30.04.1980
Neðri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2218 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

61. mál, umferðarlög

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Á þskj. 345 segir að allshn. hafi kannað þetta mál, leitað umsagnar og orðið sammála um að leggja til við hv. d. að fyrirliggjandi frv. verði samþ. með brtt. sem kemur fram á þskj. 346 og er við 3. gr., sem er gildistökugreinin.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt af hæstv. ríkisstj. og var lagt fram snemma á þessu þingi og fjallar um breytingu á vátryggingarupphæð. Þar er lagt til að hún breytist úr 12 millj. í 180 millj. annars vegar og hins vegar úr 24 millj. í 360 millj. kr. Hér er um að ræða stórkostlega breytingu á fjárhæðum. Það er rétt að gera deildinni örlitla grein fyrir þessu máli frekar.

Það er ljóst, að tilgangur löggjafans með skyldutryggingu bifreiða er tvíþættur: annars vegar sá, að þeir, sem verða fyrir tjóni af völdum ökutækis, fái tjón sitt bætt án tillits til efnahags tjónvalds, og hins vegar sá, að þeir, sem tjóni valda, verði ekki fyrir stórfelldum fjárútlátum og standi jafnvel eftir slyppir og snauðir. Miðað við þennan tilgang virðast ekki rök til annars en hin lögboðna vátryggingarfjárhæð sé það há að hverfandi líkur, jafnvel engar líkur séu til þess að bætur vegna einstakra slysa verði hærri en hún.

Tryggingaeftirlitinu var sent þetta mál til umsagnar og í umsögn Tryggingaeftirlitsins segir m. a., með leyfi forseta:

„Tryggingaeftirlitið hefur á undanförnum árum margsinnis bent á nauðsyn þess að stórauka þyrfti vátryggingarverndina í þessari lögboðnu vátryggingargrein, er snertir því nær alla landsmenn sem eigendur ökutækja, farþega og vegfarendur. Markmið umferðarlaganna er að sjálfsögðu að vernda bæði þá, sem ábyrgð bera á tjóni af völdum ökutækja, og tjónþola, þannig að sú hætta sé ekki fyrir hendi að ganga þurfi að eignum manna til að bæta tjón vegna umferðarslysa eða, ef slíkar eignir eru ekki fyrir hendi, að tjónþolar fái ekki tjón sitt bætt nema að hluta. Telja verður ljóst að almenningur ætlast til að sú vátryggingarvernd, sem lögboðin er og ákveðin af Alþ., sé fullnægjandi á hverjum tíma og að menn beri ekki persónulega stórkostlega áhættu í umferðinni sem tjónvaldar eða tjónþolar. Eins og nú er háttað fara bótafjárhæðir í mörgum tilvikum langt fram úr gildandi vátryggingarfjárhæðum þegar til uppgjörs meiri háttar tjóna kemur, eins og bent er á í aths. við frv. Verðmæti tjóna á núgildandi verðlagi geta numið tugum og jafnvel hundruðum millj. ef margir slasast í sama umferðarslysi. Slík tjón eru fátíð og hefur því kostnaður við verulega hækkun vátryggingarfjárhæða tiltölulega lítil áhrif á iðgjöld til hækkunar. Má reikna með að sú hækkun, sem lögð er til í frv., mundi hækka iðgjöld um aðeins 3–4% . Verður að telja þann kostnað sáralítinn miðað við það öryggi sem hin aukna vernd veitir hverjum og einum.

Tryggingaeftirlitið lagði til á s. l. ári að vátryggingarfjárhæðir yrðu almennt hækkaðar í 240 millj. kr., sem samsvara um 360 millj. kr. á núgildandi verðlagi. Bent er á að ef sú tillaga yrði samþ. væru vátryggingarfjárhæðir samt sem áður lægri en gengur og gerist í nágrannalöndum. Í Danmörku, þar sem fjárhæðirnar eru einna lægstar, miðast verndin við 10 millj. danskra kr., í Svíþjóð er fjárhæðin 50 millj. sænskra kr., í Noregi og Finnlandi og í mörgum öðrum löndum eru þær ótakmarkaðar. Telja verður að aðstæður hér á landi séu á ýmsan hátt frábrugðnar því, sem er í öðrum löndum á þessu sviði, og að fjárhæðir megi vera eitthvað lægri en þar gerist. Tillaga eftirlitsins er því sú, að vátryggingarfjárhæðir frv. verði tvöfaldaðar, þ. e. nemi 360 millj. kr. fyrir almenn vélknúin ökutæki, en 720 millj. kr. fyrir þau sem flytja mega fleiri en 10 farþega. Iðgjöld mundu af þeim sökum hækka á að giska um 5%. Ef fyrirliggjandi frv. yrði að lögum mundi það vera stórt skref í þá átt að koma þessum málum í viðunandi horf, en hvergi nærri fullnægjandi að mati eftirlitsins.

Eftirlitið telur eðlilegt að hækka gildandi fjárhæð sjálfsábyrgðar úr 24 þús. í 36 þús. kr., eins og lagt er til í 2. gr. frv.“

Hér lýkur lestrinum úr áliti Tryggingaeftirlitsins. Þar kemur fram, eins og heyra mátti, að þeir leggja til að vátryggingarupphæðin verði helmingi hærri en allshn. leggur til og er í frv. Að mínu áliti er full ástæða til þess að þetta mál verði tekið aftur upp innan fárra ára, þegar reynsla hefur fengist af þeim breytingum sem nú verða gerðar á umferðarlögunum.

Það eru til litlar upplýsingar um tíðni þar sem tjón fara fram úr vátryggingarfjárhæðinni. Slíkar upplýsingar þurfa að liggja fyrir þegar málið verður tekið upp aftur. Þá ber að geta þess, að hækkun á vátryggingarfjárhæðinni getur í sjálfu sér leitt til gerbreytts dómapraxís og stórhækkað tjónakröfur og hækkað dæmdar tjónabætur, sem hafa verið í algeru lágmarki hér á landi.

Þess ber að geta, að árið 1978 voru gerðar breytingar á umferðarlögunum, þar sem 3. gr. 70. gr. umferðarlaganna var breytt og orðast nú svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er dómsmrh. að fengnum tillögum tryggingaeftirlitsins að hækka vátryggingarfjárhæðir samkv. 1. og 2. mgr. í samræmi við verðlagsbreytingar.“

Hér er um að ræða að ráðh. getur, ef honum sýnist svo, innan eðlilegra marka hækkað vátryggingarfjárhæðir ef þær eru innan þess verðlagsgrundvallar sem settur er með þeim breytingum sem hér er verið að leggja til að gerðar verði. Persónulega finnst mér satt að segja vera hálfskrýtin lagagerð að hafa heimild eins og þessa í lögum. Það er full ástæða til þess að sjálfar vátryggingarfjárhæðirnar séu ákveðnar í lögum, en ekki af ráðh., þar sem annað getur leitt til öryggisleysis í sambandi við réttarfar í landinu.

Ég bað Bjarna Þórðarson tryggingafræðing hjá Íslenskri endurtryggingu að gefa dæmi um hvernig 100% örorka yrði metin í dag hjá 30 ára manni. Hann hefur tjáð mér að ef áætlaðar vinnutekjur séu 600 þús. á mánuði og sé miðað við 13% vexti á ári, eins og gert er þegar kröfur eru settar fram, megi búast við að krafan og tjónið yrði metið á 45–50 millj. Sé það greitt eftir þrjú ár er upphæðin komin upp í 100–110 millj. ef reiknað er með 30% kauplagshækkunum, sem er alveg í lágmarki, og eftir fjögur ár yrði upphæðin 130–140 millj. Þá sjá menn hvílíkur gífurlegur munur verður á upphæðinni, sem nú er í lögum og er 12 eða 24 millj., þegar á að brúa kostnað sem verður að upphæð 130–140 millj.

Að undanförnu hafa komið fram kröfur allt að upphæð 120 millj. kr., og þá er gert ráð fyrir að Tryggingastofnunin greiði 20 millj. Af þessu sést að vátryggingarupphæð í núgildandi lögum er aldeilis ófullnægjandi og getur gert það að verkum að tjónvaldur verði algerlega eignalaus og ef eignir hans hrökkva ekki fyrir tjóni bitni það enn harðar á tjónþola.

Í 2. gr. er lagt til að hækkun á sjálfsábyrgð fari úr 24 þús. í 36 þús.

Í 3. gr., eins og kemur fram á sérstöku þskj., leggur n. til að gildistaka verði 12. maí. Sú dagsetning er valin einfaldlega með tilliti til þess að þá er fimmtungur af gjaldárinu liðinn, en það hefst 30. mars ár hvert, en eins og menn, sem eru góðir í reikningi, sjá munu vera 72 dagar frá 1. mars til 12. maí.