03.05.1980
Sameinað þing: 51. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

134. mál, geðheilbrigðismál

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 240 hef ég leyft mér ásamt þeim hv. þm. Salome Þorkelsdóttur, Davíð Aðalsteinssyni, Karli Steinari Guðnasyni, Stefáni Jónssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur, Jóni Helgasyni og Agli Jónssyni að flytja svo hljóðandi þáltill. um geðheilbrigðismál, skipulag og úrbætur:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að taka nú þegar til algerrar endurskoðunar öll geðheilbrigðismál hér á landi með tilliti til þess að byggt verði upp nýtt skipulag þessara mála.

Í þessu skyni skipi viðkomandi ráðh. nefnd til undirbúnings málinu þar sem m. a. aðstandendur geðsjúkra eigi fulla aðild.

Nefndin skili áliti fyrir árslok 1980. Brýnustu viðfangsefni, sem vinna þarf að ýmist samhliða nefndarstarfinu og í nefndinni sjálfri, eru þessi:

1) Veitt verði fé til lúkningar Geðdeildar Landspítalans á næstu tveimur árum og sá hluti hennar, sem tilbúinn er, tekinn í notkun nú þegar. Fjármagn verði veitt til ráðningar starfsfólks, svo deildin geti sinnt verkefni sínu að fullu.

2) Að aðstaða til skyndihjálpar og neyðarþjónustu verð bætt.

3) Fullkomnari göngudeildarþjónustu verði komið á.

4) Fjölgað verði vernduðum heimilum fyrir geðsjúka.

5) Sérstök áhersla verði lögð á aðstöðu fyrir unglinga með geðræn vandamál (12–16 ára), svo sem lög kveða á um.

6) Í stað fangelsisvistar geðsjúklinga komi viðeigandi umönnun á sjúkrastofnunum.

7) Reglur um sjálfræðissviptingu verði teknar til rækilegrar endurskoðunar.

8) Atvinnumál geðsjúkra verði í heild tekin til athugunar, m. a. með tilliti til verndaðra vinnustaða, nauðsynlegustu iðjuþjálfunar, endurhæfingar, þ. m. t. símenntunar og ráðgjafaraðstoðar til að komast út í atvinnulífið á ný.

Kannaðir verði allir möguleikar hins opinbera svo og atvinnurekenda til lausnar þessa vanda.

9) Kannað verði hvort stofna skuli embætti deildarstjóra við heilbrrn., sem fjalli sérstaklega um stýringu og skipulag geðheilbrigðismála. Sér til ráðuneytis hefði deildarstjórinn sérstaka stjórnarnefnd þar sem viðkomandi hagsmunaaðilar ættu fulla aðild.

10) Stóraukin verði almenn fræðsla um vandamál geðsjúklinga og aðstandenda þeirra svo og um eðli geðrænna sjúkdóma. Ráðgjafaþjónusta verði sem allra best tryggð.“

Till. þessi er, eins og sjá má, flutt af þm. allra flokka í samráði við stjórn Geðhjálpar, félags geðsjúklinga, aðstandenda og velunnara. Meginuppistaða grg. og rök fyrir till. eru sett fram af stjórn Geðhjálpar, og kunna flm. því fólki þakkir fyrir það starf.

Mjög er brýnt að gaumgæfa geðheilbrigðismál hér á landi. Í 1. gr. heilbrigðislaga frá 5. maí 1978 er kveðið svo á:

„Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita, til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.“

Vissulega er margt vel gert og við stöndum vel að vígi á ýmsum sviðum, en miður annars staðar, og svo er um geðheilbrigðismál. E. t. v. er það vegna þeirrar hulu sem hvílir yfir geðsjúkdómum sökum litillar umræðu og fræðslu um þessa sjúkdóma almennt, og þar af leiðandi er það ekki rætt að geðsjúkdómar þjái fólk, nema þá í flimtingum og glensi manna á meðal, því miður. Geðrænir sjúkdómar eru þó ein algengasta fötlun sem um getur.

Samkv. rannsókn, sem gerð hefur verið, þurfa 20% af íbúum hins vestræna heims að leita geðlæknis einhvern tíma á ævinni. Það þýðir að fimmtungur íslensku þjóðarinnar þarf einhvern tíma að leita geðlæknisaðstoðar. Þau vandamál, sem upp koma, eru mismikil og krefjast mismunandi meðferðar. En að hverju á svo þessi hópur að hverfa? Ágætri þjónustu á ýmsum sviðum, en því miður allt of fáum meðferðarplássum og umtalsverðum erfiðleikum þess vegna. Til að fá fullkomna þjónustu samkv. staðli heilbrmrn. eiga Íslendingar að hafa 4.8 „pláss“ eða sjúkrarúm á hverja 1000 íbúa fyrir fólk með geðræn vandamál, en í raun eru þau 1.9 á hverja 1000 íbúa á því herrans ári 1980.

Till. þessi er í raun og veru tvíþætt. Hún gerir ráð fyrir skipun nefndar sem hafi það að markmiði að taka öll geðheilbrigðismál til endurskipulagningar og þar sem leyst yrði úr ýmsum vandamálum til frambúðar. Hins vegar er bent á ýmis atriði sem knýja þannig á um úrbætur að á þeim er rétt að vekja sérstaka athygli og fá fram úrbætur svo fljótt sem mögulegt er, helst áður en Alþ. afgreiddi lagafrv. þessa efnis.

Skipan í nefnd til endurskoðunar geðheilbrigðismála er mjög nauðsynleg með tilliti til framtíðarstefnu og hagræðingar fyrir alla er hlut eiga að máli. Gildi þess, að aðstandendur eigi fulltrúa í nefndinni, er mikið, — aðstandendur þeir sem bera hita og þunga þess að koma sínum nánustu undir læknishendur og sjá hlutina frá öðru sjónarhorni en þeir sem starfa inni á geðdeildum undir stöðugu álagi sem sífellt rúmleysi, mikil neyð og mjög veikir sjúklingar skapa.

Í frekari grg. hér, sem ég ætla aðeins að stikla á helstu atriðunum í og gerð er mjög náin grein fyrir af hálfu stjórnar Geðhjálpar, er komið inn á rökstuðning fyrir hinum einstöku liðum þessarar tillögu.

Um fyrsta liðinn er sagt, að þörfin á opnun sjúkrarúma á Geðdeild Landspítalans sé mjög brýn. Kleppsspítalinn getur nú aðeins sinnt neyðarþjónustu, þ. e. tekið við þeim sjúklingum sem veikastir eru.

Á Kleppsspítalanum er mjög erfitt að hafa skipulagt biðlistakerfi vegna þessa. Það er ekki hægt að anna fleirum en þeim sem þurfa sjúkrahúsvist strax — bráðatilfellum.

Þar af leiðir að þeir sjúklingar, sem geta verið á heimilum með hjálp og fyrir tilstilli aðstandenda sinna, eru látnir bíða uns þeim hefur elnað svo að þeir eru fársjúkir og krefjast bráðainnlagnar og fá ekki þá þjónustu sem þeim ber samkv. heilbrigðislögum.

Tilfinningalegt álag aðstandenda er mjög mikið undir þeim kringumstæðum að sjá sinn nánasta veikjast meir og meir og hverfa frá raunveruleikanum, en geta lítið gert sökum aðstöðuleysis.

Tilkoma geðdeildarinnar mundi létta til muna þá fordóma sem sérlega aldrað fólk hefur gagnvart því að leita aðstoðar á geðdeild, sem ber nafnið Kleppur.

Til viðbótar þessu segir svo síðar í grg.:

„Opnun geðdeildar mundi tryggja það að sjúklingar yrðu ekki útskrifaðir of fljótt af geðdeildum, eins og nú vill því miður brenna við, vegna þess að nú er ástand þannig, að einungis er hægt að sinna mjög veikum og margir bíða veikir utan sjúkrahúsa. Þeir, sem útskrifaðir eru rétt þegar sjúkdómsástandið er í rénun, eru ekki í stakk búnir til að takast á við kaldan „hvunndagsheiminn.“ Nú liggja menn oft skemur en þyrfti á geðdeild til þess að hægt sé að rýma fyrir öðrum fársjúkum. Þetta eykur til muna líkur á að bati verði ekki verulega varanlegur og innlagnir og legudagar á geðsjúkrahúsi fleiri en vera þyrfti ef aðstaða væri til að veita lengri legutíma og betri hugsanlega þjónustu strax í upphafi.“

Svo kemur hér að athyglisverðu atriði sem hefur verið vakin rækileg athygli á að undanförnu: „Fangageymslur gista að jafnaði þrír geðsjúkir einstaklingar á nóttu hverri allan ársins hring, sem eru að bíða eftir „plássi“ á geðdeild eða vegna þess að sökum sjúkdómsins geta þeir ekki verið heima hjá sér, en fá ekki „pláss“ á sjúkrahúsi.“ — Það eru upplýsingar Bjarka Elíassonar sem hér eru hafðar til viðmiðunar.

Samkv. öllum kenningum nú á dögum er manneskjan andleg, líkamleg og félagsleg heild sem ekki er hægt að skilja að ef mesta möguleg vellíðan á að nást.

Síðan er vikið að hinum einstöku atriðum öðrum sem í till. felast.

Þar er bent á að neyðarþjónusta sé ekki sem skyldi, t. d. hvergi staður til að leita aðstoðar sérfróðra aðila utan venjulegs vinnutíma og ekki hægt að kalla út sérfróðan mann til aðstoðar á heimilum utan dagvinnutíma.

Það er einnig sagt, að Kleppsspítalinn sé eina geðsjúkrahúsið sem beri lagaleg skylda til að taka við veiku fólki hvaðan sem er og hvenær sem er, sjálfræðissviptu og í fylgd lögreglu. Geðsjúkir munu vera eini sjúklingahópurinn er þarf að fara í lögreglufylgd inn á sjúkrahús til meðferðar.

Heimilislæknar eru illa í stakk búnir til að geta greint og aðstoðað þá er til þeirra leita með geðræn vandamál. Þó hafa þeir reynt að koma sér upp fræðsluaðstöðu, umræðuhópum með sérfræðingum sér til aðstoðar, en vegna skorts á sérfræðikunnáttu og ráðgjöf verða vandamál, sem borin eru upp hjá heimilislæknum, að skyndilegum stórvanda sem krefst bráðainnlagnar strax.

Neyðarþjónusta ætti að verða til í tengslum við göngudeild.

Síðan er komið að hlutverki göngudeildarinnar nokkuð.

Æskilegt væri að göngudeild væri opin allan sólarhringinn. Nú er opin göngudeild á Kleppsspítalanum til kl. 19.00 og á Geðdeild Landspítalans til kl. 16.30 virka daga. En sjúklingar og þeirra nánustu þurfa að sjálfsögðu oft á hjálp að halda á kvöldin, nóttunni og helga daga. Á göngudeild er nú rekin þjónusta fyrir þá sem hafa legið inni á Kleppsspítala, en án eftirlits með hverjum einstökum, þannig að þangað leita aðeins þeir sem vilja. Það er ekki til starfslið til að hringja út þá sjúklinga, sem ekki mæta, né heldur mannafli til að fara á heimilin og fylgjast með þeim sjúklingum, er ekki sækja göngudeild, en það er oft fyrsta einkenni þess hjá mörgum sjúklingum að þeim sé að elna sóttin.

Um vernduðu heimilin fyrir geðsjúka segir svo:

„Til eru vernduð heimili og hafa þau gefist vel, en þeim þarf að fjölga í formi „áningarstaða“ milli heimilis og geðdeildar, þannig að sjúklingar aðlagist betur hinu daglega lífi á vernduðum stað.

Einnig er þörf á fleiri heimilum fyrir þá er geta ekki verið einir eða búið hjá fjölskyldu sinni, en geta unnið úti og séð um rekstur sameiginlegs heimilis undir eftirliti.

Einnig er brýn þörf á að leysa vanda geðsjúkra útigöngumanna með gistiaðstöðu og matargjöf til þeirra er hvergi eiga höfði sínu að halla.“

Um unglingavandamálið í þessu efni segir svo m. a. í grg.:

„Innlagningarþjónusta fyrir unglinga á aldrinum 12 16 ára með geðræn vandamál á háu stigi er mjög af skornum skammti, og eru þeir afskiptur hópur. Það er e. t. v. vegna þess að aukin sérhæfni samfélagsins og auknar skyldur unglinganna virðast minnka réttindi þeirra. Þeim finnst þeir útundan og það eykur á þunglyndi þeirra og erfiðleika í félagslegri aðlögun.

Ráðgjöf þeim til handa er mjög dreifð og þörfin á fleiri meðferðarheimilum og unglingageðdeild er alltaf að aukast.“

Þá kemur að þeim geðsjúklingum er sæta fangelsisvist. Þar er m. a. sagt:

„Stefna verður að því, að geðsjúklingar, er sæta fangelsisvist, séu vistaðir við þau skilyrði, er draga úr sjúkdómseinkennum þeirra, og farið sé að lögum í því efni. Frelsisskerðing er skref sem tekið er til öryggis vegna samborgaranna, en lokamarkið verður að vera að gera fangann að nýtum samborgara, ef mögulegt er.“

Þá er komið að hinum umdeildu reglum um sjálfræðissviptingu. Um það er ekkert sérstakt lagt til í þessari grg., en á það bent að réttur sjúklings er skertur við sjálfræðissviptingu og erfiðleikar aðstandenda, tilfinningalegir og félagslegir, eru miklir. Því hlýtur að teljast sjálfsagt að taka reglurnar til algerrar endurskoðunar í því skyni að finna þeim betra og manneskjulegra form. Í því efni er rétt að líta til reynslu annarra þjóða, þó að engin alhliða aðhæfing dugi í þeim efnum.

Atvinnumálum sjúklinga er gerð grein fyrir í nokkrum greinum hér. Ég ætla aðeins að tæpa á því helsta. Atvinnumál geðsjúkra eru í ólestri vegna þeirra erfiðleika sem eru á því að fá atvinnu fyllilega við þeirra hæfi er sjúkir eru. Vöntun er á vernduðum vinnustöðum, þar sem skipuleg iðjuþjálfun fer fram. Flestir þeir geðsjúklingar, er leita fyrir sér um vinnu, eru á umtalsverðum lyfjaskömmtum. Þess vegna vekja þeir athygli samstarfsmanna sinna. Þeir taka oft að sér störf er krefjast hraða og skarprar hugsunar, sem þeir vegna sjúkdóms síns geta illa valdið, og gefast því upp. Það brýtur niður sjálfsvirðingu einstaklings svo að honum finnst hann ævinlega fara halloka.

Einn verndaður vinnustaður er rekinn fyrir geðsjúklinga. Er það Bergiðjan í tengslum við Kleppsspítalann. Þar fer fram iðjuþjálfun að einhverju leyti. Þó er mikill fjöldi sjúklinga sem ekki getur nýtt sér þessa aðstöðu vegna þess að fjölda starfsmanna þarf að takmarka við stærð iðnaðarhúsnæðisins.

Það er líka bent á það í lokin hvernig stéttarfélögin koma inn í þetta mál, að taka atvinnumál geðsjúkra til endurskoðunar, ekki síður en varðandi hlut vinnuveitenda í þeim efnum eða hlut ríkisvaldsins.

Það þarf einnig að auka möguleika geðsjúklinga til símenntunar og fullorðinsfræðslu.

Síðan er vikið að níunda liðnum, varðandi það hvernig fara skuli með þessi mál í framtíðinni, og sagt: „Æskileg væri stofnun embættis við heilbrrn. Embættismanni þessum væri ætlað að sjá til þess, að mannréttindi séu ekki brotin á geðsjúklingum og þeir njóti þess, sem þeim ber samkv. lögum, að vera til aðstoðar og leiðbeiningar aðstandendum, að sjá um fræðslu allra þeirra sem um er að ræða: geðsjúkra, aðstandenda, starfsliðs geðsjúkrahúsa, almennings. Hann ætti einnig að vera oddamaður í ráði, skipuðu af öllum hagsmunaaðilum, sem sé til eftirlits, samræmingar og mats á því sem verið er að gera í geðheilbrigðismálum.

Komið verði á fót markvissri aðstandendafræðslu í formi námskeiða, svo sem fræðslunámskeið SÁÁ fyrir fjölskyldur.

Mjög er brýnt að auka alla fræðslu um geðsjúkdóma meðal almennings og einnig að auka þessa fræðslu til muna í framhaldsskólum, þannig að geðsjúkdómum sé gert þar jafnhátt undir höfði og öðrum kvillum, sem þar er getið.“

Opnun geðdeildarinnar er það mál sem brýnast er að leysa. Í húsi Geðdeildar Landspítalans er nú göngudeild þar sein koma mætti upp aukinni göngudeildarþjónustu og neyðarþjónustu. Einnig mundi það leysa mikinn hluta þess brýna vanda, er skortur sjúkrarúma skapar, og auka mjög möguleika á lausn annarra brýnna vandamála en hér eru talin. En á það verður aldrei lögð of þung áhersla að þessi mál séu öll rædd opinskátt og af fullri reisn, svo sem þeim ber.

Að lokum þetta: Það er ekki vandalaust að flytja till. á Alþ. um það viðkvæmnisvandamál sem geðheilbrigðismál eru. Ekki ætlum við flm. okkur þá dul, að í till. þessari sé að finna neina heildarlausn þessara mála. Nær væri að segja að hér væri verið að hreyfa við máli sem of sjaldan fær þá umræðu og athygli sem því er samboðin miðað við eðli og umfang þess. Svo margslungið er það og margbreytilegt, svo einstaklingsbundið með sín mörgu og ólíku sérkenni, að gagnvart fáu standa menn í raun jafnráðvana á lækningasviðinu. Þar við bætist að málið er þess eðlis að það jaðrar enn í dag við feimnismál og því skortir hreinskilni og víðsýni ærið oft í umræðum. Þeir, sem við vandann stríða, en hefðu möguleika á því öðrum fremur að vekja umræður, hefja málið ofar, bera sjaldnast vanda sinn á torg, á hvaða stigi sem er, og allt í einu verða svo umskiptin eða þau gerast smám saman og verða öllu yfirsterkari. Hins vegar leituðum við flm. styrks og aðstoðar hjá aðstandendum, sjúklingum og þeim sem umönnun og hjálp veita, enda er það félagsskapurinn Geðhjálp sem hefur knúið á um þessa tillögugerð, og hjá þeim félagsskap, í lifandi starfi hans, höfum við fengið að kynnast nýjum viðhorfum, nálgast vandann í raun. Það er formaður þess félags, Sigríður Þorsteinsdóttir hjúkrunarkennari, sem borið hefur hitann og þungann af grg. till. Við flm. gleymum í engu tilvist Geðverndarfélagsins og góðum hlut þess á liðnum árum, miklu starfi og óeigingjörnu í hvívetna. Við vonum einmitt að þessi tvö félög, sem að sama marki stefna, efli með sér samvinnu sem allra mest málstaðnum til framdráttar.

Við viljum með þessum flutningi leggjast hér á sveif. Það skal skýrt tekið fram, að öll upptalning till. er hvorki tæmandi né einhlít. Aðalatriðið er í okkar huga og þeirra sem standa að till., að málið fái allt rækilega meðferð í n., eins skjóta og unnt er, eins vel studda sérfræðilegum rökum og unnt er og eins vel verði að unnið af þeim sem vandinn snýr að öðrum fremur, sjúklingum sem aðstandendum, í þeirri nefnd og þannig megi áhuginn, skilningurinn og þekkingin haldast í hendur.

Ég hef heyrt aðfinnslur ýmissa nú þegar við þessa tillögugerð, hún sé yfirborðskennd, sé ekki studd nægilegum læknisfræðilegum forsendum og rökum, í upptalningu á viðfangsefnum sé fullt af sjálfsögðum hlutum, sem þó eru ekki sjálfsagðari en það, að þeir eru fæstir til í dag nema að hluta. Ég hef heyrt sérfræðilegar aths., sérstaklega um það sem á skorti, um það sem ofsagt er og það sem e. t. v. er verst: efasemdir um að slík mál eigi að ræða hér, það sé sérfróðra aðila einna að fjalla um þau. Ekki dreg ég úr gildi sérfræði en mikils þykir mér um vert að opna þessa umræðu sem mest og ekki síst hér, þar sem löggjöfin er sett, fjármagninu deilt, framkvæmdirnar ákveðnar. Þingnefndir, sérstök nefnd og alþm. almennt munu án efa gera sitt til þess að sérfræðin verði ekki útundan, þó að ég vilji einnig byggja á reynslu þeirra, sem hafa sigrast á vandamáli sínu, og þeirra, sem við hafa búið árum saman sem aðstandendur. Sérfræði er góð, en algild er hún ekki. Og þeir, sem nú gera aths. og kunna að eiga eftir að gera, ættu að athuga einnig hve vanmáttugir þeir eru í raun í mörgu enn, og það viðurkenna þeir bestu og víðsýnustu, sem eru að hjálpa fremur en gera tilraunir og rannsaka í nafni fræðigreinarinnar. Við eigum sem betur fer marga slíka og þeim ber sannarlega að þakka gott starf, en ekki síður hug sinn og hjartalag.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu með því að óska eftir að umr. þessari verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.