01.05.1980
Neðri deild: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Landbrh. (Pálmi Jónsson). Herra forseti. Í öllu því orðaskvaldri, sem hér hefur verið flutt, og öllum þeim ræðum stjórnarandstæðinga, sem fluttar hafa verið um þetta mál og ýmis önnur hér á undanförnum vikum, höfum við stjórnarliðar tekið það ráð að láta ræðuhöld fram hjá okkur fara án þess að hafa mikil afskipti af. Þetta er, eins og öllum er kunnugt, nauðsynlegt til að freista þess að mál nái þó að lokum fram að ganga. Ég mun þess vegna ekki hér gera neinar aths. eða blanda mér í þær efnislegu deilur sem hér hafa átt sér stað, jafnmiklar rangfærslur og hér hafa þó verið á borð bornar, bæði í kvöld og marga aðra daga.

Hér hefur mönnum orðið tíðrætt um ábyrgð Sjálfstfl. Ég ætla aðeins að segja um það efni, að ég mun ekki varpa af mér þeirri ábyrgð að styðja það frv. sem hér er á dagskrá. Ég mun ekki heldur varpa af mér þeirri ábyrgð að hafa átt þátt í myndun þeirrar ríkisstj. sem nú situr. Til þess lágu efnislegar ástæður sem ég hef greint frá annars staðar og mun greina frá betur við önnur tækifæri. Til þess eru næg tækifæri seinna, en undan þeirri ábyrgð ætla ég ekki að skorast.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kastaði til mín orðum alveg sérstaklega. Hv. þm. benti á mig sem sérstakan persónugerving metnaðar og hroka og hana sem galaði á hærri haug en nokkur maður annar. Ég ætla ekki að ræða þessa eiginleika mína né bera þá saman við til að mynda hv. þm. Sighvat Björgvinsson hvað þetta snertir. En hv. þm. Sighvati Björgvinssyni varð einnig tíðrætt um innræti, og ég hygg að ýmsa þá hv. þm., sem þekkja okkur báða, muni gruna að innræti okkar muni ekki sérlega líkt, a. m. k. ekki hið sama.