30.04.1980
Neðri deild: 67. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2259 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Margt hefur verið sagt um það frv. sem hér er til umr., bæði í þessari hv. d. og þá ekki síður og reyndar miklu fremur í hv. Ed. Hef ég þar litlu við að bæta, enda búið að semja um afgreiðslu málsins í þessari hv. d. nú í kvöld og vil ég síst af öllu verða til þess að bregða fæti fyrir það samkomulag.

Ég get þó ekki látið hjá líða að mótmæla þeirri fullyrðingu hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj., að ekki sé um að ræða tekjuskattshækkanir frá því sem orðið hefði að óbreyttum lögum. Nú liggur það fyrir, að hækkun tekna einstaklinga milli ára 1978 og 1979 var u. þ. b. 47%, og kom það mjög skýrt fram í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar áðan. Ef vægi tekjuskatts ætti að vera óbreytt frá síðasta ári hefði skattvísitala samkv. eldra kerfi því orðið að hækka um 47%. Ef tekjuskattur einstaklinga frá fjárlögum síðasta árs er framreiknaður á þennan hátt, þ. e. miðað við 47% hækkun skattvísitölu, hefði skatturinn átt að verða að óbreyttum skattþunga á einstaklinga 34 milljarðar kr., en er samkv. núgildandi fjárlögum 38.2 milljarðar, eða 23% hærri en hefði orðið að óbreyttum lögum. Ef borið er saman við fjárlagafrv. í fyrra er um að ræða 18% hækkun, eins og kom fram hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni. Ef tekjuskattur einstaklinga samkv. fjárlögum síðasta árs er borinn saman við núgildandi fjárlög er hækkunin, eins og ég sagði áðan, 23% umfram framreiknaðan tekjuskatt einstaklinga samkv. eldri lögum. Tekjuskattur félaga samkv. fjárlögum er aftur á móti stórlækkaður miðað við síðasta ár.

Þessi 18% eða 23% — hvort sem við hugsum okkur að nota — hækkun á tekjuskatti einstaklinga hlýtur auðvitað að koma einhvers staðar fram, eða réttara sagt hún kemur alls staðar fram. Við skulum taka örfá dæmi. Einhleypingur með 4 millj. kr. brúttótekjur — og er þá reiknað með að hann notfæri sér 10% afsláttarregluna hefði fengið samkv. eldri lögum 334 200 kr., en fær samkv. þessu frv. 410 þús. kr. eða 22.7% hækkun. Ef við förum neðar, ef maðurinn hefði haft 3 millj. brúttó, þá hefði hækkunin orðið 49% hjá þessum sama manni. Maðurinn sem er með 250 þús. kr. á mánuði á síðasta ári, fær 50% hækkun á sínum tekjuskatti milli ára. Ef við aftur á móti berum saman hjón með tvö börn þar sem annað hjónanna vinnur fyrir öllum tekjunum, þá er hækkunin óveruleg, en nokkur þó.

Hjá hjónum, þar sem annað hjónanna vinnur fyrir'Is teknanna og hitt fyrir 2/3 og tekjurnar hafa samanlagt verið 8 millj. brúttó, hækkar skatturinn úr 349 200 kr. í 540 þús. eða um 54.6%. Ef þessi hjón hefðu haft 7 millj. kr. tekjur yrði hækkunin 47%. Í öllum þessum dæmum er reiknað með hjónum með 2 börn, þar sem annað barnið er undir 7 ára aldri. Ef við tökum hjón sem hafa 8 millj. í brúttótekjur á s. l. ári og tekjurnar skiptast jafnt, hefðu þau eftir gömlu lögunum fengið 148 200 kr. í tekjuskatt, en þau fá núna 480 þús. kr. tekjuskatt, m. ö. o. 224% hækkun.

Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir og hefur lengi legið ljóst fyrir, að hæstv. núv. ríkisstj. treystir sér hvergi í umtalsverðan niðurskurð á ríkisútgjöldum. Það er því eðlilegt og skiljanlegt að reynt sé að afla tekna á móti gjöldum. Hitt er ótækt með öllu, að reyna að telja sjálfum sér og öðrum trú um að ekki sé um skattahækkun að ræða frá fyrra ári. Það er ekki aðeins um skattahækkanir að ræða, heldur mjög verulegar skattahækkanir. Og það sem verst er, þær eru mestar hlutfallslega á lægstu tekjunum.