30.04.1980
Neðri deild: 67. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2237 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Austurl., formaður fjh.- og viðskn., hefur nú lokið máli sínu og hann vék að því, að hann vildi ekki lengja umr. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt til þess að það næði fram að ganga nú helst fyrir kvöldmat. Hann vék enn fremur að því, að allir stjórnmálaflokkar hefðu nú látið til sín heyra og það væri þess vegna ekki ástæða til þess að fjölyrða um málið svo mjög. Þegar hann hafði sagt þetta var ræðu hans lokið fyrir kvöldmat, sagði hann, og hann áskildi sér rétt eða orðaði það svo, að hann gæti þá komið með viðbótarræðu síðar í kvöld. Það stangaðist aðeins á við það sem hann hafði sagt áður, ef þetta mál hefði fengið afgreiðslu fyrir kvöldmat. (HÁ: Ef ekki.) Hann bætir nú við: ef ekki, þá gæti hann komið að aths. fyrir hönd síns flokks, sem er eðlilegt því að eins og nál. frá hv. fjh.- og viðskn. þessarar d. bera með sér hefur n. klofnað. Það eru þrír minni hlutar. Sjálfstæðismenn mynda 2. minni hl. n. og eru þar fjölmennastir, þrír að tölu, framsóknarmenn mynda 1. minni hl. og eru þar tveir og 3. minni hl. myndar fulltrúi Alþfl. í hv. n. Þá hef ég talið upp sex, en sjöundi nm. var ekki viðstaddur afgreiðstu þessa máls. Og það sem meira er, flokksbróðir hæstv. fjmrh., fulltrúi Alþb. í hv. fjh.- og viðskn., hefur ekki enn skilað nál., en vissulega kemur það stundum fyrir að þm. hafa ekki haft aðstöðu til þess að mæta á fundum og láta þar í ljós skoðanir sínar á málum og hafa gefið út nál. engu að síður til þess að fram komi hver sé skoðun þeirra og vilji í málinu.

Ég veit ekki hvort von er á nál. frá þessum hv. þm. sem á sæti í fjh.- og viðskn. af hálfu Alþb., flokks hæstv. fjmrh. Ef það er á leiðinni, þá verður því sjálfsagt dreift hér meðan á umr. stendur, þannig að áður en henni lýkur fái þm. tækifæri til þess að sjá afstöðu þessa þm. og þess flokks sem hann er fulltrúi fyrir.

Mér fannst rétt að gera þessa aths. og vekja athygli á þessu hér í upphafi, því að það hefur ekkert farið á milli mála að töluverður ágreiningur er um þetta frv., þ. e. breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, og hafa komið fram margs konar upplýsingar, sem eðlilegt er, betri og fyllri upplýsingar eftir því sem fleiri dagar hafa liðið frá því að frv. var flutt. Mætti segja mér, að ef það hefði fengist tækifæri til þess að hafa þetta mál lengur til skoðunar í nefndum þingsins, en nefndir beggja deilda hafa unnið saman í þessu máli, þá hefðu sjálfsagt enn á ný verið komnar upplýsingar sem hefðu getað leiðrétt og lagfært það sem hér hefur verið lagt á borð þm.

Það er ekki svo að hér hafi aðeins verið um að ræða upplýsingar sem stjórnarandstaðan taldi rétt að taka tillit til og breyta þess vegna frv. Hér var um að ræða upplýsingar sem sjálf ríkisstj., sjálfur fjmrh. taldi þess eðlis að gera þyrfti lagfæringu á frv. áður en það gæti hlotið endanlega staðfestingu. Sá hv. þm., 7. þm. Reykv. Guðmundur J. Guðmundsson, fulltrúi Alþb. og fulltrúi flokks hæstv. fjmrh., eins og ég gat um áðan, mætti ekki á þeim eina fundi sem fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. hafði þetta mál til athugunar, þ. e. í dag, en málinu var vísað til n. í gær. Kannske hefur honum fundist þetta allt of skammur tími til þess að það tæki því yfirleitt að mæta á þessum fundi til að athuga málið. E. t. v, hefur hann ekki talið ástæðu til þess yfirleitt að koma fram neinum leiðréttingum í sambandi við þetta frv. (KP: Auðvitað er maðurinn á móti frv.) Ef það er svo, að þm. er á móti málinu, eins og hv. 6. landsk. þm. lét í ljós, hvers vegna þá ekki að koma á fund og koma í d. til þess að gera grein fyrir skoðunum sínum? Það er miklu oftar sem við heyrum í þm. í þessum ræðustól, þegar þeir eru að andmæla því sem til umr. er, heldur en að langar ræður séu haldnar til þess að mæla með því — þó menn geri það að vísu stundum og vilji þar með undirstrika áhuga sinn á því máli sem er til umr.

Þetta mál hefur verið langan tíma til umfjöllunar í hv. Ed. Hins vegar eru aðeins ætlaðir tveir sólarhringar í þessari d. til að afgreiða málið. Hér er að sumu leyti um samkomulag að ræða sem gert var í sambandi við útvarpsumr. og frestun á þessu máli vegna nýrra upplýsinga sem fram komu, og við það samkomulag mun staðið af hálfu okkar sjálfstæðismanna, að þetta frv. geti fengið þinglega meðferð og afgreiðslu út úr þessari d. í kvöld. Hins vegar hefur a. m. k. ekki að okkar dómi nægjanlega margt verið um málið sagt í þessari d. til þess að okkur dugi 4–5 mínútur til að ræða málið. En ég vil undirstrika að við það samkomulag, sem gert var, verður staðið af hálfu okkar sjálfstæðismanna, og ég veit ekki til þess að nein breyting hafi orðið á af hálfu hins stjórnarandstöðuflokksins, þ. e. Alþfl., en þeir Alþfl.-menn gera að sjálfsögðu grein fyrir sínum sjónarmiðum hér á eftir.

Ég vil, áður en ég vík að efnisatriðum frv., ræða örlítið um þau vinnubrögð sem við eru höfð í sambandi við þetta frv. — og ekki aðeins þetta frv., heldur fjölmörg önnur frv. sem eru og hafa verið á dagskrá þessa fundar og fundanna í dag. Það er búið að samþykkja fjárlög og það eru settar inn í þau fjárlög tekjumegin ákveðnar tölur, sem eru samkv. lögum um skattheimtu, án þess að fyrir þeim sé lagastoð. Þegar svo fjárlög hafa verið samþykkt standa menn hér uppi í ræðustóli og segja: Fjárlögin hafa verið samþykkt, tölurnar hafa verið settar inn í þau og nú verða þm. að gera svo vel að samþykkja þessi frv. því að ella er ekkert mark takandi á fjárlögunum. — Þetta eru vinnubrögð sem að vísu hafa þekkst á Alþ. áður, en þetta eru vinnubrögð sem hér hafa ekki þekkst þann tíma sem ég hef setið hér nema þegar vinstri stjórn hefur verið í landinu. Þá hafa menn búið til fjárlög nákvæmlega eins og þeim hefur hentað og það hefur engu máli skipt hvernig tölurnar hafa verið fengnar tekjumegin. Það hefur verið búin til gjaldahlið samkv. till. þeirra flokka sem eru í ríkisstj., þ. e. vinstri flokkanna, og eftir það hefur svo stjórnarþm. verið sagt: Nú verður að hækka þessa skattana, nú verður að hækka hina skattana, nú verður að bæta á nýjum sköttum til þess að fjárlagafrv. verði ekki tóm markleysa.

Ég sagði áðan, að við værum að ræða hér um tekju- og eignarskatt og flugvallagjald. Eftir páskana var samþykkt hækkun á söluskatti um 11/2%. Það var kallað orkujöfnunargjald. Nú er verið að samþykkja brbl. um hækkun á söluskatti úr 20 upp í 22%. Það var vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar sem setti þennan skatt á með brbl. Alþfl.-stjórnin varð að gefa út ný brbl. því að það vannst ekki tími til þess að afgreiða brbl. ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar á þinginu í haust. Svo kemur ný ríkisstj. og leggur til að brbl. verði samþykkt. En allt gerist þetta löngu eftir að fjárlagafrv. hefur verið samþykkt.

Sú eðlilega starfsaðferð í sambandi við gerð fjárl. er að Alþ. samþykki þau tekjuöflunarlög sem byggja á tekjuhlið fjárlagafrv. á. Síðan gera menn sér grein fyrir því hvað er til skiptanna, hverju hugsa menn sér að eyða, en fara ekki öfugt að eins og hér er gert: Fjárlagafrv. er samþ. Það er þannig tilbúið, að gjaldahliðin er ákveðin, og síðan finna menn út hvernig þeir nái tekjum til þess að geta staðið við útgjaldahliðina.

Hæstv. forsrh. hefur stundum vikið að því þegar hann hefur rætt um fjárlagagerð, — hann er fyrrv. fjmrh. eins og kunnugt er, — að fyrst og fremst verði menn að gera sér grein fyrir því, hver eigi að vera tekjuöflunin, og þá verði menn að setja þak. Þegar hann sem forsrh. stýrir svo í fyrsta skipti fjárlagagerð, þá er ekki aldeilis verið að setja á þak. Það er a. m. k. ekki flatt þak. (Gripið fram í: Bara gólf.) Því var skotið hér fram, að það væri bara sett gólf og svo væri byggingin þaklaus, þakið væri fokið af. Síðan koma smiðirnir og þeim er sagt: Ja, nú verðum við, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að koma einhvern veginn þaki yfir þetta allt saman. — Og það eru skattborgararnir sem verða að borga.

Ég minnist þess sérstaklega 1972, hvernig fjárlagagerðin þá var. Fjárl. voru samþ. í des. 1971. En það var ekki fyrr en á útmánuðunum sem breyting á lögum um tekjuskatt var samþ. og þá var sagt: Það verður að samþykkja þessi lög einfaldlega vegna þess að það er búið að samþykkja fjárl., ella verður ekkert mark hægt að taka á þeim.

Ég er sannfærður um það, að a. m. k. ýmsir af þm. stjórnarliðsins eru þessum aðferðum ekki samþykkir. Það verður sjálfsagt látið heita svo, að menn þurfi að gera fleira en gott þyki, og með það að leiðarljósi standa menn að því að samþykkja öll þau skattafrv. sem hafa verið og eru til meðferðar hér á hv. Alþ. þessa daga.

Mig langar þá til þess að víkja nokkrum orðum að öðrum vinnubrögðum í sambandi við þetta frv. Við erum að flytja og ræða breytingu á nýjum skattalögum. Við gerðum það fyrr á þessu þingi og þá var það frv. flutt hér í hv. Nd. Forustu um afgreiðslu þess máls hafði formaður fjh.- og viðskn., hv. 3. þm. Austurl., og honum tókst að ná fullri samstöðu og samkomulagi um afgreiðslu á því máli. Ég var út af fyrir sig ekkert hissa á því, að honum tækist þetta, bæði vegna þess að hann hafði mikinn kunnugleik á málinu og hafði unnið að því og vegna þeirrar sérþekkingar sem hann hefur á þessum málum. En þetta hvort tveggja hefði ekki dugað, ef hann hefði ekki persónulega lagt sig eftir því að ná þessari samstöðu. Þegar það frv. var hér til meðferðar og samþ. með samkomulagi gerðu menn sér grein fyrir því, að það yrði að flytja annað frv. hér á Alþ. einmitt varðandi skattstigana og áður en því máli í raun og veru væri lokið. Það mátti því búast við því, að frv. um skattstigana yrði flutt í þessari hv. d. og hér yrði unnið með sama hætti og hv. formaður fjh.- og viðskn. hafði unnið að fyrra frv. En því var ekki að heilsa. Hæstv. fjmrh. flytur frv. í Ed., og ég verð að segja að það var að mínum dómi mjög óráðlegt, því að ég hefði trúað hv. 3. þm. Austurl., formanni fjh.- og viðskn., betur til þess að ná samstöðu í þessu máli heldur en gert hefur verið varðandi meðferð þessa máls. Ég er sannfærður um það, að upplýsingar, sem hefði þurft að fá, hefðu komið betur til skila ef þannig hefði verið á málunum haldið, og ég fullyrði að formanni fjh.- og viðskn. Nd. hefði tekist miklu frekar að ná samstöðu í þessu máli — og því er bætt við, að varaformaðurinn í n. er með sama hugarfari.

Hins vegar er kannske ekki öll sagan sögð með þessu. Við skulum átta okkur á því, að fjárlagafrv. gerir ráð fyrir ákveðnum tekjum og það frv., sem hér er til umfjöllunar, verður — samkv. því sem hæstv. fjmrh. segir og hæstv. forsrh. líka — að gefa í ríkissjóð þær tekjur sem þar var gert ráð fyrir. En við skulum líta á þær forsendur, sem eru fyrir þessu frv. og því sem þar er um að ræða. Þeim er jafnvel breytt til þess að skila þeirri tölu. Þeim er breytt þannig að það á að hafa í tekjur hærri upphæð en fjárlög gera ráð fyrir. Þeir skattstigar, sem hafa verið samþykktir af hv. Ed., miðað við tekjubreytingu á milli áranna 1978 og 1979, gefa ríkissjóði 2.5 milljörðum, ef ekki 3 milljörðum meiri tekjur en fjárlög gera ráð fyrir. Þetta hefur verið staðfest af Þjóðhagsstofnun sem hefur sent frá sér útreikninga í sambandi við tekjuhlið frv. sem voru birtir með nál. og ég held gerð grein fyrir þeim með nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. Gerð var grein fyrir nýrri athugun á þessum atriðum við 3. umr., en hún var gerð eftir úrtökum frá Þjóðhagsstofnun sem sýndu í raun og veru hvernig útkoman hafði verið.

Öll eru þessi vinnubrögð með þeim hætti, að ekki getur hjá því farið að hér á Alþ. komi fram gagnrýni og það mikil gagnrýni. Það á öllum að vera ljóst, að fjárlög á að samþykkja með þeim hætti, að tekjur ríkissjóðs, tekjur fjárlaga byggist á þeirri löggjöf sem þá þegar hefur verið samþykkt. Ef gerðar eru hins vegar sérstakar ráðstafanir þegar komið er fram á fjárlagaárið sem krefjast viðbótartekna, þá kemur ríkisstj. að sjálfsögðu til Alþingis og gerir grein fyrir því, og þá eru hin nýju útgjöld háð því að Alþ. samþykki þann tekjuauka sem af þeirri löggjöf leiðir. Ég verð að undirstrika það, að það voru mér vonbrigði að málið skyldi ekki flutt hér í þessari hv. d. og formaður fjh.- og viðskn. þessarar d., sem svo mjög vel og mikið hafði unnið að þessu máli, fengi tækifæri til að ljúka þessu verki. Og ég álít að undir hans forustu hefði e. t. v. verið hægt að ná töluvert víðtækari samstöðu um málið heldur en sýnist vera, a. m. k. þegar litið er á alla minni hlutana sem eru í fjh.- og viðskn. þessarar d. — og minni hl. sem lætur ekki í sér heyra í sambandi við þetta mál.

Það frv., sem hér er til umr., er einn þátturinn í stórfelldum auknum skattálögum, sem núv. ríkisstj. og fyrrv. ríkisstj. hafa beitt sér fyrir. Það er vissulega lærdómsríkt að gera sér grein fyrir því, hversu óskaplega mikið skattbyrðin — skatttekjur ríkissjóðs annars vegar og skattbyrði borgaranna í landinu — hefur breyst frá því að vinstri stjórnin tók við 1978 og þar til í dag. Söluskattur hefur verið hækkaður oftar en einu sinni. Vörugjald hefur verið hækkað og gjald á ferðalög, sett hefur verið á nýbyggingagjald, það hefur verið lagður skattur á verslunarhúsnæði, aðlögunargjald, hækkun verðjöfnunargjalds af raforku, bensínið hefur verið hækkað umfram verðlagshækkanir, síðan hefur verið sett á nýtt orku jöfnunargjald og svo hafa markaðir tekjustofnar til ríkissjóðs verið auknir. Þetta skiptir tugum milljarða. Hér er um að ræða upphæðir á milli 25 og 30 milljarða sem fólkið í landinu greiðir meira nú en það gerði á miðju ári 1978. Og það er alveg nákvæmlega sama hvernig menn í ræðustól eða í greinum sínum reyna að útskýra að það hafi ekkert verið hækkaðir skattar á fólkinu í landinu, allar þær tölur, sem notaðar eru til þess að átta sig á stöðu þjóðarbúsins, sýna eitt og aðeins eitt: skattbyrðin hefur verið aukin geysilega mikið.

Fyrr í dag tók til máls hv. 4. þm. Suðurl., Garðar Sigurðsson, og gerði örlítinn samanburð í orðum á skattheimtu núv, ríkisstj. og skattheimtu ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, en í þeirri ríkisstj. veitti ég fjmrn. forustu. Af því að ég sé að þessi ágæti þm. er hér ekki langt undan langar mig til að vekja athygli hans á því, hvað tölur Þjóðhagsstofnunar segja í þessum efnum. Ef við skoðum árin 1975, 1976, 1977 og jafnvel árið 1978, sem var að hluta til vinstristjórnarár, þá kemur í ljós að af vergri þjóðarframleiðslu fara 26.8% til ríkisins 1975, 26.2% 1976, 25% 1977, svo stígur það aftur 1978 í 26.4%. Hver er svo talan í dag? Hver er talan sem reiknað er með að ríkissjóðstekjur á árinu 1980 verði sem hlutfall af þjóðarframleiðslu? Það er ekki tuttugu og sex komma eitthvað, það er ekki tuttugu og sjö komma eitthvað. Það er 28.5% af þjóðarframleiðslunni á árinu 1980 sem gert er ráð fyrir að renni til ríkissjóðs. Ef við miðum við meðaltal þessara ára — ekki árið 1977 sem varð lægst, þá er mismunurinn 2.5% af þjóðarframleiðslu, sem er um 1200 milljarðar. (Gripið fram í.) Ég er að tala um skattheimtuna, það er um hana sem við erum að ræða. Og þegar þessi tala er reiknuð út, þá komum við að 30 milljörðum. Það er sú tala sem fæst þegar hver einstök skattheimta er sérstaklega reiknuð út, þá skilar það út úr dæminu 30 milljörðum um það bil. Þetta eru þær tölur sem Þjóðhagsstofnun lætur frá sér fara, og ég hugsa að talan 28.5% á árinu 1980 sé ekki of há.

Ef við víkjum svo að einstaklingnum sem slíkum, að skattbyrðinni, hvað kemur þá út úr því dæmi? Er um að ræða útkomu sem er í samræmi við það sem hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði? Það er alls ekki svo. Ef við skoðum álagða skatta sem hlutfall af tekjum greiðsluárs — og erum ekkert að rugla dæmið, því að það getur vel verið að þá verði það orðið of flókið fyrir menn og þeir rugli þá öllu saman, þá kemur í ljós að skattbyrðin á árinu 1980 verður nærri 14.5% af tekjum greiðsluárs á móti árinu 1977, þegar fjmrh., sem hv. þm. talaði um í dag, sá um ríkiskassann, þá var dæmið 10.6%, — árið þar á undan 12.5% , árið þar á undan 11.4, en strax og vinstri stjórn var tekin við 1978 og áfram árið 1979 fer þessi tala hægt og hægt að stíga og kemst nú upp í 14.5% á þessu ári. Skatttekjur ríkissjóðs árið 1980 sem hlutfall af þjóðarframleiðslu verða um 28.5%, og ég hugsa að ég sé heldur varkár þegar ég er að halda þessu fram. Skattbyrði einstaklinganna í landinu verður 14.5% á árinu 1980 samkv. því sem Þjóðhagsstofnun segir. Og til hvers leiða þessi vinnubrögð? Það liggur auðvitað í augum uppi. Atvinnuvegirnir eru aldrei eins illa staddir og nú, kaupmátturinn rýrnar og afkoma fólksins versnar. Þessi hv. þm. kallaði það kjósendadekur þegar bent er á þessar staðreyndir, hann kallaði það kjósendadekur og taldi alveg ástæðulaust að vera með slíkt hér á hinu háa Alþingi.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, hver kaupmáttur kauptaxta er eða hvernig vísitölur þeirra eru. Í upphafi árs — miðað við 100 í ársbyrjun 1977 — er kaupmátturinn um 119 stig, en sígur nú niður á þessu ári og er þegar kominn niður fyrir það sem hann var í upphafi ársins 1978, kaupmáttur kauptaxta er kominn þó nokkuð niður fyrir það í dag. Einhvern tíma heyrðum við í kosningabaráttunni 1978: Samningana í gildi. Kosningar eru kjarabót. — Ég efast ekkert um, að þessi hv. þm. viðhafði þessi orð í sinni kosningabaráttu, og hann hefur sjálfsagt eins og margir af hans samstarfsmönnum og hans flokksbræðrum fengið út á það atkv. Það skyldi þó ekki vera að allar þær orðræður og þær setningar, sem sagðar voru, hafi verið kjósendadekur og þessi hv. þm. hafi því búið í glerhúsi þegar hann brigslaði öðrum um slíkt? Ég hef bent á með tölum að fullyrðingar hans fá ekki staðist. Miklu frekar er hitt, sem við stjórnarandstæðingar höfum haldið fram, að stefna núv. ríkisstj. sé með þeim hætti í skattamálum, að hún lami atvinnulífið, hún minnki kaupgetu almennings og hún geri það að verkum, að landsmenn hafi ekki úr jafnmiklu að spila og þeir höfðu áður. (Forseti: Hentar hv. þm. fljótlega að gera hlé á ræðu sinni?) Já, herra forseti. Það hentar nú þegar ef forseta sýnist svo. [Frh.]