30.04.1980
Neðri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

131. mál, flugvallagjald

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég held að við, sem stöndum að þessu máli, verðum að standa við okkar hlut, loforð okkar og annað. Ég held að við þurfum út af fyrir sig enga hjálp frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni við það. Það verður hver að standa fyrir sínu máli gagnvart slíku.

En ég vil upplýsa það vegna orða hv. þm. Sverris Hermannssonar, að 13.5% af því gjaldi, sem hér um ræðir, voru á s. l. ári af innanlandsfluginu, og það má áætla að hlutfallið verði svipað í ár eða um 130–140 millj. Þess vegna hlýt ég að endurtaka að það er rangt að mestur hluti þessa fjármagns komi af innanlandsfluginu. Það má áætla að um 900 millj. af því komi af millilandafluginu.

Hann sagði einnig að það hefði verið slys að leggja þetta gjald á á sínum tíma. En var það þá jafnframt slys að fella niður söluskattinn? Á sínum tíma, um áramótin 1975–1976, eftir að hafa verið flutt frv. í Ed. um að söluskattur af flugfargjöldum í innanlandsflugi yrði felldur niður, varð að samkomulagi milli Sjálfstfl. og Framsfl. að flugvallagjald yrði lagt á í staðinn, sem var mun minna en söluskatturinn var þá. Það er út af fyrir sig hægt að upplýsa hvað þetta þýðir. T. d. kostur að fljúga milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði, sem er ekki sú leið sem dýrust er þegar ferðast er á milli, það er dýrara t. d. til Egilsstaða, — það kostar 45 500 kr. fram og til baka. 23.5% söluskattur er 10 700 kr. Auðvitað sjá allir að það munar mjög miklu að borga 1300 kr. eða 10 700 kr. Ég vil því leyfa mér að mótmæla því að það hafi verið slys á sínum tíma að gera þetta.

Það er út af fyrir sig alveg rétt, að það hefði verið betra að fella þetta algerlega niður þá. En við getum ekki hrósað okkur mjög af því, sem stóðum að ríkisstj. á þeim tíma, að ríkissjóður hafi verið rekinn með miklum greiðsluafgangi. Hann var rekinn með gífurlegum greiðsluhalla, sem er e. t. v. það sem hefur orðið þess valdandi að verðbólgan var mjög mikil á þeim tíma. Við höfum því miður ekki af miklu að státa í þeim efnum.

Með lögum, sem voru samþ. á Alþ. 21. des. 1978, var svo ákveðið frá og með 1. jan. 1980, það stendur í 1. gr., að tekjum afgjaldi þessu skyldi varið til eflingarflugmála.