29.04.1980
Sameinað þing: 49. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2140 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

144. mál, símamál á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Sveinn Jónsson):

Herra forseti. Hér á borðum alþm. hefur nú um nokkurt skeið legið fsp. mín til hæstv. samgrh. um símamál á Austurlandi. Fsp. er í þremur liðum og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„1. Hve mikill hluti sveitabæja á Austurlandi er án þjónustu frá miðstöð á kvöldin og á nóttunni og um helgar?

2. Hverra úrbóta er að vænta í málum þessum?

3. Hverjar eru áætlanir um sjálfvirkan síma í sveitir Austurlands, sbr. lagafrv. Ragnars Arnalds á s. l. hausti um fjögurra ára áætlun um sjálfvirkan síma í allar sveitir landsins?“

Sambærilegar fsp. voru hér til umr. í fyrri viku og sýnir það hversu mikill áhugi er á því að úrbætur fáist hið fyrsta í þessu mikla hagsmunamáli dreifbýlisins.

Vegalengdir á Austurlandi eru miklar og þar er víða langt milli bæja. Það er því sérstaklega mikilvægt, að símaþjónusta íbúanna sé í góðu lagi. Þarf ekki að hafa um það mörg orð hvaða öryggi er að því að geta náð sambandi við miðstöð eða til ákveðinna aðila beint á hvaða tíma sólarhrings sem er. Eldsvoða ber gjarnan að garði að næturlagi og nauðsynlegt getur verið að ná til læknis fyrirvaralaust í slysa- og veikindatilfellum, svo eitthvað sé nefnt. Það er allsendis óviðunandi að fólk skuli enn í dag búa við símaþjónustu sem takmarkast við fjögurra tíma þjónustu á dag. Fjögurra tíma þjónustustöðvar eru í dag reknar með talsverðu tapi, 4 millj. kr. á núgildandi verðlagi, að mér er sagt, og mundi það tap tvöfaldast ef þjónustan yrði aukin í það að vera 6 tímar á dag.

Nokkuð hefur verið unnið að því á undanförnum árum að afnema þjónustustöðvar úti um sveitir og koma bæjum í beint samband við aðalstöðvar héraðanna og er hér um talsverða bót að ræða. Reyndin er þó víða sú, að erfiðlega getur gengið að ná sambandi langtímum saman vegna þess að margir bæir eru tengdir á eina og sömu línuna og því álagið gjarnan mikið á ákveðnum tímum, t. d. á kvöldin. Samband innansveitar þykir líka gjarnan hafa versnað til muna frá því sem áður var með gamla sveitasímanum.

Eina raunhæfa bótin í þessum málum er að allir bæir verði tengdir hinu sjálfvirka kerfi með fjölsímastrengjum beint við aðalstöð hvers héraðs, en þær eru staðsettar í þéttbýliskjörnunum sem sinna öryggismálum, þjónustu og viðskiptum þessara sveita.

Þess eru dæmi að áður handvirkar þjónustustöðvar sveitanna hafi verið gerðar sjálfvirkar og þá tekin upp talning, að vísu hæg, milli þessara stöðva og aðalstöðvarinnar í þéttbýliskjarna héraðsins. Þessa talningu tel ég og margir fleiri vera óréttláta og þessu verður að breyta þannig að íbúar sveitanna greiði ekki hærra verð fyrir símtal við lækni sinn eða verslun en sá sem í þéttbýliskjarnanum býr. Þetta er aðeins einn liður í því að jafna símakostnað allra landsmanna og auðvelt að koma þessu í kring nú þegar unnið er að breytingum til aukinnar og bættrar símaþjónustu sveitanna. Að öðru leyti er það óréttlæti, sem landsbyggðin býr við vegna fjarlægðar við höfuðborgarsvæðið, sem er aðalþéttbýliskjarni landsins, alls ekki hér til umr. Það er mál sem þarfnast sérstakrar umr. og væntanlega verða margir til að taka undir það.