29.04.1980
Sameinað þing: 50. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Sú umræða, sem hér hefur farið fram, minnir okkur á tíma sem ég hélt að væru löngu liðnir. Hún minnir okkur á tíma kalda stríðsins þegar íhaldið hér í landinu, sótsvartasta afturhaldið, réð því bókstaflega hverjir það voru sem fengu stuðning af almannafé til listsköpunar í landinu.

Sú umræða, sem hér fer fram núna, er eins og endurtekning á þeirri umræðu sem hér fór fram í fyrra undir forustu þm. Ragnhildar Helgadóttur um bókina Félaga Jesús, sem hv. þm. Halldór Blöndal ýjaði örlítið að áðan í ummælum sínum um Norræna þýðingarsjóðinn.

Ég tel að þessi umræða sé í raun og veru ekkert gamanmál, eins og virðist vera af málflutningi hv. 7. landsk. þm. Ég tel að hér sé einn alþm., kjörinn með eðlilegum hætti til þings þjóðarinnar, að bera það á einn stjórnmálaflokk og að bera það á tiltekna menn að opinbert fé hafi verið misnotað í þágu þessa stjórnmálaflokks, þ. e. Alþb. Ég krefst þess sem þm. af hæstv. menntmrh. og hæstv. ríkisstj., að könnun verði látin fara fram á því hvort hérna hefur verið um að ræða misnotkun á opinberu fé. Ég neita því sem flokksmaður í Alþb. og sem alþm. að sitja undir árásum af því tagi sem hv. 7. landsk. þm. hefur hér flutt. Ég neita því. Ég tel að hér sé um að ræða algjörlega siðlausan áburð sem eigi sér enga rakastoð nokkurs staðar, en ég geri þá kröfu sem alþm. að málið verði kannað til hlítar. g neita að sitja undir áburði af þessu tagi án þess að gert sé allt sem hugsanlegt er til að kanna hvar í ósköpunum gæti verið flugufótur fyrir þeim áburði sem hér hefur verið fluttur. Ef hann er til, þá á að víkja þessum mönnum frá.

Ég vil einnig segja það við hv. þm. og aðra sem hér kunna að vera sama sinnis: Hér eru þeir vitaskuld fyrst og fremst að gagnrýna það að fólk skuli geta fengið opinberan stuðning til listsköpunar þrátt fyrir það að það séu félagsmenn í Alþb. Það er krafan um atvinnuofsóknir á hendur þessu fólki sem hér er uppi af hálfu talsmanna íhaldsins hér í sal Alþingis á ofanverðri 20. öld. Krafan um atvinnuofsóknir gægist hér fram. McCarthy-isminn ómengaður sést í gegnum þann málflutning sem hér er hafður uppi. En umfram allt neita ég því að sitja undir þeim áburði sem Alþb.-maður að opinbert fé sé af einhverjum tilteknum mönnum úti í bæ misnotað í þágu Alþb. Ég krefst þess, að hv. þm. Halldór Blöndal sanni þetta, vegna þess að hann margendurtók það í ræðu sinni áðan að fé hefði verið misnotað í þágu Alþb.

Nei, krafan um það, að menn njóti ekki stuðnings til listsköpunar vegna þess að þeir eru hugsanlega sósíalistar, hefur áður heyrst hér á Íslandi. Hún hefur áður heyrst. Hún hefur áður fengið stuðning á Íslandi af ákveðnum öflum. Það eru æðimörg lestrarfélög hér í landinu sem á kreppuárunum og fyrir miðja öldina neituðu að kaupa bækur eftir Halldór Laxness vegna þess að talið var að hann væri kommúnisti og stuðningsmaður Kommúnistaflokksins og Sósíalistaflokksins. Við þurfum ekki að fara ýkjamarga áratugi aftur í fortíðina til þess að sjá framan í ofsóknir af þessu tagi. Og það eru talsmenn þessara sömu afla sem koma nú hér upp í ræðustól á hv. Alþ. og bera það á okkur Alþb.-menn að við misförum með opinbert fé með þeim hætti sem hv. 7. landsk. þm. gerði áðan.

Í rauninni er málflutningur bæði hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur og hv. þm. Halldórs Blöndals krafa um það að pólitísk klíkusjónarmið ráði ríkjum, sem er gagnstætt því sem hv. þm. halda fram. Þau vilja ekki að menn fái að njóta sannmælis í listsköpun, heldur eigi pólitísk klíkusjónarmið að ráða úrslitum um það, hverjir njóti stuðnings af almannafé til listsköpunar í landinu. Það kemur mér ekki á óvart að slík sjónarmið séu til, en það kemur mér á óvart að slíkum sjónarmiðum skuli hampað hér á Alþingi Íslendinga árið 1980.