01.05.1980
Neðri deild: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (2161)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hefði talið ástæðu fyrir forseta hv. d. að benda ritara sínum á að við erum búnir að afgreiða hér fjölda mála í dag án þess að hafa haldið uppi umr., sérstökum töfum eða málþófi, eins og þessi hv. þm. kallar það nú. Ég mótmæli því að okkur skuli ekki gefast tími til þess að ræða þetta mál í örfáar klukkustundir, — mál sem hefur ekki aðeins gífurlega mikla þýðingu fyrir þjóðarheildina, heldur og sérstaklega fyrir launþega þessarar þjóðar sem eru einmitt nú við upphaf síns hátíðisdags sem að vísu nokkur blettur hefur fallið á í mínum huga við þær upplýsingar sem síðasti ræðumaður gaf.