29.04.1980
Sameinað þing: 50. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Mig langar til þess vegna orða hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur um það, að þetta mál væri þegar komið í góðan farveg þar sem aðalfundur Rithöfundasambandsins hafi kjörið nefnd til þess að gera úttekt á reglum er varða það mál sem hér er til umr., aðeins benda á að þeir, sem nú hafa sett fram þær kröfur sem við erum að ræða um hér á hv. Alþ., hafa bent á að þeir eigi að skila störfum á næsta aðalfundi, sem væntanlega verður ekki haldinn fyrr en í apríl á næsta ári. Það mun vera venja að aðalfundur Rithöfundasambandsins sé haldinn um það leyti. Hins vegar má búast við því, að þá þegar verði stjórn Rithöfundasambandsins búin að kjósa að nýju nefnd til þess að úthluta úr sjóðnum næstu 3 árin, því að þannig er gengið frá málum í lögum og reglum að kjósa á til þriggja ára, og þegar ég segi kjósa, þá tel ég það vera að kjósa þegar stjórn Rithöfundasambandsins tilnefnir og hæstv. ráðh. fer síðan í einu og öllu að kröfu stjórnarinnar. Það getur sem sagt gerst, að áður en viðkomandi nefnd Rithöfundasambandsins hefur skilað áliti sé Rithöfundasambandsstjórnin þegar búin að tilnefna nýja menn sem verða síðan að starfa í 3 ár, nema einhverjar breytingar gerist. Þetta tel ég að þurfi að koma fram til þess að menn átti sig á því, um hvað málið snýst. Reyndar er það svo, að einn þeirra manna, sem kjörinn var í þessa nefnd af hálfu Rithöfundasambandsins, er Ingimar Erlendur Sigurðsson, sem stendur einna fremstur í flokki þeirra manna sem hafa gagnrýnt þau vinnubrögð sem hér eru til umræðu.

Í öðru lagi nefndi hv. þm. það, að vandamálið væri afskaplega einfalt, það væri einfaldlega það, að peningarnir væru ekki nógir. Þetta er áreiðanlega alveg rétt hjá hv. þm., að vandinn stafar einmitt af því að fjármunir eru af skornum skammti og við þurfum að kjósa yfir okkur nefndir og ráð til þess að úthluta af þeim ástæðum. Og það er þess vegna sem vandi þessara aðila er jafnmikill sem raun ber vitni. Ef nægilegir fjármunir væru fyrir hendi gæti hver tínt peninga af trjánum sem honum sýndist.

En það er dálítið spaugilegt að hv. þm. nefnir þetta á þeirri stundu sem hæstv. fjmrh. er úr Alþb. Sá hæstv. fjmrh. var áður hæstv. menntmrh. og notaði tækifærið, þegar hann gerðist hæstv. fjmrh., til að setja talsvert af fjármagni í menntamálin og ég ætla síst að fara að gagnrýna það, jafnsjálfsagt og það er, þannig að honum var í lófa lagið að setja meira fjármagn í þetta ákveðna verkefni ef hann hefði kært sig um það. Þannig stóðu málin og þetta vissum við, sem störfuðum þá í hv. fjvn., því að við fengum till. hans sendar til okkar áður en þær birtust í fjárlagafrv., og þá var einmitt sýnt á hvað hann legði sérstaka áherslu.

Hann kaus hins vegar að láta fjármagnið fara til annarra hluta, sem ég efast ekki heldur um að séu nytsamir eins og þeir sem við erum hér að fjalla um. (GHelg: Hefur þetta ekki verið rætt í gáfumannafélaginu?) Já, þetta hefur verið rætt í gáfumannafélagi Alþb., upplýsir hv. þm., þannig að þá er nú málið komið á mikinn skrið.

Þá tók næst til máls hæstv. félmrh. af hálfu Alþb., og ég verð að segja það, þrátt fyrir orð hv. þm. Sverris Hermannssonar, að ég kannaðist æðivel við Svavar Gestsson í þessum ham. Þetta var gamla gervið sem hann hefur ávallt sýnt, nema nú nokkra mánuði eftir að hann kom á hv. Alþ., einfaldlega vegna þess að hann var gerður að ráðh. áður en þing kom saman og hann settist á hv. Alþ. Hann tók auðvitað til varnar, það var ósköp eðlilegt. Hann var eins og ungahæna sem er að passa ungana sína, breiddi út vængina og lét auðvitað illum látum, eins og slíkir fuglar gera gjarnan þegar á þá er ráðist. Og ég lái honum það ekki, því að hann veit sem er, að þarna er höggvið nærri hans flokki og þá sérstaklega þeirri deild í Alþb. sem í daglegu tali er í sölum Alþingis kölluð gáfumannafélagið til aðgreiningar frá glímudeildinni sem Guðmundur J. Guðmundsson hefur forstöðu fyrir.

Hæstv. ráðh. var ákaflega sár og reiður út af því, að þetta mál skyldi flutt hér inn í þingsalina, og sagði, að hér væri verið að ráðast gegn ákveðnum mönnum o. s. frv., o. s. frv., þetta væri ekki réttlætanlegt, og hafði þau orð, sem ég ætla ekki að fara að endurflytja því að síðasti hv. ræðumaður gerði þessu skil. En ég vil enn og aftur leggja áherslu á það, að það, sem vakir fyrir þeim sem flytja þetta mál inn í þingsalina, er það eitt að fá fram nægar upplýsingar í málinu til þess að geta kannað á hlutlægan hátt hvort þessar ákærur, sem 46 rithöfundar hafa sent frá sér, séu á rökum reistar, og ef það er grunur um það, að Alþ. grípi þá í taumana með þeim hætti sem hv. Alþ. ber að gera þegar slík mál koma upp, með því að beita sér fyrir breytingu á lögum og reglum eða mælast til þess við fulltrúa sinn í menntmrn., hæstv. menntmrh., að hann aðhafist eitthvað í málinu.

Ég hirði ekki um það hér að fara að ræða um afstöðu Alþb. til lista, en get þó ekki hjá því komist að benda á að svo virðist sem hér á landi sé sú skoðun uppi meðal fjölda listamanna og þá einkum rithöfunda, að ekkert sé list, ekkert sé almennileg list nema hún hafi ákveðinn boðskap að flytja. Ýmsir fulltrúar Alþb. í listgreinum hafa, án þess að vera nokkuð að fela það, lagt það mat á þessa hluti, að þeir telja að það sé aðeins sá boðskapur, sem þeir séu að flytja hverju sinni, sem sé sá eini sanni boðskapur sem á heima í listum. Þetta hefur verið sagt og um það ætla ég ekki að flytja ræðu að sinni, hvort þarna sé um að ræða einhvers konar flokksnýtingu á listinni. Um það verða aðrir að dæma og það kemur kannske út sem niðurstaða þessa máls þegar það hefur verið kannað rækilega.

Það athyglisverða er, að á undanförnum árum hefur það gerst, að þeir stríðandi hópar rithöfunda, sem áður voru, hafa sameinast í eina fylkingu í Rithöfundasambandinu. En nú gerast þeir atburðir sem geta orðið til þess, að félagið klofni aftur. Og það er athyglisvert við það, að nú hafa sameinast tveir hópar: annars vegar þeir sem ég leyfi mér að kalla hógværari rithöfunda, og hins vegar ungir róttækir rithöfundar sem sjálfir hafa gefið út sín verk og staðið að útgáfunni sjálfir. Þessir höfundar hafa risið upp gegn því sem þeir kalla flokksvald Alþb., eða eins og einn rithöfundurinn orðaði: gegn þeim sem eru í eða á Alþb., og er þá jötuliðið talið með.

Ég tel að það sé fullkomlega réttmætt að hér komi fram krafa um það, að upplýsingar séu látnar á borðið þegar svo alvarleg ásökun kemur fram eins og þeirra rithöfunda sem hafa ákært stjórn launaúthlutunarsjóðsins. Þess er að geta, að mér hefur verið sagt að formaður Rithöfundasambandsins hafi ekki fengist til þess að kalla þessa nefnd eða stjórn, úthlutunarnefnd, á fund Rithöfundasambandsins til þess að gera grein fyrir málum. Þetta hef ég eftir rithöfundi og get ekki sannað það með nokkrum hætti, en ef þetta er rétt, því meiri ástæða er þá til að þetta mál sé kannað.

Það er auðvitað eðlilegt, að við alþm. reynum að sjá til þess að reglur séu endurskoðaðar þegar á þarf að halda, og ég er tilbúinn fyrir mitt leyti til þess að styðja það að kosin sé nefnd af hv. Alþ. til þess að fara ofan í þessi mál aftur. En ef hæstv. ráðh. fæst til þess að gefa þá yfirlýsingu, að hann kynni sér þetta mál nákvæmlega og svari þeim fsp. sem til hans hafa borist, þá auðvitað verð ég því svari feginn. Hitt er svo annað mál, að mér líkaði ekki orðalag sem hann lét fylgja orðum sínum þegar hann sagði að þetta kæmi til hans kasta og hann mundi gera eitthvað í málinu þegar honum þóknaðist. Það eru ekki nægileg svör fyrir mig.

Alþ. hefur eins og kunnugt er fjárveitingavaldið. Það hefur kosið í mörgum tilvikum að framselja þetta vald til hinna og þessara aðila. En eftir sem áður stendur Alþ. ábyrgt sinna gerða. Sá maður, sem er formaður í þessum úthlutunarsjóði, er Sveinn Skorri Höskuldsson, eins og margoft hefur komið fram. Ég vek athygli á því, án þess að það sé kannske merkilegt innlegg í þetta mál, að þetta er sami maðurinn sem stóð fyrir Norræna þýðingasjóðnum um skeið og nú er formaður í þessum Launasjóði Rithöfundasambandsins. Fyrir rúmu ári var hann í þriðja gervinu, kom fram í þriðja hlutverkinu sem úthlutunarmaður styrkja úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins, og á gamlársdag 1978 flutti hann ræðu í Þjóðminjasafninu, þar sem hann veitti Guðbergi Bergssyni verðlaun, og sagði þá m. a., með leyfi forseta:

„Hlutverk þeirra, er sjóðum ráða eða með völd fara, gagnvart skáldum er ekki það að loka þau inni eða þagga niður í þeim með lagagreinum, heldur hitt, sem Maó formaður kallaði að láta þúsund blóm gróa.“

Ég vek athygli á þessum orðum, því að hér hefur þessi sami maður verið nánast sakaður um það að hafa misnotað sitt vald, og ég vonast til þess og vil gera það að mínum lokaorðum, að hæstv. menntmrh. og meiri hl. Alþingis láti sig þetta mál varða og komist til botns í því, því að aðeins þannig er hægt að átta sig á því, hvað hæft er í þeim ásökunum sem komið hafa fram í fréttum.