05.05.1980
Efri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti Félmn. hefur fjallað um frv., sem hér er til umr., og haldið um það marga fundi, enda er málið t;æði stórt og viðamikið. Hér er verið að setja löggjöf er snertir meira og minna allt vinnandi fólk í landinu. Í hverju einasta fyrirtæki sem hefur á að skipa tíu starfsmönnum eða fleiri, skal tilnefna fulltrúa vinnuveitenda og fulltrúa starfsfólks sem í samvinnu eiga að fylgjast með og gæta að því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi sé í samræmi við lög þessi Í fjölmennari fyrirtækjum skulu auk þessa vera starfandi öryggisnefndir sem skipuleggja aðgerðir og ráðstafanir er varða þessi mál og annast fræðslu starfsmanna. Jafnvel á fámennustu vinnustöðunum skal atvinnurekandinn eða verkstjóri hans, starfsmaður hans, stuðla að góðum aðbúnaði á vinnustað. Á þessu sést ljóslega hversu yfirgripsmikið mál er hér á ferð. Til viðræðu og upplýsinga boðaði nefndin á sinn fund fulltrúa hinna ýmsu aðila er hagsmuna hafa að gæta svo og fulltrúa þeirra aðila er unnu að gerð frv.

Í aths. við frv. er gerð ítarleg grein fyrir upphafi málsins og störfum þeirrar nefndar er vann við samningu frv. Þar er m. a. gerð grein fyrir því, að frv. er samið í framhaldi af sameiginlegum tillögum sem aðilar vinnumarkaðarins lögðu fram í kjarasamningum vorið 1977 um aðgerðir í vinnuverndarmálum og samþ. voru af þeim og ríkisstj. 19. apríl 1977. 22. júní 1977 ritaði forsrn. Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna bréf þar sem segir m. a.:

Ríkisstj. hefur ákveðið að skipa nefnd til að semja frv. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.“ Þessi nefnd var skipuð 14. sept. 1977 og áttu í henni sæti þrír fulltrúar frá Alþýðusambandinu, tveir frá Vinnuveitendasambandinu, einn frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og þrír fulltrúar er skipaðir voru af félmrh. Nefndin hafði samráð við fjölmargar stofnanir sem lögum samkv. hafa eftirlit á vinnustöðum hér á landi og vann nefndin samkv. því meginsjónarmiði að eftirlit með aðbúnaði og hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum yrði sem allra mest innan vinnustaðanna sjálfra, eins og ég gat um í upphafi.

Í frv. er í sambandi við samkomulagið frá 19. apríl 1977 lagt til að ein stofnun, Vinnueftirlit ríkisins, sjái um framkvæmd þessara laga. Er með því lögð rík áhersla á nauðsyn náins samstarfs allra þeirra aðila sem hafa eftirlít á vinnustöðum, til þess að komið verði í veg fyrir tvöfalt og oft margfalt eftirlit með sama þætti á vinnustað, eins og nú vill brenna við.

Af þessu er ljóst að þetta frv. er nánast hluti af kjarasamningum og samið af þeim aðilum sem þar áttu hlut að máli. Yrðu allar breytingar á frumvarpsgerðinni vandasamar og verður að gæta þess að ekki sé raskað því samkomulagi sem þeir, er stóðu að samningsgerðinni, hafa náð í frv.

Félmn. fjallaði mjög ítarlega um allar umsagnirnar sem henni bárust við frv., og urðu miklar umræður um ýmsa þætti þess, svo sem skipun öryggismannanna og öryggisnefndanna, hvíldartíma og frítíma, vinnu barna og unglinga, kostnaðarþættina og margt fleira. Auk þess var fjallað um hvernig þessi mál féllu að einstökum þáttum íslensks atvinnulífs. Var þar m. a. rætt um landbúnaðinn og mun ég gera grein fyrir því er ég fer yfir þær brtt. sem nefndin var sammála um að flytja. Þær brtt. eru á þskj. 404 og eru fimm.

Það er í fyrsta lagi breyting við 6. gr. frv. Þar segir að 1. málsl. mgr. skuli orðast svo:

Í fyrirtækjum, þar sem eru 50 starfsmenn eða fleiri, skal stofna öryggisnefnd.

Breytingin er í því fólgin, að í frv. er talað um að í fyrirtækjum, þar sem starfa 20 manns eða fleiri, skuli stofna svona nefndir. Nefndin varð sammála um að það yrðu að vera 50 starfsmenn vinnandi í fyrirtækinu til þess að öryggisnefnd væri stofnuð.

Önnur brtt. er við 50. gr., þar komi inn í ný mgr., sem verði 2. mgr. og orðist svo:

Nauðsynlegar og auðskildar leiðbeiningar á íslensku skulu fylgja með, um meðferð, viðhald, flutning, uppsetningu og frágang, þegar viðkomandi hlutir eru afhentir.

Hér er fjallað um að betri upplýsingar fylgi við afhendingu á vörum og þær skuli vera á íslensku þannig að öryggis sé betur gætt.

Þriðja brtt. er við 73. gr. 3. mgr. og orðist svo:

Vinnueftirlit ríkisins er sjálfstæð stofnun.

Það er felldur niður síðari hluti þessarar mgr., sem var svo:

„Vinnueftirlit ríkisins er sjálfstæð stofnun. Stofnunin hefur aðsetur í Reykjavík.“ — Fellt er niður að það skuli vera bundið í lögum að hún skuli vera í Reykjavík.

Fjórða brtt. er við 78. gr. Þar segir:

G-liður orðist svo: fjalla um öryggisþætti í áætlunum um vinnslu- og framleiðsluaðferðir, vinnustaði, tækni- og tækjabúnað og fleira. Einnig um notkun efna, þegar í lögum eða reglugerðum er mælt svo fyrir, að leyfi Vinnueftirlits ríkisins þurfi til.

Þarna er bætt inn í greinina að það sé fjallað um öryggisþætti í áætlanagerð. En eins og greinin var, þá var aðeins sagt: fjalla um áætlanir um vinnslu- og framleiðsluaðferðir o. s. frv. Þarna er talað um að það skuli fjalla um öryggisþætti í áætlunum, sérstaklega tekið fram.

Fimmta brtt. er við bráðabirgðaákvæði. Þar kemur inn í nýr liður, er verði 3. liður og orðist svo:

Félmrh. skal fyrir 1. júní 1981 setja reglugerð um þau ákvæði laga þessara, sem snerta landbúnaðinn.

Skal þar m. a. kveðið á um aðild Stéttarsambands bænda að ákvörðunum um þau ákvæði laganna er sérstaklega varða landbúnaðinn. Reglugerðin skal samin í samráði við stjórn Vinnueftirlits ríkisins, Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands.“

Í umsögn þeirri, sem Stéttarsamband bænda sendi um frv., segir m. a. að eðlilegast væri að hafa í lögunum sérákvæði varðandi landbúnaðinn er væru sniðin að sérstöðu hans í þessum málum öllum. Nefndin varð sammála um að landbúnaðurinn hefði vissa sérstöðu og við undirbúning málsins hefði samráð við fulltrúa landbúnaðarins ekki verið nægjanlegt, þyrfti að gefa þeim tækifæri til að hafa áhrif á hvernig aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi yrði hagað á vinnustöðum landbúnaðarins. Með því að setja þarna inn í þetta bráðabirgðaákvæði í væntanlegri reglugerð, að Stéttarsambandið eigi aðild að ákvörðunum um þau ákvæði laganna er sérstaklega varða landbúnaðinn, teljum við að nokkuð sé komið til móts við sjónarmið bænda í þessum málum. Mætti hugsa sér þessa aðild annaðhvort óbeina aðild að stjórn Vinnueftirlitsins, þar sem Stéttarsambandið ætti fulltrúa sem hefði tillögurétt og málfrelsi, eða þá að skipuð yrði sérstök samráðsnefnd þegar fjallað yrði sérstaklega um mál landbúnaðarins. En um það verður að fjalla nánar við samningu reglugerðar hvernig þeim málum verður best hagað og hvernig Stéttarsambandið eða fulltrúar landbúnaðarins geta haft áhrif á sín mál sem falla undir þessi lög.

Það hafði fallið niður við gerð brtt. að breyta í frv. dagsetningu sem fjallar um gildistöku laganna. Á þskj. 413 hefur verið séð við þessu, en þar koma til viðbótar nokkrar brtt. Þar fjallar ein brtt. um að lög þessi skuli öðlast gildi 1. jan. 1981. Þannig hefur verið séð við þeim mistökum, sem nefndinni urðu á, að láta ekki fylgja þeim brtt., sem hún var þó sammála um að standa að, hina nýju dagsetningu.

Nefndin er sem sagt sammála um að leggja til að frv. þetta verði samþ. með þeim brtt. sem hún stendur sameiginlega að og fluttar eru á sérstöku þskj. og ég hef nú gert grein fyrir.