30.04.1980
Efri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Mér er ánægja að því að svara fsp. hv. þm. Í bréfi sem Þjóðhagsstofnun ritaði fjvn. eftir beiðni hennar fyrir nokkru var gerð grein fyrir því, hvernig verðlagsþróunin gæti orðið á þessu ári. Eins og tekið er fram í bréfi Þjóðhagsstofnunar er þessi áætlun gerð á þeirri forsendu að aðrar kostnaðarbreytingar hafi áhrif á verðlag á líkan hátt og verið hefur og þá gæti vísitala framfærslukostnaðar hækkað sem þar greinir. Þessar hækkanir, sem hér er um að ræða, eru í fyrsta lagi, sem staðreynd er, frá febrúar 9.1%, í maímánuði um 13%, en í ágústmánuði 9%, og nóvember 10%.

Þegar þessar fjórar tölur eru reiknaðar saman til að sjá hver hækkunin yrði á því tólf mánaða skeiði sem hér er um að ræða, þ. e. frá nóv. 1979 til nóv. 1980, en þessar tölur eru miðaðar við það tímabil, og þegar þessar fjórar tölur eru lagðar saman og þær síðari reiknaðar ofan á þær fyrri, eins og vera ber, kemur út talan 47.8%. Mundi vísitalan þá hækka sem því nemur á þessum tólf mánuðum, miðað við þær forsendur sem hér voru greindar.

Þessi tala, 47.8%, er ekki aðeins útreiknuð og staðfest af Þjóðhagsstofnun, heldur liggur það í augum uppi og auðvelt fyrir hvern mann að reikna það út. Ef hins vegar á að miða við hækkun frá byrjun árs til ársloka 1980 yrði hækkun vísitölunnar samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar í dag 45% frá 1. jan. til 31. des. þessa árs, byggt á sömu forsendum.

Þegar ég var spurður í sjónvarpi í gærkvöld um þá fregn sem birtist í blaði í gær gaf ég auðvitað svör í samræmi við þá útreikninga sem ég hef og eru óyggjandi. Þessi fregn í blaðinu Vísi í gær, sem mun byggð á upplýsingum frá hv. fyrirspyrjanda eða tekin upp úr ræðu hans í fyrradag, er á þessa leið yfir þvera forsíðu: „Spá Þjóðhagsstofnunar um hækkun vísitölu á árinu: Um 55% óðaverðbólga verður á þessu ári.“ Út af þessu viðhafði ég þau orð, að þetta væru ekki réttir útreikningar. Ætla ég að ekki sé hægt að hafa vægari orð um málflutning og fréttaflutning eins og hér erum að ræða. Ekki er aðeins að birt sé röng spá, heldur Þjóðhagsstofnun borin fyrir þessum ranga útreikningi.

Auðvitað ber blaðið ábyrgð á þessu, en að því er mér er tjáð er fréttin byggð á upplýsingum frá hv. fyrirspyrjanda. Það liggur alveg ljóst fyrir, að þær tölur, sem ég gat um, eru réttar miðað við þessar áætlanir Þjóðhagsstofnunar, sem sagt tölurnar 9.1, 13, 9 og 10. Þá er samtalan þessi þetta tólf mánaða tímabil: 47.8% frá nóv. til nóv. En ef miðað er við árið í ár frá byrjun til enda er samtalan 45%, þ. e. hækkun verðbólgunnar á þessu tímabili. Þær tölur, sem hv. þm. og blaðið eru með, eru því rangar.

Hins vegar finnst mér rétt að leggja áherslu á að hér sem oftar eru umbeðnar skýrslur og áætlanir frá opinberum stofnunum rangtúlkaðar. Hér eru teknar til forsendur í áætlun Þjóðhagsstofnunar, þær forsendur að kostnaðarbreytingar hafi áhrif á verðlag á líkan hátt og verið hefur. Nú er hins vegar augljóst að það er ætlun ríkisstj. og stefna að breyta til og er sú starfsemi þegar hafin. Hún kemur m. a. fram í því, að 1. maí verða ekki leyfðar hjá opinberum stofnunum jafnmiklar hækkanir og þær hafa farið fram á og venja hefur verið að leyfa.

Sá málflutningur er hafður, að þar sem framfærsluvísitalan muni hækka um ca. 13% nú og ríkisstj. hafi í stjórnarsáttmála sinum miðað við 8% sé þar með stefna ríkisstj. hrunin í þessum efnum. Hv. fyrirspyrjandi hefði átt að geta þess í fsp. sinni, að í stjórnarsáttmálanum er alveg sérstakt ákvæði um að sérstaklega skuli afgreiddar hækkunarbeiðnir fyrirtækja og stofnana sem nauðsynlegar kunna að teljast til þess að verðbreytingar slíkra aðila geti síðan fallið innan þess ramma sem framangreind mörk setja. Hér er sem sagt, um leið og sú stefna var mörkuð að almennt yrðu ekki leyfðar á tímabilinu febr., mars, apríl meiri verðhækkanir en 8%, gerð undanþága út af hinum geymda eða samansafnaða vanda sem fyrrv. ríkisstj. hafði í mörgum greinum ýtt á undan sér. Þetta var öllum ljóst, og þess vegna átti það einnig að vera öllum ljóst að framfærsluvísitalan mundi verða hærri 1. maí en 8% þegar þessi geymdi vandi kæmi þar inn í. Þó að sá geymdi vandi hafi orðið og reynst nokkru meiri en menn hefðu óskað er fjarri öllu lagi að tala um að fyrirætlanir ríkisstj. og yfirlýst stefna hennar í stjórnarsáttmálanum sé hrunin af þeim ástæðum. Þetta ætti hverjum manni að vera ljóst. Það hefði verið réttari málflutningur hjá hv. fyrirspyrjanda að sleppa ekki þessu skýra ákvæði í stjórnarsáttmálanum.

Það er ætlun ríkisstj. að halda áfram þeirri stefnu sem mörkuð er í stjórnarsáttmálanum, þannig að á næsta þriggja mánaða tímabili verði viðmiðunin 7% og þar næsta tímabili 5%. Miðað við að takist að framfylgja þessu stefnumarki gerir Þjóðhagsstofnun ráð fyrir að verðbólgan frá byrjun til loka þessa árs yrði um 40%. Á þessum áætlunum og útreikningum eru byggðar þær tölur sem ég notaði í gær í viðtali mínu við sjónvarpið, m. ö. o. miðað við að tækist að framkvæma þessa stefnu, sem ég vænti fastlega að takist, mundi verðbólgan verða um 40%, en yfir 45% ætti hún tæpast að fara. Sú tala er í samræmi við þær tölur, sem Þjóðhagsstofnun hefur gefið fjvn. og hv. fyrirspyrjandi byggir á, þó að hann hafi reiknað skakkt niðurstöðuna þegar hann leggur saman. — Ef verðbólgan í ár yrði þannig 40–45% , þó maður taki hærra markið, er auðvitað ljóst að hér er um verulega breytingu að ræða frá síðasta ári, þar sem verðbólgan frá upphafi til loka árs varð 61% .

Þá vék hv. fyrirspyrjandi að erlendum lántökum og greiðslubyrði. Það fer eins og í fyrri fsp. hv, þm., að hann býr sér til tölu sem hann svo byggir á. Hann gengur út frá því að erlendar lántökur verði 90 milljarðar á þessu ári. Sú tala er ekki rétt.

Varðandi hins vegar greiðslubyrðina er óhjákvæmilegt að skýra það mál nokkru nánar. Í fyrsta lagi: Í stjórnarsáttmálanum er rætt um erlendar lántökur og að stefnt sé að því að takmarka þær eins og kostur er og að því stefnt að greiðslubyrði af erlendum lánum fari ekki fram úr u, þ. b. 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum. Síðan segir, og það er eins og fyrri daginn að hv. fyrirspyrjandi sleppir því af ásettu ráði sem skiptir hér e. t. v. meginmáli: „Efri mörk erlendrar lántöku verði þó ákveðin nánar með hliðsjón af eðli framkvæmda með tilliti til gjaldeyrissparnaðar og gjaldeyrisöflunar.“ — Það, sem hér er haft í huga, er auðvitað að eins og nú standa sakir þurfa Íslendingar að leggja alveg sérstaka áherslu á orkuframkvæmdir, bæði til raforkuframleiðslu og ekki síst til hitaveitna. Því er beinlínis gert ráð fyrir að þessi hlutfallstala gæti orðið hærri af þeim ástæðum. Þar stöndum við frammi fyrir margvíslegum vanda. Meginhlutinn af þeim erlendu lántökum, sem verða á þessu ári, eru til orkuframkvæmda. Þegar við sjáum nú að hitaveituframkvæmdir, sem ýmist eru í miðjum klíðum eða fyrirhugaðar, spara margar hverjar beinlínis í gjaldeyri á fyrsta eða öðru ári jafnmikið eða meira en nemur vöxtum og afborgunum af erlendum lánum til þeirra, þá hlýtur heilbrigð skynsemi hvers manns að mæla með því að ekki sé frestað slíkum gjaldeyrissparandi framkvæmdum vegna þess að ekki megi fara yfir þetta tiltekna mark, 15% af útflutningstekjum. Þess vegna er það ekki sæmilegur málflutningur að nefna hér aðeins 15%, en sleppa þessu meginatriði, sem í stjórnarsáttmálanum er nefnt, að hin efri mörk skuli miðast við að e. t. v. þurfi að taka erlend lán vegna gjaldeyrissparandi eða gjaldeyrisaflandi framkvæmda.

Hins vegar er rétt að gera þingheimi grein fyrir því, að þessi viðmiðun erlendra skulda og greiðslubyrði við útflutningstekjur eða hlutfall af útflutningstekjum er að dómi sérfræðinga hæpin og hæpnari nú en nokkru sinni áður. Þetta hefur komið fram í grg. bæði frá Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun nú í seinni tíð. Ástæðurnar eru margvíslegar. Ein ástæðan er sú, að vextir erlendis hafa farið hækkandi og þar með hækkar greiðslubyrðin og þessi prósenta fer upp fyrir 15% af útflutningstekjum þó að engin ný erlend lán verði tekin. Í annan stað tekur þessi viðmiðun við útflutningstekjur ekki mið af hinum mjög svo gjaldeyrissparandi orkuframkvæmdum. Þess vegna má segja að áður fyrr hafi þótt eðlilegt og stundum kannske rökrétt miðað við jafnvægi í efnahagsmálum og stöðuga vexti erlendis að hafa slíka viðmiðun og hún átt við rök að styðjast. Þetta hefur verið ríkjandi kenning hagfræðinga og hagstofnana og m. a. þess vegna nefnd sú tala í stjórnarsáttmálanum. En þó er ljóst að menn voru nokkuð farnir að efast um að þetta ætti að vera algild regla, eins og fram kemur í þessum fyrirvara í stjórnarsáttmálanum. Ég held að það sé e. t. v. ekki orðin ríkjandi skoðun, en hefur mjög rutt sér til rúms, að skynsamlegra sé að miða erlendar skuldir við þjóðarframleiðsluna, þannig að þegar menn meta, hversu miklar erlendar skuldir ríkið þoli eða geti staðið undir, sé öllu eðlilegri viðmiðun að taka hlutfall erlendra skulda í heild af þjóðarframleiðslu. Áður fyrr stóð það yfirleitt nokkuð jafnt að mati hagfræðinga að 15% af útflutningstekjum sem greiðslubyrði og svo erlendar skuldir u. þ. b. 35% af þjóðarframleiðslu væru nokkuð hliðstæðar tölur. Nú hefur fyrri viðmiðunin vegna margvíslegra breytinga og sérstaklega mikilla vaxtabreytinga á erlendum markaði orðið að mörgu leyti óheppileg viðmiðun. Hins vegar er talið að hin síðari viðmiðun sé nú eðlilegri. Sé hún viðhöfð mun niðurstaðan vera sú, að á síðasta ári hafi heildarskuld ríkisins verið um 35% af þjóðarframleiðslu og verði nú í ár, miðað við fyrirætlanir ríkisstj. um erlendar lántökur, um eða heldur lægri en 35% . Þetta er rétt að komi fram í þessu sambandi, en verður skýrt nánar síðar.

Ég hef svarað tveim meginfyrirspurnum hv. þm. og gert þeim skil. Ég vil aðeins draga það saman á þá lund, að miðað við áætlun Þjóðhagsstofnunar, byggða á því að haldið verði áfram verðhækkunum svipað og verið hefði, gæti verðbólgan orðið 45% frá byrjun til loka þessa árs, en ekki 55, eins og hv. þm. hefur talað um og Vísir gefið í skyn í gær með stórfyrirsögn. Ef hins vegar tekst í meginatriðum að fylgja stefnu ríkisstj., sem hún er staðráðin í að gera, eru líkur til að verðbólgan á þessu ári verði um 40% í stað 61% í fyrra. Og hinar erlendu lántökur verða ekki 90 milljarðar, eins og hv. þm. býr sér til í forsendum sínum. Í ádeilu sinni á stjórnvöld fyrir að nú fari greiðslubyrðin upp yfir 15%, eins og hafi verið í stefnuskrá ríkisstj., sleppir hann gersamlega þeim viðauka sem ég las um hinar gjaldeyrissparandi framkvæmdir. Auk þess er sú viðmiðun að því leyti óheppilegri nú, að vegna hækkunar á erlendum vöxtum gæti hún leitt til þess að greiðslubyrðin færi hlutfallslega hækkandi þó að íslenska ríkið tæki ekki á þessu ári einn einasta eyri til viðbótar í erlendum lánum.