12.12.1979
Sameinað þing: 1. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Forseti Íslands setur þingið

Forseti Íslands (Kristján Eldjárn):

Hinn 6. des. s.l. var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hef ákveðið samkv. tillögu forsrh., að Alþingi skuli koma saman til fundar miðvikudaginn 12. des. 1979. Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.

Gjört í Reykjavík, 6. des. 1979.

Kristján Eldjárn.

Benedikt Gröndal.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman til fundar miðvikudaginn 12. des. 1979.“

Samkv. bréfi því, sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því, að Alþingi Íslendinga er sett.

Það þing, sem nú hefur verið sett, kemur saman við mjög óvenjulegar kringumstæður. Að baki eru alþingiskosningar sem hvað árstíma varðar eru einsdæmi í sögu Alþings. Fram undan er fagnaðarhátíð jólanna, þegar vér öll vörpum af oss hinum daglegu byrðum til þess að gleðjast og m.a. þakka forsjóninni að þjóð vor skuli tilheyra hinum kristna heimi. En það liggur í augum uppi, að skammt hlýtur að verða milli þingsetningar og þinghlés, sem ekki verður á svipstundu sagt hve lengi muni standa. Blessuð jólin munu sem sagt setja strik í reikning Alþingis. Öllum er kunnugt að þjóðin býr nú við ríkisstj. sem er starfsstjórn með þá takmörkuðu möguleika til að taka á málum sem slíkum stjórnum er áskapað. En þau vandamál, sem bíða þess að á þeim sé tekið, eru mikil og mörg, eins og lýst hefur verið á ærið mörgum ræðustólum um land allt að undanförnu. Og enn verður að bíða um nokkurn tíma, eða þangað til Alþingi hefur leyst þann vanda af höndum að koma sér saman um þingræðislega ríkisstjórn, sem með fullri getu og fullri ábyrgð getur lagt gjörva hönd á þau brennandi úrlausnarefni, sem eru í verkahring fullgildrar ríkisstj. og ekki er á neins annars færi að fást við.

Þjóðin hefur kjörið yður, góðir alþm., til að taka sæti á Alþingi og þar með falið yður forsjá málefna sinna á hendur. Hún hefur kosið sína gamalreyndu stjórnmálaflokka og að þessu sinni sýnt þeim öllum tiltölulega jafnari trúnað en stundum áður. Engin þeirra getur með sanni sagt sem flokkur, að honum hafi verið hafnað og hann þar með leystur undan ábyrgð. Og hún hefur jöfnum höndum kosið þrautreynda þingmenn og nýliða sem hún treystir vegna fyrri starfa þeirra. Þér hafið boðið yður fram til þessara ábyrgðarstarfa og þjóðin hefur tekið boði yðar.

Ég leyfi mér að fara með þessi orð á þessari stundu, þótt einhver kunni að kalla þau sjálfsagða hluti, vegna þess að mér virðist það brýnni nauðsyn nú en oftast endranær, andspænis öllum almenningi í landinu, að Alþingi beri gæfu til að láta ekki dragast úr hófi fram að mynda starfhæfa þingræðislega ríkisstj. Hvort tveggja er, að vandamál bíða úrlausnar, þótt þau þoli illa biðina, og almenningur, sem er nýkominn frá kjörborði, vill ekki láta reyna um of á langlundargeð sitt. Þjóðin mun eiga bágt með að skilja hvers vegna hún gengur til kosninga hvað eftir annað með stuttu millibili, ef hún svo þarf að horfa upp á það langtímum saman, að þeir menn og þeir flokkar, sem hún hefur veitt umboð sitt, geti ekki náð þeirri samstöðu sem nauðsynleg er, eftir einhverri þeirra leiða sem þó eru mögulegar samkvæmt þingræðislegum reglum. Ég held að hugsanir í þessa átt séu ofarlega í mönnum þessa dagana, og ég get vel skilið það. Og þetta segi ég eins fyrir því, þótt öllum megi ljóst vera og er ljóst, að lýðræðis- og þingræðislegar leikreglur verða að hafa sinn gang og það tekur óhjákvæmilega sinn tíma. Ég vonast til að menn skilji orð mín rétt eins og þau eru hugsuð og töluð, sem hógvær varnaðarorð, því að ég met störf stjórnmálamanna mikils og mér er annt um veg Alþingis.

Á þingsetningardegi beina hugsandi menn athygli að Alþingi öðrum dögum fremur og leiða sér í hug störf þess og stöðu með þjóðinni. Ég held að það sé mikill misskilningur, að stjórnmálaáhugi sé lítill hér á landi. Þvert á móti er fylgst af lifandi áhuga með því sem í þjóðmálum gerist, og það mega kosningarnar eiga, með öllum sínum umsvifum, að þær glæða þennan áhuga. Og þjóðmálin og umræða um þau kristallast að lokum beint eða óbeint innan veggja þessa húss, í orðum og ákvörðunum Alþingis. Ég hef oft látið þá skoðun í ljós, að því sé ranglega haldið fram að þorri manna beri litla virðingu fyrir Alþingi og þeim mönnum sem það skipa. Mér hefur stundum fundist eins og einhver vél væri í gangi til að ala á þessu. En þetta er að minni hyggju rangt, og vísast mætti færa sönnur á það með áþreifanlegum dæmum. Sem betur fer er þjóð vor ekki svo hamingjusnauð að hún viti ekki hvað hún á þar sem Alþingi er, og er hitt allt annað mál, þótt menn kunni að verða óþreyjufullir ef úr hófi fram seint gengur að koma því í framkvæmd sem þó verður að gerast. E.t.v. eru mjög langdregnar stjórnarmyndunarviðræður það sem einna mest reynir á þolinmæði fólks og vinnur áliti Alþingis mest tjón. Ég er sannfærður um að allur þorri manna bíður þess með talsverðri óþreyju að mynduð verði þingræðisleg ríkisstjórn, vitaskuld innan þeirra tímamarka sem allir viti bornir menn skilja að ekki geta orðið mjög þröng, eins og flokkaskipting er nú og málefni flókin og erfið viðfangs, og þetta vil ég taka skýrt fram.

Ég býð yður öll velkomin til þings, yður, sem hér eruð heimavön, og yður, sem nú gangið í þingsali í fyrsta sinn og munuð því e.t.v. lengi minnast þessa dags. Ég óska yður öllum velfarnaðar í störfum yðar.

Að svo mæltu bið ég yður að risa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingheimur stóð upp, og forsrn., Benedikt Gröndal, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Þingmenn tóku undir þessi orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi þar til kosning forseta sameinaðs Alþingis hefur farið fram, og bið ég aldursforseta, dr. Gunnar Thoroddsen, 8. þm. Reykv., að ganga til forsetastóls.