29.04.1980
Neðri deild: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2193 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Friðrik Sophusson [frh.]:

Herra forseti. Ég var búinn í fyrri hluta ræðu minnar að skýra frá lagatæknilegum atriðum varðandi tekjuskatta og hvernig þeir birtast í fjárlögum, en var þar kominn sem ég ætlaði að gera grein fyrir hugmyndum og till. sem komu fram í hv. Ed. og varða námsmenn og ég hafði, eins og ég sagði í fyrri hluta ræðu minnar, aðeins tæpt á við hæstv. ráðh. þannig að honum gæfist tækifæri til þess að svara þeim spurningum, sem mig langaði til að beina til hans og fá hjá honum sjónarmið hans varðandi þau mál.

Þegar eldri skattalög giltu voru í þeim ákvæði um námskostnað, sem ég vil leyfa mér að lesa ef hæstv. forseti gefur sitt leyfi, og hljóða þannig:

„Námskostnað, sem stofnað er til eftir 20 ára aldur, má, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð, draga frá tekjum næstu fimm ár eftir að námi er lokið, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir kostnaðinum.“

Reglugerðin, sem þarna er minnst á, er reglugerð nr. 245 frá 31. des. 1963 með síðari breytingum, og er þetta þó einkum b-liður 35. gr. þeirrar reglugerðar, sem ég ætla ekki að lesa. Það er óþarfi, en þar er því nánar lýst hvernig þetta skuli framkvæmt.

Þegar tekjuskattslögin voru til umr. fyrr á þessu þingi, nánar tiltekið 18. febr. s. l., flutti ég svo hljóðandi till. um þetta efni, með leyfi forseta:

„Námskostnað, sem stofnað er til eftir 20 ára aldur, má, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð, draga frá tekjum næstu fimm ár eftir að námi er lokið, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir kostnaðinum. Námskostnaður, sem viðurkenndur er til frádráttar samkv. ákvæði þessu, skal umreiknast samkv. ákvæðum 26. gr. laga þessara.“

Þessi brtt. var flutt á þskj. 173, en í umr. kom það fram, að hæstv. fjmrh. óskaði sérstaklega eftir því að þær brtt. við ýmis efnisatriði, sem ekki lá mjög á að fara með í gegnum þingið, yrðu látnar bíða, þannig að honum og hans mönnum í rn. gæfist kostur á því að kynna sér málið betur, og mundi þá, þegar málið kæmi aftur til Alþ., verða tekið tillit til þeirra viðhorfa sem kæmu fram í brtt., a. m. k. þeirra sem hæstv. ráðh. taldi ástæðu til að gera.

Nú leið tíminn og til Alþ. kom málið aftur, þá til hv. Ed. Og í ljós kom að ekkert hafði verið gert í þessum efnum, eða afar lítið a. m. k., enda þótt stúdentar hefðu þráfaldlega lýst yfir stuðningi við mál þetta.

Í hv. Ed. gerðist það, að 2. minni hl. fjh.- og viðskn. lagði fram brtt. á þskj. 349, sem ég þarf ekki að lesa og hefur verið dreift og reyndar er búið að fella í hv. Ed., þar sem fjallað er um námsfrádrátt og síðan að vaxtagjöld og verðbætur á námslánum geti einnig reiknast til frádráttar. Þetta eru hvort tveggja mál sem námsmenn hafa lagt mikla áherslu á, og ég get í því sambandi vísað til bréfs frá Stúdentaráði Háskóla Íslands, sem er dags. 29. jan. 1980. Enn fremur hefur Vaka nýlega sent frá sér bréf um þetta sama efni.

Ég tel að þessar till. hafi komið fram nokkuð seint í hv. Ed. og þess vegna hafi hv. fjh.- og viðskn. Ed ekki gefist nægur kostur á því að skoða þetta réttlætismál, sem ég vil kalla svo. Ég vil þess vegna beina þeim tilmælum mínum til hæstv. ráðh., ef hann er á þeirri skoðun að gera eigi þessa bragarbót á lögunum, að hann beiti sér fyrir því ásamt hv. formanni fjh.- og viðskn., að þetta mál verði skoðað af fyllstu sanngirni í hv. n. á milli umr.

Í þessu sambandi kemst ég ekki hjá að minnast á annað mál sem nú hefur verið á hreyfingu um nokkurt skeið, en það er mál sem varðar Lánasjóð ísl. námsmanna. Nýlega var sett á laggirnar nefnd sem hæstv. menntmrh. skipaði. Nefndin er skipuð átta mönnum og á að gera till. til breytinga á úthlutunarreglum og endurgreiðslureglum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég tel ástæðu til þess að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir því hér við 1. umr., hvernig á því stóð að ekki var tekið meira tillit til sjónarmiða námsmannanna og hvernig hann sem fyrrv. hæstv. menntmrh. og núv. hæstv. fjmrh. hefur þá hugsað sér að koma eigi til móts við sjónarmið námsmannanna. Það er ljóst, að það verður munur á núverandi lögum og fyrri lögum, ef þær lagabreytingar, sem stjórnin hefur flutt, verða að lögum án þess að brtt. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. verði samþykktar.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að þessar nýju till. ganga engan veginn eins langt og sú till. sem ég flutti fyrr á þessu þingi. Þar var gert ráð fyrir að tillit væri tekið til alls námskostnaðarins, en nú er aðeins um það að ræða að ónýttur námsfrádráttur komi til skila. Má í því sambandi orða þetta á þann veg, að þarna sé um að ræða fríðindi, sem námsmönnum eru ætluð, og þess vegna sé eðlilegt, þegar þeir verða að lifa á framfærslulánum, að þeir geti notið þessara fríðinda þegar fram í sækir og þeir verða með vinnu sinni bæði að sjá sjálfum sér og fjölskyldu sinni farborða og standa í skilum við Lánasjóð ísl. námsmanna. Frá mínum bæjardyrum séð er augljóst að ekki er hægt að tala um Lánasjóð ísl. námsmanna sem lánasjóð nema endurgreiðslureglur sjóðsins séu þannig úr garði gerðar að gert sé ráð fyrir að mikill hluti skili sér aftur til sjóðsins og hann geti þannig lifað á eigin fjármagni. Hitt er svo annað mál, að það er jafnsjálfsagt að sá hópur, sem flýtir sér í námi og verður þess vegna að taka lán meðan á námi stendur, fái notið fríðinda, bæði námsfrádráttarins, sem hann á þegar hann er í skóla, og eins þess að fá að draga frá vexti af þessum lánum þegar skóla lýkur og til endurgreiðslu kemur. Þetta er stórfellt réttlætismál sem ég veit að hæstv. ráðh. hefur skoðun á, og ég vil beina til hans að hann geri hv. d. grein fyrir hér á eftir.

Í því hléi, sem varð á ræðu minni vegna fjarveru hæstv. ráðh., voru fluttar nokkrar ágætar ræður. Ég vil sérstaklega minnast á ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., Boga Sigurbjörnssonar, og taka undir þau sjónarmið mörg hver sem komu fram hjá honum, sérstaklega þau, hve fáránlegur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði er og eins nýbyggingagjaldið. Þar talaði maður sem við þessi störf vinnur á hverjum degi og veit þess vegna gerst um afleiðingar þessarar skattheimtu. Ég vil aðeins leyfa mér að láta þá von í ljós, að flokksmenn hans taki mark á reynslu þess manns sem hefur fengist við þessi störf um mörg undanfarin ár. Það er ljóst, að þessir skattar voru settir á sínum tíma einfaldlega vegna þess að með þeim átti að ná til svokallaðs verðbólgugróða. Hugmyndin var að reyna að koma í veg fyrir fjárfestingu vegna þess að ýmsir aðilar hefðu þá aðgang að ódýru fjármagni og gætu þannig skapað sér gróða með því að byggja húsnæði langt umfram brýna nauðsyn. Nú hefur skattalögum verið breytt í þá veru, að ekki er hægt með sama hætti og áður að njóta slíkra fríðinda fyrir fyrirtæki. Samt sem áður er ætlunin að viðhalda áðurgreindum sköttum, þótt þeir hafi reyndar aðeins verið settir á til bráðabirgða.

Að lokum vil ég fjalla hér um annan þátt úr ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., þar sem hann tók undir sjónarmið flokksbróður síns, hæstv. ráðh. Tómasar Árnasonar, og reyndar margra annarra úr stjórnarliðinu, liði þeirrar hæstv. ríkisstj. sem fer nú fram með einhverja mestu skattpíningarstefnu sem um hefur frést í Íslandssögunni. Hann sagði, eins og þeir hafa margoft verið að reyna að telja okkur trú um, að skattar hér á landi væru tiltölulega litlir miðað við skatta annars staðar á Norðurlöndum. Menn verða að átta sig á því, þegar svona er sagt, að laun hér á landi eru líka allt önnur en laun annars staðar á Norðurlöndum. Það, sem skiptir máli, er því hvað eftir er í vasa skattgreiðendanna þegar búið er að taka af þeim skattana.

Í þessu sambandi langar mig til þess að fletta upp í ágætu riti sem allir þm. fá og heitir Nordisk kontakt. Í hefti nr. 4 frá 1980, á bls. 253, er listi frá Danmörku yfir brúttótekjur hinna mismunandi starfshópa í Danmörku. Þar eru efst taldir sjálfstæðir lögfræðingar og síðan er haldið niður eftir þessum lista. Mér datt í hug að bera launin á þessum lista saman við laun t. d. alþm. hér á landi, sem er stétt manna sem talin er vera vel launuð. Og ég fann aðila í Danmörku sem hafa svipuð laun og íslenskir alþm. og ég skal reyna að stauta mig fram úr því á minni prentsmiðjudönsku hvað þessar stéttir heita. Þær heita rengöringsassistent, smørrebrødsjomfru, kantinemedhjælper o. s. frv. (Gripið fram í. ) Ég læt fyrrv. hæstv. menntmrh. um að þýða þetta, en ég heyri að honum dettur greinilega allt annað í hug en öllum öðrum í þingsalnum. Það, sem ég vildi benda á með þessum samanburði, er einfaldlega það, að hér á landi eru laun miklu lægri en í nágrannalöndunum. Og þess vegna segir það náttúrlega ekkert þegar verið er að bera saman skattahlutföll af þessum launum.