03.05.1980
Sameinað þing: 0. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2298 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

162. mál, könnun á áhrifum af ákvæðislaunakerfum

Flm. (Guðrún Hallgrímsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja í Sþ. þáltill. á þskj. 334 um könnun á áhrifum af ákvæðislaunakerfum. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir könnun á heilsufarslegum og félagslegum áhrifum af ákvæðislaunakerfum (afkastahvetjandi launakerfum) á það fólk, sem tekur laun samkv. þeim.

Niðurstöður skulu liggja fyrir eigi síðar en að ári liðnu. Að rannsókn lokinni skal ríkisstj., ef þurfa þykir, beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á vinnuskilyrðum þess verkafólks, er hlut á að máli, í samráði við samtök þess.“

Í grg. eru raktar ástæður fyrir því, að ákvæðislaunakerfi hafa verið tekin upp, og einnig er bent á, að þeim starfshópum fer sífellt fjölgandi er taka laun eftir þeim.

Þessi launakerfi eru margvísleg og innbyrðis ólík. Helstu gerðir þeirra eru svokallað „slumpakkorð“, þar sem slegið er á vinnumagn og ágóða síðan skipt á milli verkafólks. Það tíðkast t. d. við síldarsöltun og við útskipun. Þá eru það uppmælingartaxtar, þar sem samkomulag er gert á milli atvinnurekenda og verkafólks um tímaþörf einstakra verkþátta og er þá oft byggt á reynslutölum, þ. á m. frá öðrum þjóðum. Það er athyglisvert, að einatt hefur ekki verið tekið tillit til mismunandi tæknistigs og endurskoðun vegna breyttrar tækni fyrst farið fram eftir á þegar ágallar hafa komið fram. Þessa kerfis gætir helst í rafiðnaði og í byggingariðnaði. Að síðustu nefni ég svokallaða „tímamælda ákvæðisvinnu“. Þar er verkið mikið brotið niður í verkhluta og hver einstakur þeirra er tímamældur upp á 1/100 hluta úr mínútu. Reynt er síðan að meta afköst starfsmannsins og finna þannig svonefnd málsafköst, sem oft eru kölluð afköst 100. Hér er gert ráð fyrir að allir standi jafnt að vígi gagnvart því að ná málsafköstum. Í þessum flokki eru svonefnd bónuskerfi, sem einkennast af því að ekki er beint hlutfall á milli afkasta og launa. Um þessi ákvæðislaunakerfi gildir samningur sá á milli Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambandsins sem minnst er á í grg. fyrir till. Helstu starfshópa, sem taka laun eftir þessu kerfi, er að finna í fiskiðnaði og í vaxandi mæli í ýmiss konar verksmiðjuiðnaði.

Ég vildi gjarnan staldra hér ögn við og minna menn á þá umbun sem menn hafa fengið fyrir vinnu sína og var fólgin í sannri vinnugleði og stolti yfir vel unnu verki. Listilega hlaðinn veggur eða hornréttur stakkur, hús sem rís, allt er þetta órækur vitnisburður um vel unnið dagsverk og aðrir geta velt fyrir sér og dáðst að. Í frystihúsum hérlendis er helst hægt að kynnast nútímavinnubrögðum í verksmiðjustíl. Þar hverfur vinnuframlag dagsins inn í frystiklefa að kvöldi. Í stað vinnustoltsins er komið eftirlitskerfi og síðan peningaþóknun. Þessi breyting frá gömlum hefðum til nútímaatvinnuhátta hefur yfirleitt verið talin taka u. þ. b. tímabil heillar kynslóðar og þessi breyting hefur ekki alls staðar gengið fyrir sig án átaka. En þrátt fyrir mikla verkfallatíðni hérlendis virðast verkföll ekki hafa verið tengd þessum vandamálum. Orsakirnar hafa fyrst og fremst verið átök um skiptingu afraksturs. En það segir kannske ekki alla sögu um erfiðleika fólks við að lúta nútímavinnuskipulagi, og kannske væri ekki fráleitt að heyra nokkrar lífsreynslusögur verkafólks. Ég held að það sé allt of lítið gert að því að draga slíkar sögur fram. — En jafnhliða átökum um skiptingu afraksturs hefur á seinni tímum verið vakin upp umræða um margvíslega jöfnun lífsskilyrða. Rætt hefur verið um jöfnun eftir búsetu, en ýmiss konar aðstöðumunur hefur þegar verið viðurkenndur, t. d. eftir því hve langt fólk býr frá höfuðborgarsvæðinu, hvort það býr á hitaveitusvæði eða kyndir hús sín með olíu. Konur hafa vaknað til vitundar um margvíslega kúgun sína, bent á misrétti á ýmsum sviðum og barist ótrauðar fyrir jafnrétti kynjanna. Margvíslegar aðrar vitundarhreyfingar fyrir bættum lífsháttum og nýju gildismati hafa sett svip sinn á pólitíska umræðu næstliðinna ára. En misskipting lífsskilyrða á Íslandi liggur e. t. v. ekki hvað síst í misskiptingu vinnuálags. Um það höfum við hrikaleg dæmi. Það er því óhjákvæmilegt að jöfnun vinnuálags, vinnutíma og vinnuskilyrða verði meira en hingað til viðfangsefni pólitískra og efnahagslegra umræðna. Því tel ég eðlilegt að menn velti sérstaklega fyrir sér tengslum milli afkasta fólks og þess sem það skapar með vinnu sinni og svo tekna og annarrar umbunar að hinu leyti.

Það er atmennt viðurkennt að sjávarútvegur er undirstaða efnahagslegrar velferðar Íslendinga, en einmitt í sjávarútvegi hefur meira borið á en í öðrum atvinnugreinum að tengd væru saman vinnuafköst og kaupgreiðslur. Á sjónum fer aflahlutur eftir því, hve vel veiðist, og í landi eru kauptekjur eða bónus greiddur eftir afkastamælingum. Í ýmsum öðrum greinum er erfitt að gera sér grein fyrir beinu sambandi á milli verðmætasköpunar og vinnulauna. Raunar er myndin sú, að eftir því sem störf eru fjær því að vera verðmætaskapandi eru þau léttari, vinnutíminn styttri, aðbúnaður betri og laun á hverja tímaeiningu hærri. Ekki virðist þetta sýna mikinn jöfnuð í skipulagi vinnu- og launakerfa okkar, sem ég mun annars ekki gera mjög að umtalsefni, um það hefur töluvert verið rætt í þingsölum þá daga sem ég hef setið hér.

Í till. minni legg ég til að könnuð verði heilsufarsleg og félagsleg áhrif ákvæðislaunakerfa á það fólk sem tekur laun samkv. þeim. Nú er það svo, að óhóflega langur vinnudagur hefur lengi einkennt íslenskt atvinnulíf. Því væri sannarlega ástæða til að fagna öllum raunhæfum aðgerðum til styttingar vinnudagsins. Eftir að ákvæðislaunakerfi, sem hér eru einkum höfð í huga, voru tekin upp þótti sannað að afköst hefðu aukist. Ekki hefur nægilega verið gengið úr skugga um hvort afkastaaukningin á rót sína að rekja til aukinnar hagræðingar og bættra vinnubragða ellegar hvort hún stafi af auknu vinnuálagi, þ. e. hraðari og samfelldari hreyfingum. En staðreyndin er að aukin afköst á landsmælikvarða hafa ekki leitt til styttingar vinnutíma á landsmælikvarða, enda þótt efalaust sé hægt að benda á staði þar sem vinnutíminn hefur styst. Það er því full ástæða til að ætla að margfeldi vinnuálags og vinnutíma sé við mörg framleiðslustörf meira en áður en tíðkast fóru svokölluð ákvæðislaunakerfi reist á „fræðilegum“ grunni. Ég veit ekki hvort vinnuálag, áður en þessi kerfi voru tekin í notkun, hafi verið nálægt þolmörkum meðalmanns, en augljóst er að einstaklingar eru misjafnir að heilsufari, þoli og þreki þótt jafngamlir séu, hvað þá þegar einnig er tekið tillit til mismunandi aldurs í vinnuhópi. Ákvæðislaunakerfi taka ekki tillit til þess mismunar sem er á mönnum og er meginstaðreynd í málinu. Ég skal skýra þetta lítillega.

Málsafköst, en á þeim byggjast tengslin milli afkasta og launa, eru skilgreind sem þau afköst er æfður verkmaður skilar sem gagnkunnugur er vinnuaðferð,verkfærum og vélum og vinnur með hraða sem unnt er að halda án þess að það skaði heilsu hans. Hér er um afstætt mat að ræða. Alþjóðavinnumálastofnunin hefur gert tilraun til að móta ákveðinn afkastamælikvarða með samanburði við gönguhraða. Afköst 100 samsvara þá 5.8 km á klukkustund. Nú tel ég mig nokkuð þokkalegan göngumann. Auk þess er ég herðabreið og skreflöng. Líklegast gæti ég skilað þessum afköstum á sléttum vegi, enda þótt verulega hefði dregið af mér áður en ég næði austur á Selfoss, tæplega 50 km leið. En ætli ýmsir mér smávaxnari og fínlegri þyrftu ekki að leggja töluvert meira á sig. Skreflengd okkar er engan veginn sambærileg. Úthaldið er ekki það sama.

Þegar saman koma einstaklingar með mismunandi getu og eiginleika, sumir í blóma lífsins, en aðrir þegar búnir að skila löngu dagsverki, viljum við að allir fái að njóta sín og allir eigi hlutdeild í gæðum lífsins, einnig þeir sem af einhverjum ástæðum mega sín lítils. En við þurfum einnig að tryggja að gætt sé jafnaðar í því, hvers er krafist af hverjum og einum í vinnu. Í því sambandi eru ákvæðislaunakerfin sérstaklega skoðunarverð vegna þeirrar hættu sem er á því að þau vinni gegn því að tekið sé tillit til mismunandi aðstæðna. Sé lítið á vinnustað sem er einkennandi fyrir ákvæðisvinnu, eins og t. d. frystihús, getur aldursmunurinn verið allt upp í 50 ár, kraftar margra farnir að þverra, sjón að daprast, en aðrir óharðnaðir. Allir eru samt settir undir sama skipulagið og mældir sama máli. Má því segja að vinnuskipulagið leitist við að gera alla jafna. En vegna þess að menn eru alls ekki jafnir verður útkoman hinn mesti ójöfnuður og ranglæti. Því tel ég brýnt að athuguð séu áhrif þessara launakerfa á félagsleg samskipti og heilsu verkafólks.

Mér er fyllilega ljóst að starfsfólk almennt er hlynnt þessum kerfum, þetta er einasti möguleiki þess til þess að komast af í velferðarþjóðfélagi okkar á ofanverðri 20. öld. Það lifir enginn á dagvinnutekjum af tímakaupi. En það er ekki hægt að loka augunum fyrir ýmsum annmörkum á framkvæmd þessara launakerfa, sem glöggt kemur fram í ýmsum lífsreynslusögum verkafólks sem ég gat um áðan. Ein slík birtist í Morgunblaðinu 17. apríl s. Í. Sú saga er ljót og henni lauk með brottrekstri viðkomandi starfsmanns, að því er virðist eingöngu fyrir þær sakir að hann vildi fá upplýsingar um vinnukjör sín og félaga sinna og mótmælti mismunun manna innan fyrirtækisins. Hér skal ekki lagður dómur á hvort rétt sé með allt farið, en mér vitanlega hefur frásögnin ekki verið hrakin. En hún er sérstaklega athyglisverð fyrir það, að sagan gerist í einu fullkomnasta frystihúsi landsmanna þar sem aðstaða öll er talin til fyrirmyndar, og reyndar er hún í fullu samræmi við frásagnir fjölmargra starfsmanna annars staðar. Þau eru mýmörg dæmin um það, hvernig samhjálp og samstaða á vinnustað hefur vikið fyrir innbyrðis samkeppni, fyrir metingi, öfund og ríg.

Kerfi eins og það sem bónusvinna í frystihúsi byggist á, sem krefst hraða, nákvæmni og flýtni, hlýtur að vera vandmeðfarið og er auðvelt að gera sér í hugarlund þá streitu sem af því getur leitt. Verði einhver einn þáttur útundan tapar fólkið bónus, til einskis var barist. En ljótastur er þó leikurinn þar sem svokallaður refsibónus hefur tíðkast, en þar er um aðgerðir að ræða sem vart eiga sinn líka í nútímaatvinnulífi Íslendinga. Talandi tákn um það andrúmsloft, sem skapast hefur meðal verkafólks, er að sums staðar þar sem honum hefur verið beitt hafa starfsmenn, sem lenda í refsibónus, beðið verkstjóra þess lengstra orða að segja ekki nokkrum lifandi manni frá því að þetta hafi hent þá. Daginn, sem unnið er í refsibónus, hamast viðkomandi starfsmenn sem mest þeir mega, frá þeim er allt talið vendilega, en allt í plati, þeir eru aðeins á tímakaupi.

Á einum stað var refsibónus framkvæmdur þannig, að konum tveim, sem refsa átti, var komið fyrir við borð á miðju gólfi svo að allir gætu virt þær fyrir sér.

Þær eru ungar bónusdrottningarnar um allt land, og það virðist vera regla hjá iðnaðarmönnum að þeir fara að tínast úr uppmælingunni um fertugt. Eigum við ekki að staldra við og athuga hvert við stefnum? Annars er ekki að vita nema innan örfárra ára verði farið að biðja Þjóðhagsstofnun að reikna út hvort 10 ára stytting á starfsævi vinnandi fólks sé þjóðhagslega hagkvæm.

Ég vil geta þess hér, að fjölmörg félög iðnaðarmanna hafa ákveðið að standa að könnun á högum félagsmanna sinna, sem mun ekki hvað síst beinast að atvinnusjúkdómum. Sú könnun, sem ég fer hér fram á, gæti hugsanlega tengst þeirri könnun sem hafin er að frumkvæði iðnaðarmanna. Á þinginu 1976–1977 fluttu hv. fyrrv. þm. Svava Jakobsdóttir og Eðvarð Sigurðsson till. um skipun nefndar til að kanna eðli og útbreiðslu atvinnusjúkdóma. Till. fékk mjög góðar undirtektir, en fékkst ekki afgreidd. Till. sú, sem hér er flutt, gengur í sömu átt, en einskorðar sig við áhrif af svonefndum ákvæðislaunakerfum.

Um leið og ég vil eindregið ítreka þörf á skipun þeirrar nefndar bendi ég á síaukna notkun afkastahvetjandi launakerfa, og með tilliti til þess, sem ég nú hef rakið, legg ég til að eftirfarandi verði kannað:

Hve stór hluti verkafólks í landinu vinnur eftir ákvæðislaunakerfum og hvaða kerfi og afkastamælikvarðar eru notuð í einstökum greinum? Hver eru heilsufarsleg áhrif ákvæðislaunakerfa með tilliti til slitsjúkdóma, streitu og slysatíðni? Hver eru áhrif ákvæðislaunakerfa á samstarf fólks á vinnustað, á meðalstarfsaldur í viðkomandi grein og skiptingu í aldurshópa svo og á þátttöku yngra og eldra fólks í atvinnulífi?

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég legg til að till. minni verði vísað til allshn.