30.04.1980
Neðri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2225 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

168. mál, listskreytingar opinberra bygginga

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir, sem þetta mál hefur fengið hjá hæstv. menntmrh. og 1. þm. Vesturl., sem var að ljúka máli sínu. Ég vil hins vegar ekki að þessari umr. ljúki án þess að ég gefi eina skýringu að gefnu tilefni frá hæstv. menntmrh.

Það var í sambandi við þá aths. hans, að það væri ekki nægilega vel skilgreint í frv., hvaða mannvirki væri átt við, og tók dæmi af Borgarfjarðarbrú, sem er ærið dýrt mannvirki. Til þess að alveg sé ljóst hver skilningur okkar flm. er, þá er af ásettu ráði notað orðið bygging í frv. Það er einmitt til að forðast að menn líti á það sem skyldu að listskreyta önnur mannvirki en byggingar. Þá eru brýr ekki innifaldar í því sem frv. á við. Þetta vildi ég að kæmi alveg ljóst fram og yrði fest á segulband fyrir þá sem kynna sér þetta mál betur að lokinni þessari umr.