01.05.1980
Neðri deild: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Klukkan er nú að ganga eitt, 1. maí er runninn upp, hátíðisdagur verkalýðsins. Við vitum það þm., að allir kjarasamningar eru lausir í þessu landi, og það hlýtur að vera ofarlega í hugum okkar með hvaða hætti við getum stuðlafi að friðsamlegum samningum, þannig að vinnufriður ríki og verðmætaöflun megi áfram halda öllum landslýð til heilla og kjarabóta.

Spurningin er hvort afgreiðsla þessa frv. er þáttur í því að stuðla að slíkum samningum. Það er ljóst að með þessu frv. og öðrum þeim aðgerðum og frv., sem núv. ríkisstj. hefur fengið samþ., er skertur möguleiki til að bæta hag launþega með þeim hætti að peningalaun þeirra að raunverðmæti, ekki nauðsynlega krónutölu, en að kaupmætti megi haldast eða aukast. Þetta er fyrsti agnúi, fyrsti annmarki, fyrsti ágalli og meginástæðan til þess að þetta frv. ætti ekki fram að ganga.

Okkur ætti að vera ljóst í þessum sal, að það verður ekki skipt meiru en aflað er. Hið opinbera hefur með þessu frv. ásamt með öllum þeim öðrum frv., sem núv. ríkisstj. ber ábyrgð á, ætlað sér stærri hlut en áður. Jafnframt er ljóst að þessi hæstv. ríkisstj. ætlar að taka að láni til þess að framtíðarkynslóðir skuli borga meira en skynsamlegt er. Af þessum ástæðum ættum við að fella þetta frv.

Þetta frv. og þessi lög eru þannig til þess fallin að torvelda samninga um kaup og kjör, koma í veg fyrir að vinnufriður komist á í þessu landi.

En þetta er ekki eini ágalli þessa frv. Annar ágalli þessa frv. er sá, að það er til þess fallið að auka spillingu í þessu þjóðfélagi. Með þeirri aukningu beinna skatta, sem þetta frv. stefnir að, er ljóst að það verður erfiðara fyrir skattayfirvöld að sjá svo um, að allir beri þær byrðar sem þeim ber að bera.

Það er alvarlegt mál þegar það hefur skeð á ábyrgð fyrri stjórnar og núv. stjórnar að söluskattur er orðinn svo hár, að það er slík freisting að skjóta undan söluskatti, að hætta er á því að margir falli fyrir þeirri freistingu. Og það er ekki eingöngu hætta á því að margir falli fyrir þeirri freistingu, heldur og að atvinnustarfsemin í landinu breytist frá því sem æskilegt væri og menn hírist í skúmaskotum, kjallaraholum og bílskúrum við atvinnustarfsemi með langtum óhagkvæmari hætti en ætti að vera ef bæta á kjör fólksins í þessu landi.

Slíkt skipulag er á ábyrgð núv. ríkisstj. og fyrrv. ríkisstj. Það er ábyrgðarhluti að ætlast til þess að menn láti það gott og gilt, að 2/3 hlutar þeirrar krónu, sem þeir vinna fyrir með miklu vinnuframlagi og álagi, renni til hins opinbera, en þeir fái aðeins 1/3 hluta. Með þeim hætti hygg ég að siðferðiskennd manna sé núsboðið og með þeim hætti hygg ég að erfitt sé að halda uppi raunhæfu skattaeftirliti í landinu. Þetta er önnur ástæðan til þess, að okkur ber að hafna þessu frv.

Þriðja ástæðan er auðvitað sú, að auknar skattaálögur — í raun og veru hvort heldur er með beinum sköttum eða óbeinum, en einkum þó á fyrsta stigi með beinum sköttum — eru til þess fallnar að draga úr áhuga manna á að skapa verðmæti. Það er stefna Sjálfstfl., að að svo miklu leyti sem hið opinbera þarf á fjármunum að halda til þess að sjá fyrir sameiginlegum þörfum landsmanna — og auðvitað erum við sammála um það, — þá beri að afla slíkra fjármuna með óbeinum sköttum, með því að leggja skatta á eyðsluna og draga með þeim hætti úr eyðslunni, en ekki með því að leggja skatt á tekjurnar, ekki auka beina skatta, ekki með því að leggja á verðmætasköpunina skatt sem er til þess fallinn í bráð og lengd að draga úr þjóðarframleiðslu, þjóðartekjum og þeim grundvelli sem við öll viljum byggja á til þess að auka og bæta lífskjör landsmanna.

Af þessum þremur veigamiklu ástæðum: í fyrsta lagi, að þetta skattalagafrv. sem og aðrar auknar skattaálögur núv. ríkisstj. koma í veg fyrir að skynsamlegir kjarasamningar komist á og vinnufriður ríki í landinu, í öðru lagi, að með þessum hætti er ríkisstj. að koma í veg fyrir aukna verðmætasköpun í landinu, og í þriðja lagi er ríkisvaldið með þessum hætti því miður að skapa skilyrði — óholl skilyrði fyrir því, að spilling aukist í landinu, — af öllum þessum ástæðum ber okkur að hafna þessum skattalögum sem nú er lagt til að verði samþykkt.

Ég ítreka og endurtek, herra forseti, að það er táknrænt, að slík skattalög, sem eru e. t. v. á þessari stundu — þótt þau hafi langvinnari og langdrægari áhrif — einkum til þess fallin að torvelda vinnufrið í landinu og sátt milli stétta, skuli ganga undir atkv. 1. maí, á degi verkalýðsins. Það ásamt efni laganna, sem þó skiptir höfuðmáli, er á ábyrgð ríkisstj.