29.04.1980
Sameinað þing: 50. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það er ósköp dapurlegt, að þá sjaldan að íslenska menningu ber á góma í þessum sölum, sem skyldi vera forsendan fyrir því að við erum yfirleitt að þessu basli hér, þá er tilefnið ævinlega heldur sorglegt. Hins vegar tel ég mér skylt að standa hér á fætur vegna þess að líklega var ég eini þm. sem viðstaddur var aðalfund Rithöfundasambands Íslands sem fram fór á laugardaginn var. Þar kom þessi deila óvænt upp og um hana urðu nokkrar umræður, enda hér alvarlegir hlutir fram bornir. Þeirri deilu lauk afar friðsamlega á þeim fundi. Stjórnin, sem mjög hefur verið ráðist á hér af hv. alþm. Sigurlaugu Bjarnadóttur, var einróma endurkjörin. Samþykkt var einróma að setja á laggirnar nefnd rithöfunda sem í eru Vilborg Dagbjartsdóttir rithöfundur, Jón frá Pálmholti rithöfundur og Ingimar Erlendur Sigurðsson rithöfundur. Þessari nefnd var falið að gera hugsanlegar breytingar á reglugerð sem fyrrv. hæstv. menntmrh. Vilmundur Gylfason setti nú nýverið, eða nánar tiltekið á árinu 1979, ef breytinga væri þörf. Það skal tekið fram og ég hygg að hv. þm. Vilmundur Gylfason staðfesti það hér, að ástæðan fyrir því, að hann setti þessa reglugerð svo til óbreytta frá því sem hún áður var, var sú að fellt var á aðalfundi í Rithöfundasambandi Íslands að breyta henni.

Þetta eru kannske ósköp leiðinlegar og hversdagslegar staðreyndir. Hitt er svo miklu alvarlegra mál, að hér eru þrír menn sem hafa verið kjörnir af hálfu Rithöfundasambands Íslands, einn prófessor í bókmenntum við Háskóla Íslands, einn rektor við Menntaskólann á Ísafirði og bókmenntafræðingur, sem mér er nú ekki alveg kunnugt um hvar starfar í augnablikinu, — þetta fólk er borið þeim sökum, að það misnoti úthlutun úr Launasjóði rithöfunda eftir pólitískum leiðum.

Mér er það dálítið undrunarefni, að hæstv. menntmrh. sagði áðan að sér þætti ekki ástæða til að blanda sér í þetta mál. Það finnst mér hins vegar. Ef þetta fólk hefur gert þetta sem það er ásakað um, þá vil ég biðja hæstv. menntmrh. að athuga hvort umræddur Björn Teitsson er fær um að stjórna Menntaskólanum á Ísafirði í umboði hans rn., hvort Sveinn Skorri Höskuldsson er fær um að kenna bókmenntir í Háskóla Íslands, og jafnframt mundi ég óska eftir að hann kannaði hvað Fríða Sigurðardóttir starfar og hvort hún er hæf til þess starfa. Hér er nefnilega mjög alvarlegt mál á ferðinni. Við, sem erum félagar í Rithöfundasambandi Íslands, munum að sjálfsögðu vera mjög á verði um að slíkt og annað eins eigi sér ekki stað, því að það er auðvitað grundvallaratriði fyrir íslenska menningu að fullkomið frelsi: tjáningarfrelsi og skoðanafrelsi, eigi sér stað og á því verði aldrei troðið, síst af öllu af þessari stofnun og þeim sem eru fulltrúar hennar á opinberum vettvangi.

Hinu neita ég svo ekki, að ég stórdreg í efa að þessi umræða hafi verið gagnleg, vegna þess að hún var algjörlega rangt lögð upp. Vandamálið er auðvitað fyrst og fremst það, að hér er verið að deila út fé sem ekki er nóg. Það er alkunna og ættu allir hv. þm. að vita, að af þeim 600 millj. sem ríkissjóður þénar beint á því sem íslenskir rithöfundar framleiða, fáum við 114 millj. til þess að efla íslenskar bókmenntir, nánar tiltekið laun í 290 mánuði.

Til þess að menn viti almennustu staðreyndir í því máli sem hér er á ferðinni, þá skal upplýst að tveir menn sóttu um 12 mánaða styrk eða laun, við skulum endilega ekki kalla þetta styrk, 34 sóttu um 9 mánuði, 4 sóttu um 7 mánuði, 36 sóttu um 6 mánuði, 11 sóttu um 4 mánaða laun, 27 sóttu um 3 mánaða laun og 24 um 2 mánaða laun. Þetta eru alls 132 umsækjendur.

Það er auðvitað alveg ljóst, að þessir peningar nægja engan veginn, og það ætti að vera hlutverk Alþingis að hækka þessa upphæð sem verið er að úthluta. Það hefði verið meira fagnaðarefni að heyra hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur fara fram á það við hv. Alþingi.

Hitt er svo annað mál, að þegar ekki er hægt að úthluta öllum þeim sem sækja, eins og vitaskuld ætti að vera, þá kemur til umræddrar nefndar að meta, taka einn fram yfir annan. Og slíkt er auðvitað alltaf vandi.

Hitt er svo annað mál, að hér voga menn sér að segja að fólk sé valið eftir pólitískum skoðunum. Vill hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir þá ekki setja inn í umsóknareyðublaðið að menn svari því, hvar í flokki þeir eru í stjórnmálum? Ég get svo sem alveg upplýst hv. Alþ., ef menn vilja það, að mér er ekki kunnugt um t. d. að Sveinn Skorri Höskuldsson sé félagi í Alþb. Það hef ég aldrei heyrt. Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir hlýtur að vita meira um skólameistarann á Ísafirði. Fríða Sigurðardóttir er mér vitanlega ekki heldur félagi í Alþb. (Gripið fram í: Þeir eru allir í Framsókn:) Enda skiptir þetta auðvitað ekki máli. Og ég harma að þurfa að eyða svo löngum tíma hér í ræðustóli.

Ég ætla að leyfa mér að lesa hér yfir hv. Alþ., svo einhverjar upplýsingar komi til þingsins, hverjir hafa fengið laun úr Launasjóði rithöfunda, og ég ætla að reyna að fara ekki niður úr 16 mánuðum samtals, annars held ég að listinn yrði ærið langur. Ég ætla aðeins að láta þm. heyra þau nöfn og spyrja hvort þetta fólk sé ekki þess verðugt að hljóta starfslaun til að skrifa bækur.

31 mánuð hefur fengið Thor Vilhjálmsson. 27 mánuði hafa fengið Vésteinn Lúðvíksson og Þorsteinn frá Hamri. 26 mánuði Nína Björk Árnadóttir og Ólafur Haukur Símonarson. 25 mánuði Pétur Gunnarsson og Þorgeir Þorgeirsson. 24 mánuði Einar Bragi.(Gripið fram í: Þetta eru allt anarkistar.) 23 mánuði Guðbergur Bergsson, Ingimar Erlendur Sigurðsson. 22 mánuði Guðmundur Daníelsson, Jóhannes Helgi. 21 mánuð Guðmundur G. Hagalín, Hannes Pétursson. 20 mánuði Jón Óskar. 17 mánuði Ása Sólveig, Sigurður Pálsson. 16 mánuði Gunnar M. Magnúss, Indriði G. Þorsteinsson, Kristinn Reyr. Og ég vil taka það fram að eins og alkunna er er Indriði G. Þorsteinsson heiðurslaunahöfundur hins háa Alþingis. 15 mánuði Birgir Sigurðsson, Guðlaugur Arason, Jón Helgason, Ólafur Jóhann Sigurðsson, Þórunn Elfa Magnúsdóttir. 14 mánuði: Kristján frá Djúpalæk, Steinar Sigurjónsson, Tryggvi Emilsson. — Ég ætla að fara niður í 11 mánuði, það er ekki mjög löng lesning: 13 mánuði: Guðmundur Steinsson, Jón úr Vör, Stefán Hörður Grímsson, Steinunn Sigurðardóttir. 12 mánuði: Ási í Bæ, Gréta Sigfúsdóttir, Gunnar Benediktsson, Jakobína Sigurðardóttir, Jóhann Hjálmarsson, Kristmann Guðmundsson, Njörður P. Njarðvík, Sigurður A. Magnússon, Þórarinn Eldjárn.

Ég hirði ekki að lesa þennan lista lengra. En ég hygg að þeir höfundar, sem allir eru sammála um að séu örugglega þess verðir að hljóta laun úr þessum sjóði, hafi einhvern tíma komist á blað. Þar verð ég auðvitað að taka undan mjög unga höfunda sem hafa kannske minna skrifað og eru ekki jafnkunnir. Og það verður hver að lá hvaða nefnd sem er þó að aðrir rithöfundar séu teknir fram yfir þá þegar peningarnir eru ekki nógir. Ég er alveg sannfærð um að nefndin er ekki endilega sannfærð um að hún hafi höndlað einhvern stórasannleik, en ég er alveg viss um að þetta fólk hefur reynt að gera þetta á eins sanngjarnan hátt og það gat.

Ég vil aðeins leyfa mér að skýra hinu háa Alþingi frá því, hverjir hlutu 9 mánaða laun. Vill einhver hér standa upp og segja að þetta fólk sé ekki þess virði? — Jakobína Sigurðardóttir, Ólafur Jóhann Sigurðsson, Ólafur Haukur Símonarson, Svava Jakobsdóttir. Þorir einhver hér að standa upp og segja: Þetta fólk er ekki rithöfundar sem eru þess verðir að fá starfslaun úr eigin sjóði.

Þetta mál er á því stigi og á því plani, ef svo mætti segja, að það er engum til gagns. Hér er auðvitað um það að ræða að ekki er nóg fé veitt til þessara hluta. Ef úthlutunarnefndin er vænd um pólitíska misnotkun, hvernig á að leysa málið? Á að skipa í úthlutunarnefndina eftir pólitískum línum? Það væri þá eðlilegt að allir flokkar ættu sinn mann í úthlutunarnefnd. Viljum við fara þá leiðina. Þá hlýtur að þurfa að spyrja á umsóknareyðublaði: Hvar er viðkomandi manneskja í stjórnmálum. — Ég held að enginn þeirra höfunda, sem skrifuðu undir þetta óánægjuplagg, mundi kjósa þá leiðina.

Um hvað eru menn að tala hér? Það eru auðvitað ekkert athugavert við það að heill listi af fólki sem skrifar bækur, ef það skrifar góðar bækur, fái ritlaun úr eigin sjóði, þó það kjósi Alþb. Það er leyfilegt í þessu landi að kjósa Alþb. Á nákvæmlega sama hátt væri ekkert athugavert við það að ekki sæist einn bleikrauður kommi á slíkum lista. Um hvað eru menn eiginlega að tala hér á Alþingi Íslendinga? Ég auglýsi eftir svörum við þessum spurningum.