30.04.1980
Neðri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2234 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

131. mál, flugvallagjald

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þær upplýsingar, sem komu fram hjá hv. 4. þm. Austurl., um lækkað framlag til flugmála hlutfallslega miðað við niðurstöðutölur fjárlaga. Þessar upplýsingar eru nýjar. Þær komu fram í útreiknaðri töflu á flugráðsfundi í morgun. Þrátt fyrir hækkun flugvallagjalds lækkar framlag skv. fjárlögum til framkvæmda við flugvallagerðina eða á sviði öryggismála, ef menn vilja heldur tala um þau.

Ég hefði sem flugráðsmaður átt afskaplega erfitt með að vera á móti þessu flugvallagjaldi ef sú skoðun mín hefði verið rétt, sú skoðun sem ég hafði áður en ég kom á flugráðsfundinn í morgun, að með hækkun flugvallagjalds hækkaði framlagið til framkvæmda á vegum flugráðs um land allt. En svo er ekki. Ég undirstrika það sem ég gat um áðan og vitnaði í ræðu hv. 4. þm. Austurl. Þess vegna er ég á móti þessum skatti.

Ég vil líka benda á það, sem að mínu viti er ógnvekjandi, að sú ákvörðun felst í þessu frv. að láta flugvallagjaldið fylgja verðlagsbreytingum og binda það við byggingarvísitölu. Ég óttast að þetta flugvallagjald verði innan tíðar of stórt hlutfall af heildarferðakostnaði ferðamannsins. Ég get fullvissað ykkur um þetta. Þegar útlendingar taka ákvörðun um hvar þeir eyði sumarleyfi sínu eða hvíldarleyfum munar um minna en þá upphæð sem hér um ræðir í flugvallagjaldi. Það getur í mörgum tilfellum haft neikvæð áhrif á ákvörðun ferðamannsins og þá er það farið að hafa keðjuverkandi áhrif á margt annað í þjóðskipulagi okkar, því að ýmislegt byggist á tekjum af ferðamönnum, ekki bara verslunin, — það er enn þá kannske mest hér í Reykjavík, en líka úti á landsbyggðinni, — heldur líka framlag til ferðamála. Það verður þá minna til skiptanna og minna til rekstrar Ferðamálaráðs o. s. frv. Gjaldeyristekjurnar af ferðamönnum, sem eru verulegur hluti af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar, minnka líka. Ég varð því fyrir nokkrum vonbrigðum þegar ég sá þessar niðurstöður á flugráðsfundi í morgun.

Ég held að enginn mótmæli því, að ríkið þarf að taka skatta til ríkisrekstrarins. Það verður ekki rekið með öðrum hætti. En hitt er annað mál og við erum allir sammála um það, að það þarf að takmarka skatta eins mikið og mögulegt er. Það er líka ljóst, að eins og á stendur er engin hemill á skattheimtunni og ríkissjóður virðist vera óseðjandi.

Ég vil líka benda á það, þó að ég hafi ekki verið talinn sérstakur talsmaður landsbyggðarinnar hingað til, að flugvallagjald, sem á að verða 8800 kr. til útlanda, verður 10 100 kr. fyrir fólk sem býr úti á landi, en ætlar að ferðast til útlanda. Ef bætt er við 650 kr. við þessar 8800 kr. fyrir ferðamann utan af landi, sem ætlar til útlanda, verða það 9450 kr. Síðan kemur hann heim og verður að taka flugvél til baka heim til sín og þá bætast aftur 650 kr. við. Þá er gjaldið orðið 10 100 kr. Og þá er flugvallagjaldið af þeim sem fljúga frá Hornafirði, af því að talað var um það áðan að það væri rúmar 40 þús. kr. fram og til baka, — þá er það ekki undir 25% af innanlandsflugferðinni. Flugvallagjald, þ. e. flugvallagjald bæði innanlands og til útlanda, er þá komið í 10 100 kr. Þetta er orðin nokkuð stór upphæð. Maður, sem kemur utan af landi, er þá farinn að borga 1300 kr. meira fyrir að fara til útlanda en sá sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Ef mér verður mótmælt af landsbyggðarmönnum held ég að dæmið sé farið að snúast við.

Því er það, að við flm. þeirrar till., sem liggur fyrir á þskj. 382, leggjum til að flugvallargjaldið af flugferðum innanlands verði lagt niður. Ég held að það geti ekki talist sjálfsagt af þeim, sem fylgja flugvallaskattinum, og verði ekki talin nein sérstök hollusta við ríkisstj. að samþykkja þann skatt. Ég legg til að þeir hugsi mál sitt betur og hjálpi okkur til að losa þjóðina við þennan skatt.

Það var annað sem vakti athygli mína í 2. gr., en þar stendur, með leyfi forseta:

„Einungis skal greitt eitt gjald þó millilent sé milli brottfararstaðar og ákvörðunarstaðar vegna flugáætlunar, enda vari viðdvöl ekki lengur en sex klukkustundir.“

Ég held að þessi setning geri svokölluð „stopover“ hjá flugfélögunum, sem áður voru hjá Loftleiðum og reyndust mjög vel, ókleif án þess að viðkomandi flugfarþegar borgi til viðbótar 8800 kr. til þess að komast frá landinu aftur.