29.04.1980
Neðri deild: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Skattamálin hafa nú verið hér til umr. í þinginu og í fjölmiðlum um tveggja mánaða skeið og seinast fóru fram útvarpsumr. frá Alþingi, frá fundi Ed. Alþingis, í gærkvöld. Það má því heita að bera í bakkafullan lækinn að gera hér ítarlega grein fyrir þeim till. sem hér liggja fyrir um breytingar á skattstigum eftir þessar ítarlegu umr., en ég tel þó hlýða að fara nokkrum orðum um stöðu málsins eins og það liggur nú fyrir.

Eins og menn rekur minni til voru gerðar rúmar 60 breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt frá 18. maí 1978 fyrir tveimur mánuðum, og nær allar þessar breytingar voru samþykktar með atkv. allra þm. Hitt hefur svo legið eftir, að ganga endanlega frá skattstiga í samræmi við verðlags- og tekjuþróun, sem orðið hefur á undanförnum tveimur árum, og gera aðrar lagfæringar á lögunum sem menn áttu þá eftir óafgreiddar.

Við ákvörðun skattstiga hefur það meginmarkmið verið haft að leiðarljósi, að tekjuskatturinn skili nokkurn veginn nákvæmlega sömu tekjum í ríkissjóð og gamla skattakerfið hefði skilað, ef reiknað er með 45% hækkun skattvísitölu milli ára. Út frá þessari meginviðmiðun hafa ákvarðanir verið teknar um skattprósentur, skattþrep, persónuafslátt og barnabætur. Að sjálfsögðu má ákveða þessar grunnstærðir laganna með ýmsum hætti og þó gefur skatturinn nokkurn veginn sömu upphæð, ef sú forsenda er lögð til grundvallar að skatturinn skili sömu tekjum og áður. Að vísu má halda því fram, að tekjuaukning milli ára kunni að verða meiri en áður var ráð fyrir gert, að hún verði ekki 45%, heldur 46 eða 47%, eins og sumir hv. stjórnarandstæðingar hafa verið að gera gælur við og halda fram. Og ekki vil ég á þessu stigi fullyrða neitt um það, hvort svo kunni að reynast. En ég vek á því athygli, að þegar skattstigar hafa verið ákveðnir hér á Alþ. hefur ævinlega verið lögð til grundvallar sú spá sem Þjóðhagsstofnun hefur gert um tekjubreytingu milli ára, og svo er einnig gert nú. Það hefur aldrei verið, svo að ég viti til, miðað við áætlanir samkv. framtölum þess árs sem er að líða, enda yfirleitt óhægt um vik þar sem skattstiginn hefur venjulega verið ákveðinn áður en framtölum hefur verið skilað.

Nú hefur framtölum verið skilað og það liggja vissulega fyrir úrtök frá örfáum sveitarfélögum. Hins vegar er öllum kunnugt um það, að í heilum sýslum og jafnvel í heilum kjördæmum eru menn ekki enn farnir að skila skattframtölum, og því er ógerningur að spá neinu um hver raunveruleg tekjubreyting virðist vera milli ára út frá fyrirliggjandi skattframtölum, vegna þess að þau liggja ekki fyrir nema á tiltölulega afmörkuðum svæðum á landinu.

Það er rétt sem komið hefur fram í fjölmiðlum, að tekjubreyting milli ára í nokkrum sveitarfélögum á Suðurnesjum reyndist heldur meiri en landsmeðaltalið sem miðað er við, 45%. En það er líka vitað, að einmitt á þessu landssvæði, þ. e. Suðurnesjum, varð töluvert meiri sveifla upp á við í atvinnulífi á árinu 1979 en varð í öðrum landshlutum, einfaldlega vegna þess að þessi landshluti var langt niðri hvað atvinnuástand snerti á árinu 1978. Það er því ljóst að tölur um tekjubreytingar milli ára, sem miðaðar eru við þetta landssvæði sérstaklega, eru mjög villandi og segja ekki nema lítinn hluta af sögunni. Ég tel því að það sé meira eða minna út í hött að vera að fullyrða eitthvað um það á þessu stigi, hver hafi orðið hin raunverulega tekjubreyting milli ára, því að um það getum við ekkert fullyrt. Það er vitað, að tekjur bænda voru minni, tekjuaukning hjá bændastéttinni var minni milli ára heldur en almennt gerist, og því nokkuð gefið að þegar dreifbýliskjördæmin verða komin með koma þau til með að draga niður meðaltalið fyrir landið allt. Ég held því að við verðum að ganga út frá því, meðan ekki liggja fyllri upplýsingar fyrir en nú er, að þessi tekjubreyting sé í kringum 45%, eins og við höfum miðað við þegar ákvarðanir um skattstiga og skattþrep voru teknar af ríkisstj. og stjórnarmeirihluta.

Í frv., eins og það var lagt fram í Ed., var gert ráð fyrir að skattþrepin yrðu við upphæðirnar 3 millj. og 6 millj. og skattprósenturnar yrðu 20% af 3 millj., 35% af 6 millj. og 50% skattur þar fyrir ofan. Persónuafsláttur var ráðgerður 440 þús. kr. Eftir að skattstigafrv. kom fyrst fram var hins vegar bent á það af mörgum að skattþrepin væru of stutt þegar efsta þrepið byrjaði við 6 millj. kr. tekjur framteljenda. Eftir nokkra athugun málsins varð því að ráði í samráði við ríkisstj. að teygja úr skattstiganum þannig að menn lentu ekki í efsta skattþrepi fyrr en tekjurnar væru komnar yfir 7 millj. kr. Fjh.- og viðskn. Ed. gerði till. þessa efnis í samráði við ríkisstj. og hækkaði þá lægstu prósentu úr 20 í 25% og persónuafsláttinn úr 440 í 525 þús. kr.

Við fyrstu sýn virtist þessi breyting ekki óeðlileg, en við nánari athugun kom í ljós að þegar teygt hafði verið á skattstiganum hafði neðsta þrepið orðið óhagstætt fyrir tekjulága einhleypinga. Þetta var að vísu ekki nægilega ljóst af þeim úrteikningum sem fyrir lágu frá Reiknistofnun Háskólans, vegna þess að þar er um nokkuð grófan meðaltalsreikning að ræða, eins og vill verða. En þegar upplýsingar bárust hins vegar um útreikning á einstökum dæmum frá ríkisskattstjóra varð ljóst, að þarna var um nokkuð óhagstæða útkomu að ræða fyrir tekjulága einhleypinga og fyrir einstæð foreldri. Að vísu kom í ljós þegar nánar var að gáð að þessir tveir reikniaðilar höfðu miðað við nokkuð ólíkar forsendur hvað snerti frádrátt frá tekjum einhleypinga í hinu gamla skattkerfi. En eftir sem áður og hvernig sem á þann mun er lítið — ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um hann — þá var ljóst að niðurstaðan yrði fullóhagstæð fyrir þessa tvo hópa, einstæð foreldri og einhleypinga.

Strax og mönnum varð ljós þessi ágalli á skattstiganum var 3. umr. í Ed. frestað, umr. sem átti að vera útvarpsumr., og nýir tölvureikningar gerðir til þess að leita leiðréttingar á þessari skekkju. Í framhaldi af því flutti ég síðan brtt. við 3. umr. málsins í Ed. þar sem gert var ráð fyrir að einhleypingar fengju að lágmarki 550 þús. kr. frádrátt, jafnvel þótt 10% frádráttarreglan heimilaði þeim miklu minni frádrátt. Með þessari einföldu úrlausn reyndist möguleiki að slétta úr þeirri misfellu sem fyrir lá í skattstiganum, og útkoman varð í heild mjög hagstæð fyrir einhleypinga. Þeir lækka allir í skatti frá hinu gamla skattkerfi, bæði tekjulágir einhleypingar og tekjuháir. Auk þess var ákveðið að bæta einstæðum foreldrum upp þann mun, sem fram kom á hinu gamla skattkerfi og hinu nýja, með því að ætla þeim sérstakar barnabætur fyrir börn yngri en 7 ára, og voru þær ákveðnar 65 þús. kr. hærri upphæð en lágmarksbarnabætur til einstæðra foreldra, sem eru 280 þús. kr.

Eftir þessa breytingu, sem gerð var við 3. umr. málsins í Ed., varð niðurstaðan sú, að einhleypingar hagnast á þessari kerfisbreytingu samtals um 1500 millj. kr. miðað við skattgreiðslu þeirra samkv. hinu eldra skattkerfi og einstæð foreldri borga samtals um 280 millj. kr. lægri upphæð í skatt en verið hefði samkv. gamla kerfinu, þótt vissulega verði að viðurkenna að útkoma þeirra úr þessari kerfisbreytingu er misjöfn. Í heild er þó um verulega lækkun að ræða hjá einstæðum foreldrum.

Eftir að þessi breyting hefur verið gerð á skattstiganum er ljóst að fólk með lágar tekjur hagnast verulega á þessari skattkerfisbreytingu. Það er svo samkv. þessu kerfi, að nú eru greiddir 20 milljarðar kr. í barnabætur og í persónuafslátt til greiðslu upp í útsvar, en samsvarandi tala samkv. gamla skattkerfinu hefði aðeins numið rúmlega 14.5 milljörðum kr. Mismunurinn, sem kemur að sjálfsögðu fyrst og fremst lágtekjufólki til góða, er 5.5 milljarðar kr.

Menn hafa ýmsir hverjir fárast yfir því, að í dagblaðinu Þjóðviljanum var því slegið upp á forsíðu, að skattalækkun sem næmi 5500 millj. kr. kæmi í hlut lágtekjufólks með hækkuðum barnabótum og hækkuðum persónuafslætti upp í útsvar. En hér hefur ekki verið um nettóskattalækkun að ræða, heldur aðeins tilflutning á skattabyrðinni. Ég vil vekja á því athygli, að í þessari fyrirsögn í Þjóðviljanum var aldrei gefið í skyn að hér væri um nettóskattalækkun að ræða upp á 5500 millj. kr. Það kom alveg ljóst fram í fyrirsögninni, — ef hún er lesin í heild, ekki bara stærstu bókstafirnir, heldur öll fyrirsögnin í heild, bæði yfirfyrirsögnin og undirfyrirsögnin, — þá kom ljóst fram að ekki var um nettóskattalækkun að ræða, heldur fyrst og fremst skattalækkun í þágu lágtekjufólks. Ég veit hins vegar að ýmsir stjórnarandstæðingar hafa farið líkt að og hv. þm. Friðrik Sophusson, að þeir hafa ekki viljað lesa nema bara stóra letrið, þessa stærstu bókstafi, og slegið síðan striki yfir það sem stóð þar fyrir neðan. En hér var svo sannarlega ekki um neina fölsunartilraun að ræða af hálfu Þjóðviljans, heldur sagði hann satt og rétt frá, að í þágu lágtekjufólks er hér um að ræða skattalækkun upp á 5.5 milljarða í formi aukinna barnabóta og í formi persónuafsláttar. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þm. geti svarað þeirri spurningu sjálfur. En það er ljóst, að hækkun barnabótanna og hækkun persónuafsláttar kemur fyrst og fremst lágtekjufólki til góða vegna þess að þessi hækkun er þess eðlis.

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þessa skattstigabreytingu. Ég vil aðeins taka það fram, að í frv., eins og það var lagt fyrst fram, var gert ráð fyrir að námsmenn fengju ákveðinn lágmarksfrádrátt, að upphæð 500 þús. kr., ef þeir væru við nám hér heima, en allt að 1 millj. ef þeir væru við nám erlendis. Þegar þessi breyting fer saman við hitt, að maki getur notið þessa frádráttar, en ekki eins og var í skattalögunum, að námsmaðurinn einn gat notið hans, maki með tekjur fær þetta til frádráttar, þá held ég að nokkuð ljóst sé að gengið er verulega til móts við óskir námsmanna um lagfæringar á skattalögunum. En vissulega mátti til sanns vegar færa að eins og skattálögin voru úr garði gerð á árinu 1978, þá væru þau mjög óhagstæð námsmönnum að þessu leyti. Hins vegar treystum við okkur ekki til þess að ganga að öllu leyti til móts við kröfur námsmanna, sem gerðu kröfu til þess að námskostnaður yrði frádráttarbær frá skatti í mörg ár eftir að námi lyki. Menn töldu að það yrði slíkt grundvallarbrot á eðli þeirrar skattbreytingar sem nú er að ganga yfir, að það væri mjög óheppilegt að samþykkja slíka breytingu. Hins vegar er ljóst að í 1. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir, er fólgin veruleg hagsbót fyrir námsmenn, og ég tel að sú breyting verði að duga þeim til handa.

Herra forseti. Ég ítreka það, að ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta skattalagafrv. Ég vænti þess, að það fái skjóta og greiða meðferð hér í d. í samræmi við það samkomulag sem gert hefur verið milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu. Ég vil þó bæta því við, að í máli hv. þm. Halldórs Blöndals, 7. landsk. þm., fyrir nokkrum vikum kom fram sú hugmynd að nefnd þm. úr öllum flokkum fengi tækifæri til þess að fylgjast með framkvæmd skattálagningar í sumar vegna þeirrar miklu óvissu sem uppi væri um það, hvernig skattalögin kæmu út í framkvæmd, og vegna þess að hætta væri á því, að þá kæmu í ljós ákveðnar misfellur í skattalögunum sem taka þyrfti afstöðu til og fjalla um. Ég vil taka það fram vegna þessarar hugmyndar sem hv. þm. Halldór Blöndal varpaði fram hér á dögunum, að ég tel hana mjög góðra gjalda verða og er sannarlega fús að standa að ákvörðun af þessu tagi, hvort sem það verður í því formi að fjmrh. skipi formlega nefnd í þessu skyni eða samkomulag verði milli stjórnmálaflokkanna um skipun nefndarinnar og tilnefningu í hana. Ég tel að skattalögin, eins og þau liggja fyrir, verði að teljast á ábyrgð allra stjórnmálaflokka. Það hafa fjórir fjmrh. úr fjórum stjórnmálaflokkum setið í embætti meðan þessi skattalög hafa verið í undirbúningi. Ég tel því mjög eðlilegt að allir stjórnmálaflokkar fái tækifæri til þess að fylgjast sem allra best með álagningu skatta í sumar og þeir fái þá eins góða aðstöðu og hægt er til að afla upplýsinga um eitt og annað við framkvæmd skattalaganna og þá jafnframt að gera till. um úrbætur, eftir því sem þeim þykir þurfa.

Herra forseti. Ég læt þessi orð nægja, en tek það fram, að ég tel eðlilegast að formenn þingflokkanna komi sér saman um það, með hvaða hætti þessari nefnd verði hleypt af stokkunum.

Ég vil svo að lokum leggja til að eftir þessar umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.