafa eitthvert mið af því, þó að sauðsvartur almúginn trúi betur á budduna. En hvað halda menn þá að kjörin hafi verið skert mikið á rúmlega tveggja mánaða valdaferli vinstri stjórnar nr. 4? Því svarar hver fyrir sig. Og hverjum getum leiða menn að framhaldinu? Því svarar líka hver fyrir sig. Og mitt svar er það, að ráðandi öfl í Alþb. og Framsfl. muni halda uppteknum hætti og einskis svífast í skattaráni og álögum. Þeir munu gera það þótt þeir kannske vilji það ekki. Kannske vilja þeir það sem stendur í stjórnarsáttmálanum þótt þeir geri það ekki, en upphafssetning hans er þessi:

„Meginverkefni ríkisstj. er að treysta íslenskt efnahags- og atvinnulíf, enda er það ein helsta forsenda fyrir sjálfstæði þjóðarinnar.“ Og síðan: „Ríkisstj. mun berjast gegn verðbólgunni með aðhaldsaðgerðum er varða verðlag, gengi, peningamál, fjárfestingu og ríkisfjármál.“

Í 1. tölul. stefnunnar í efnahagsmálum segir: „Ríkisstj. mun vinna að hjöðnun verðbólgu, þannig að á árinu 1982 verði verðbólgan orðin svipuð og í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.“

Og í 2. tölul. segir: Stjórnin ætlar að vinna að því „að jafna lífskjör og bæta kjör hinna lakast settu í þjóðfélaginu.“ — Láir mér nú nokkur þótt mér verði orðfall eitt augnablik.

Íslenskt efnahags- og atvinnulíf, sem nú er raunar á brauðfótum, ætlar ríkisstj. að efla með því að leyfa fyrirtækjum um 8% hækkun þegar tilkostnaður hækkar um 16% eða svo, 7% hækkun þegar kostnaður hækkar um 21% og 5% hækkun þegar tilkostnaður hækkar enn um kannske ein 25–30%, eða þannig eru horfurnar nú a. m. k. því að of oft er höggvið í sama knérunn með afleiðingum sem verða ekki gæfusamlegar.

Baráttan gegn verðbólgunni er hafin af fullum þrótti og svipaðri skynsemi. Húsmæðurnar fylgjast daglega með árangrinum í verslununum og aðrir úti í atvinnulífinu. Takmarkinu um svipaða verðbólgu hér og í helstu nágrannalöndunum árið 1982 nær stjórnin þó naumast nema hún búi yfir einhverjum töfraráðum til að fá stjórnvöld þessara þjóða til að spretta nú úr spori og keyra verðbólguna hjá sér í 100% á þessu ári, 200 á hinu næsta og 300 1982. Sagt er að til séu þjóðfélög sem lifað hafi slíkt af, en þá er víst líka komið á leiðarenda.

Lífskjörin er svo stöðugt verið að jafna með tilfæringum á söluskatti á nauðþurftir, að vísu ekki nema 11/2% í stað 2% í þetta skipti vegna skilningsskorts Guðmundar J. Guðmundssonar sem hefur ekki fengið inngöngu í „gáfumannafélag“ Alþb., síðan með örlítilli hækkun bensínskatta og tíund á útsvörin, af því að það eru þeir beinu skattar sem lágtekjufólkið greiðir yfirleitt ekki, skilst manni. Þess vegna væri líka sanngjarnt að haga tekjusköttum þannig að þetta fólk, sem svo vel hafði verið hugsað um, tæki heldur ríflegri hlutdeild í tekjuskattshækkununum en hinir, sem jafnað hefði verið frá, því að öll dýr eru jöfn.

En þá var það sem sumum verkalýðsforingjum í Alþb. barst til eyrna kurr um að sum dýr væru orðin jafnari en önnur, eins og í sögu Orwells: Félagi Napóleon. Og þá rifjaðist það upp fyrir þeim, að Alþýðusambandsþing væri í haust, og meira að segja „gáfumannafélagið“ fékk heyrn. Í skyndingu var skattfrumvarpið stöðvað, þessari umr. frestað fyrst um viku og svo aðra viku. Gáfumennirnir, háskólaborgararnir í ríkisstj. alþýðunnar, hafa nú setið á rökstólum í tvær vikur. Við verðum að láta undan síga, sagði einn. Í bili, sagði annar. Hvað gerum við þá? stundi sá þriðji. Og þá var löng þögn. Loks tók sá vitrasti til máls. Hann sagði: Það er til gamalt og gott orð, eintöluna man ég ekki lengur, enda þarf ekki á henni að halda, en fleirtalan er pinklar. — Þá glaðnaði yfir mönnum. Þeir skildu hann allir. Og nú er allt í himnalagi.

Annars ætti engan að undra á því að samstjórn kommúnista og framsóknar auki skattheimtu gífurlega. Hvorugur þessara flokka hefur farið dult með þá stefnu, að auka beri samneyslu svokallaða, félagslega starfsemi og ríkisafskipti. Menn hafa heyrt þetta í ræðum hér í kvöld, ekki síst í ræðu síðasta ræðumanns, Helga Seljans, sem fór um það mörgum orðum hverja nauðsyn bæri til þess að auka samneysluna og þessa félagslegu starfsemi. M. ö. o. á að flytja fjármagnið í sem ríkustum mæli frá einstaklingunum til ríkisins og opinberra eða hálfopinberra stofnana. Þetta er stjórnmálastefna og ekkert óheiðarlegt við að boða hana og fylgja henni fram þegar þessum flokkum eru fengin til þess völdin eða völd þeirra framlengd, eins og nú hefur gerst. Alþb. er auðvitað sósíalistaflokkur, sá eini sanni sósíalistaflokkur þessa lands. Framsfl. er sem fyrr erfiðara að skilgreina, en þó hafa framsóknarmenn í vaxandi mæli lagt áherslu á samneysluna, margtönnlast á því, andstæðu fjárhagslegs sjálfstæðis einstaklinga, og verja með kjafti og klóm fjármálaveldi SÍS, enda liggur nú færiband fjármuna þjóðfélagsins úr Búnaðarbankanum beint í gegnum Landsbankann, þar sem álitleg fúlga fellur á þá um lúgu úr Seðlabankanum, heldur síðan áfram um Útvegsbankann, sem litlu getur miðlað, þá í gegnum Arnarhvol og tæmir sig í Sambandinu. Framhaldið er hulið sýnum almennings.

Auðvitað er það fjármálasukkið, sem viðgengist hefur í hartnær áratug, sem er undirrót erfiðleikanna, verðbólgunnar, lítillar framleiðni og versnandi lífskjara. Aðeins einn atvinnuvegur sker sig úr, því að hann er að meginstefnu til sjálfstæður og rekinn af einstaklingum og frjálsum félögum þeirra, þ. e. sjávarútvegurinn, enda byggist nú nær allt á honum, því að ofstjórnaraðdáendum hefur tekist að lama aðrar atvinnugreinar og eru nú að reka smiðshöggið á sveinsstykkið. En að því loknu hyggjast þeir að sjálfsögðu snúa sér beint að meistarastykkinu með félagslegum umbótum og samstjórn í sjávarútveginum. Þá fengju Íslendingar að njóta alsælu sósíalismans, sem sjálfsagt yrði þó fyrst í stað nefndur blandað hagkerfi og samvinnurekstur eða eitthvað „svoleiðis.“

Allan þann tíma, sem ég man, hefur sú meginhætta steðjað að íslenskri frjálsræðis- og sjálfstæðisstefnu að kommúnistum og framsóknarmönnum yxi svo fiskur um hrygg að þeir gætu sameiginlega náð meirihlutaráðum á Alþingi. Og þeir hafa sagt okkur beint og óbeint hvað þeir þá mundu gera. Síðast gaf núv. formaður Framsfl. sögulega yfirlýsingu eftir síðustu kosningar um nauðsyn vinstri stefnu og einangrun þeirra sem aðhyllast frjálsræðis- og sjálfstæðisstefnu. Það er því í hæsta máta skrýtið að til skuli þeir sem undrast skattpíningarstefnu þessarar síðustu og verstu vinstri stjórnar og þar með verstu stjórnar allra innlendra stjórna.

En af þeim sökum, sem nú hafa verið greindar, kom það aldrei til álita í þingflokki Sjálfstfl. fyrir uppákomuna, sem Guðmundur J. Guðmundsson nefnir svo, að taka upp samstjórn við báða höfuðandstöðuflokka Sjálfstfl. og þá eina. Menn ræddu um þjóðstjórn, stjórn með Alþfl. einum, honum og Framsókn eða kommúnistum, með Framsfl. einum og jafnvel kommum einum, en að lokum bauðst Sjálfstfl. til að mynda minnihlutastjórn. Ef forseti Íslands hefði ekki treyst sér til að veita flokknum slíkt umboð hefði — um stundarsakir a. m. k. — verið mynduð utanþingsstjórn.

Allir hefðu þessir kostir verið skárri en „uppákoman“, eins og nú er að koma betur og skýrar í ljós með hverjum deginum sem líður. Sannleikurinn er sá, að Gunnar Thoroddsen myndaði í rauninni aldrei ríkisstj., því að „uppákoman“ verður aldrei ríkisstjórn. Hann hindraði hins vegar myndun ríkisstj., þar sem um ýmsa kosti var að ræða þó að enginn væri kannske góður, með því að bjóða öllum andstöðuflokkum Sjálfstfl. atfylgi sitt til þess að þeir gætu myndað stjórn eða framlengt líf vinstri stjórnar. Þetta vita nú allir og því verður að ræða um það opinskátt og hreinskilnislega. Og auðvitað velta andstæðingar Sjálfstfl. sér upp úr þessum erfiðleikum, eins og Eiður Guðnason og fleiri gerðu hér áðan, — þeim erfiðleikum, sem flokkurinn er í, og gera sér vonir um varanlegan klofning og bræðravíg sem sundra muni sterkasta stjórnmálaafli þjóðarinnar, þannig að greið verði leiðin til sósíalismans, leiðin til ánauðar.

Ég óttast þetta hins vegar ekki neitt. „Uppákoma“ þýðir samkv. orðabók Menningarsjóðs: eitthvað vont, slæmt tilfelli, óheppni, áfall, slys. Allt er þetta rétt. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Vinstri stefnan, skattránið og ofstjórnin á öllum sviðum atvinnulífsins gengur sér nú til húðar. Margir ágætir menn hafa raunar óskað þess að hún gerði það, svo að von væri til að unnt yrði að byggja heilbrigt og réttlátt þjóðfélag á rústum hákarlasamfélags vinstri stefnunnar sem alþýða þessa lands hefur fyrir augum. M. ö. o.: látum frumskógalífið, óréttlætið og ofbeldið við hinn veikari sýna sig í allri sinni nekt svo að menn verði reiðubúnir til þess sjálfsaga og ábyrgðar sem heilbrigt lýðræði verður að byggjast á.

Mín von er sú, að þrátt fyrir slysið. slæma tilfellið eða kannske vegna þess muni sjálfstæðisstefnan ná hugum manna í sífellt ríkari mæli á næstu mánuðum, ekki síst unga fólksins, og Sjálfstfl. muni vaxa svo fiskur um hrygg á næstu mánuðum að hann verði öflugri en nokkru sinni áður. Auðvitað verður það ekki í einu og öllu sami Sjálfstfl., þó að grundvallarhugsjónin sé og verði ætíð hin sama. Styrk sinn mun flokkurinn fá frá þeim fjölmennu stéttum sem óréttlæti og skattpíning leikur nú harðast. Og frjálshuga æska mun varpa af sér vinstra okinu og krefjast réttar síns til sjálfstæðis og athafna, brjóta þá hlekki og slíta þau bönd sem hvarvetna gefur að líta og leitt hafa til öngþveitis og kjararýrnunar á valdatíma vinstri manna.

Sjálfstæðismenn munu setja niður sínar deilur án hefndarhuga, því að nú er ekki deilt eða barist um menn, heldur hugsjónir. Þegar slys er orðið ber að bjarga því sem bjargað verður og þá fyrst og fremst mannslífunum. Þess vegna verða engin vígaferli í Sjálfstfl., eins og umboðsmenn alheimssósíalismans hafa gert sér vonir um og raunar fleiri menn, m. a. hér í kvöld, heldur verður liðinu skipað í fylkingar á ný þegar rétt stund er upp runnin, þegar áratugur upplausnarinnar er óumdeilanlega á enda. „Uppákoman“ er því ekki upphaf alvarlegra átaka í Sjálfstfl., heldur endalok þeirra.

Ég skal að vísu játa þá staðreynd, að vinstri öflin hafa á undanförnum árum haldið styrk sínum og stundum jafnvel aukið hann meðal ungs fólks sem ekki vill una óréttlæti upplausnaráratugarins. Það er vissulega kaldhæðni örlaganna þegar ungir hugsjónamenn, sem vilja róttækar breytingar hins spillta vinstra þjóðfélags, kjósa yfir sig öflin sem ábyrgð bera á óstjórninni og spillingunni. Gagnrýni þessa fólks er oft réttmæt, en ályktunin röng, því að gengið er út frá því að íhaldsmenn hljóti að vera þeir sem svona vilja hafa þetta.

Eins og ég sagði áðan held ég að þessari fjórðu vinstri stjórn muni takast að opna augu unga fólksins fyrir því, hvar það eigi að skipa sér í sveit ef það vill koma hugsjónum sínum fram. Þar skipta lífskjörin nú ekki öllu. Við getum við þau búið ef við jöfnum þau örlítið betur í stað þess að auka á ójöfnuðinn ár frá ári. Það er svigrúmið sem frjálshuga fólk krefst og jafnréttið. Það er klíkuskapurinn og opinbera pólitíska ofríkið sem unga fólkið vill brjóta niður. Það er sjálfstæðisstefna sem það vill fylgja fram til sigurs. Þá sakar auðvitað ekki að búa í langbesta og gjöfulasta landi heimsins, sem auðveldlega getur tryggt öllum þegnum sinum góð kjör, menntun og fjárhagslegt öryggi, en þó umfram allt menningu, sem oft er raunar óraveg frá svokallaðri æðri menntun.

Við skulum vona að hugsjónir frjálshuga æskufólks megi rætast fyrr en síðar. — Góða nótt.