01.05.1980
Neðri deild: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það má hverjum ljóst vera, sem les þingsköp Alþingis, að þau tryggja mjög svo vel að menn geti komið hér skoðunum sínum á framfæri, en aftur á móti gæta þau þess varla, að mál komist eðlilega fram. Þess vegna hefur hæstv. forseti mjög gjarnan brugðið til þess ráðs að gera samkomulag um að málum sé lokið á ákveðnum tíma. Hann hefur náð árangri í því að stjórna þannig þd., að oft og tíðum hefur verið til fyrirmyndar. Í kvöld höfðum við fyllstu ástæðu til að ætla að hann hefði einnig gert samkomulag sem við yrði staðið og hljóðaði á þá leið, að ákveðnum málum skyldi lokið 30. apríl.

Ég vil að hæstv. forseti upplýsi það hér og nú, við hverja hann gerði samkomulag, þannig að þd. megi ljóst vera, hverjir sviku það samkomulag, og jafnframt að öllum megi ljóst vera að við svik á samkomulagi eins og þessu hlýtur að bresta visst traust hér innan þingsins. Jafnframt finnst mér það vanvirða við þann dag, sem upp er runninn, að menn haldi áfram málþófi sem þessu.

Ég hóf afskipti mín af stjórnmálum með ræðu 1. maí og kann því illa að hann sé notaður á þann veg sem hér er gert.