05.05.1980
Efri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. það, sem við nú ræðum, fjallar um vinnuverndarmál. Hér er því um að ræða mjög mikilvæg löggjafarmálefni. Vinnuvernd varðar allt í senn: hag einstaklingsins, hag fyrirtækisins og hag þjóðarheildarinnar.

Markmið vinnuverndar er að fækka slysum og draga úr og koma í veg fyrir atvinnusjúkdóma. Vinnuverndin felur í sér bætt vinnuumhverfi, bætta aðstöðu af ýmsu tagi og að hæfileikar einstaklingsins fái notið sín.

Allt er þetta einnig til hagsbóta fyrirtækjunum. Því er eðlilegt að fyrirtækin beri kostnað af tæknilegum og stjórnunarlegum umbótum sem nauðsynlegar eru í vinnuverndarmálum. Það er því ekki að ófyrirsynju að báðir aðilar vinnumarkaðarins, launþegasamtökin og atvinnurekendasamtökin, láti sig þessi mál skipta. Og fyrir tilstuðlan aðila vinnumarkaðarins ber nú þessi mál einmitt að í formi þess frv. sem hér er á dagskrá.

Það er nauðsynlegt að setja reglur um skipulag, tilhögun og framkvæmd vinnu til að halda megi upp öflugu og markvissu vinnuverndarstarfi. Slíkar reglur mynda að verulegu leyti ramma um starfið í fyrirtækjunum og starf þeirra aðila sem þjóðfélagið felur ráðgjöf og eftirlit í þessu efni. Slíkar almennar reglur eiga jafnframt að tryggja sem hagkvæmasta lausn samkynja vandamála í fyrirtækjum alls staðar á landinu og því fylgir í sjálfu sér hagfræði. Það er líka mikið öryggi fyrir eigendur fyrirtækja að vita hvar þeir standa og til hvers er ætlast af þeim. Slíkar almennar reglur varða fyrirkomulag vinnustaða og vinnuumhverfið sjálft. Hér koma og sérstaklega til vélar og hvers konar tækjabúnaður. Vinnuverndin varðar eftirlit með framleiðslu og innflutningi ýmiss konar véla og verkfæra og samræmingu krafna sem gerðar eru um öryggisbúnað og eiginleika þeirra. Einnig lætur vinnuverndin til sín taka notkun eiturefna og hættulegra efna á vinnustöðum í ríkari mæli en áður. Kemur þar bæði til aukin vitneskja um hættur af völdum efnanna, en einnig stóraukin notkun samfara breyttum atvinnuháttum. Hóflegur vinnutími og vinnuálag er mikilvægur þáttur í vinnuvernd. Við störf, sem sérstök hætta fylgir óhjákvæmilega, getur verið mikil ástæða til að takmarka vinnutíma frekar en almennt gerist, svo sem þar sem lofthiti, loftraki eða geislunarhiti er utan viðtekinna marka, og vinnu þar sem sérstakrar einbeitni og árvekni er þörf. Vinnuvernd lætur og til sín taka eðlilegar takmarkanir á vinnu og vinnutíma barna og unglinga. Síðast en ekki síst hlýtur heilsuvernd starfsmanna að verða mjög mikilvægur þáttur í skipulagi og framkvæmd vinnuverndar. Atvinnusjúkdómavörnum þarf að koma við með markvissum og skipulögðum hætti.

Þetta eru ekki ný viðfangsefni í landi okkar. Við höfum á okkar hátt verið að fást við þessi mál um langan aldur. Þannig hefur Öryggiseftirlit ríkisins nú starfað í hálfa öld. Brunavarnir hafa verið um langan aldur með skipulögðum hætti. Fengist hefur verið á síðari árum við mengunarmál í mörgum samböndum. Og þá má ekki gleyma hinum mikilvæga þætti heilsuverndar og heilbrigðiseftirlits sem náð hefur til aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustöðum.

Á öllum þessum sviðum hefur verið unnið mikið og merkilegt starf. Samt sem áður hafa menn fundið að ekki væri nóg að gert í þeim efnum sem varða vinnuverndina.

Kemur þar margt til. En sú gagnrýni hefur jafnvel frekar verið fólgin í skipulagi þessara mála en að slæleg væri framkvæmd á þeirri löggjöf sem sett hefur verið um þessi efni. Mælt hefur verið fyrir um aðgerðir til vinnuverndar í mörgum lögum. Margar stofnanir hafa farið með þessi mál undir yfirstjórn margra rn. Af þessu hefur leitt að aðgerðir til vinnuverndar í landinu hafa ekki verið undir markvissri og hnitmiðaðri yfirstjórn. Til þessa hafa menn rakið margt sem vangert og ógert er í vinnuverndarmálunum. Þetta hefur orðið þeim mun meira áberandi sem tækni, þekkingu og margbreytileik atvinnulífsins hefur farið fram.

Það var við þessar aðstæður sem aðilar vinnumarkaðarins létu til sín taka vinnuverndarmálin við kjarasamningana vorið 1977. Eins og hér hefur áður verið vikið að af hv. frsm. n. lögðu aðilar vinnumarkaðarins fram sameiginlegar tillögur um aðgerðir í vinnuverndarmálum sem samþ. voru af þeim og ríkissj. 19. apríl 1977. Í samræmi við þetta samkomulag skipaði ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar nefnd til að semja frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eins og það var orðað í bréfi forsrh. 22. júní 1977 til Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumálasambands samvinnufélaganna og Alþýðusambands Íslands. Það er árangurinn af starfi þessarar nefndar sem við höfum nú fyrir framan okkur í frv. því til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem við nú ræðum.

Í frv. þessu er fjöldi nýmæla, eins og frv. ber með sér og vikið hefur verið að áður. En meginstefnumörkun frv. er fólgin í tvennu: Annars vegar að eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi verði sem allra mest innan fyrirtækjanna sjálfra og atvinnurekendur og starfsmenn skipuleggi sameiginlega ráðstafanir á vinnustöðum er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hins vegar er eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk hins opinbera sameinað undir eina stofnun, Vinnueftirlit ríkisins, sem eingöngu fjallar um vinnueftirlit og skyld málefni. Hér er um grundvallarbreytingu að ræða frá þeirri skipan sem nú er og eru aðilar vinnumarkaðarins sammála um að gera þá breytingu.

Við meðferð þessa máls hefur komið fram andstaða við þessa höfuðstefnumörkun frv. Af hálfu Heilbrigðiseftirlits ríkisins er því haldið fram að það sé röng stefna að setja atvinnusjúkdómavarnir undir sömu stjórn og aðra vinnuvernd það sé röng stefna, sem í frv. felst, að vinnuvernd og atvinnuheilbrigðismál séu látin falla undir félagsmál. Sjúkdómsástand er hljótist af atvinnu sé og verði alltaf heilbrigðisvandamál. Það sé annað mál, að sjúkdómur geti haft í för með sér félagsleg vandamál, bæði fyrir þann sjúka, aðstandendur og samfélagið í heild. Því sé ljóst að vinnuvernd og atvinnuheilbrigðismál skari tvo málaflokka, þ. e. félags- og heilbrigðismál. Það er varað við þeirri stefnu frv. að færa atvinnusjúkdómavarnir undir stjórn Vinnueftirlits ríkisins inn á vinnustaðina þar sem þá ljúki afskiptum heilbrigðisnefnda í landinu af vinnustöðum og eftirlitið verði minna en áður. Þá er bent á að heilbrigðisyfirvöldum og heilbrigðiseftirliti sé ekki ætlað að móta stefnuna í atvinnusjúkdómavörnum. Þessum málum væri betur fyrir komið á þann veg, að heilsugæslulæknar og heilbrigðisyfirvöld mótuðu stefnuna í atvinnusjúkdómavörnum, eins og þeim ber samkv. núgildandi lögum.

Hér er deilt um hvort þau verkefni, sem frv. þetta ætlar Vinnueftirliti ríkisins, heyri undir eina eða tvær stofnanir. En frv. þetta er í samræmi við samkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 1977 um að ein eftirlitsstofnun sjái um framkvæmd þessara mála. Jafnframt gerir frv. ráð fyrir að heilsuverndarkerfið, sem fyrir er, verði hagnýtt við atvinnusjúkdómavarnirnar, bæði heilsugæslustöðvar og sjúkrahús, og samráð verði haft við heilbrigðisyfirvöld um framkvæmd þessara mála.

Við sjálfstæðismenn í hv. félmn. deildarinnar teljum að rétt hefði verið að freista þess að samræma hin mismunandi sjónarmið varðandi atvinnusjúkdómavarnirnar. Til þess hefði greinilega þurft lengri tíma en völ var á ef afgreiða á málið á þessu þingi. Þess vegna teljum við að hyggilegra hefði verið að fresta málinu til næsta hausts og nota tímann til þess m. a. að athuga þennan þátt frv. betur.

Alveg sérstök ástæða var til að hafa slík vinnubrögð þegar þess er gætt, að einmitt nú er verið að endurskoða lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Árið 1978 skipaði þáv. heilbr.- og trmrh., Matthías Bjarnason, nefnd til að endurskoða þessi lög og er því verki nú svo langt komið að því mun ljúka innan nokkurra vikna, ef ekki nokkurra daga, eftir því sem mér er tjáð. Það væri að mínu viti nauðsynlegt að hafa hliðsjón af hinu nýja frv. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit þegar gengið yrði frá því frv. sem við nú ræðum og það lögfest, vegna þess að mest er um vert að fullt samræmi sé milli þessara tveggja frv. til að koma í veg fyrir skörun og fá eðlilega lausn á þeim ágreiningi, sem ég hef lýst, um atvinnusjúkdómavarnirnar.

En það er ýmislegt fleira sem ástæða hefði verið að athuga nánar í frv. þessu en kostur hefur verið á. Ég nefni í þessu sambandi það sem varðar landbúnaðinn í landinu. Það er svo, að við samningu þessa frv. virðist, og er ekkert óeðlilegt, að frekar hafi verið höfð hliðsjón af þeim aðstæðum sem ríkja í öðrum atvinnuvegum, iðnaði sérstaklega, en þeirri aðstöðu sem er sérstök fyrir landbúnaðinn í landinu. Það hefði þess vegna verið full þörf á að athuga þetta frv. allmiklu nánar með tilliti til sérstöðu landbúnaðarins. Í umsögn, sem hv. félmn. fékk frá Stéttarsambandi bænda, kemur einmitt þetta sjónarmið bænda fram.

Ég tel að til bóta sé brtt. frá félmn. á þskj. 404 varðandi þessa hlið málanna, 5. brtt., þar sem gert er ráð fyrir að samráð verði haft við Stéttarsamband bænda þegar sett verður reglugerð sem snertir landbúnaðinn, og ég er þess vegna fylgjandi þeirri brtt.

En það kom nokkuð til umræðu í félmn., hvort ekki kæmi til greina að bændur fengju beina aðild að stjórn Vinnueftirlits ríkisins og litið yrði á þá á sama veg og aðra aðila vinnumarkaðarins eða þá aðila sem venjulega ganga undir því heiti. Það kom engin bein tillaga um þetta fram. g hygg að öllum í hv. félmn. hafi fundist slíkt, og mér fannst í þessu efni að málið þyrfti að athuga allmiklu betur til að gera tillögu sem þessa á þessu stigi málsins.

Ég vil þá víkja að öðru atriði sem ég hygg að hefði þurft verulega meiri athugunar við. Þar á ég við spurninguna um Brunamálastofnun ríkisins og afstöðu hennar í þessu sambandi. Það verður að segjast eins og er, að það eru óljós öll ákvæði í frv. þessu um verkaskiptingu milli Vinnueftirlits ríkisins og Brunamálastofnunar ríkisins. Þó verður ráðið af frv. að gert er ráð fyrir að a. m. k. verði hluti af þeim verkefnum, sem Brunamálastofnunin hefur núna með höndum, fluttur til Vinnueftirlits ríkisins, þar sem m. a. er gert ráð fyrir að það verði mynduð sérstök brunamáladeild innan Vinnueftirlits ríkisins. En í frv. eða grg. með því eru engar upplýsingar um hvað af verkefnum Brunamálastofnunarinnar eigi að færa til Vinnueftirlits ríkisins.

Það kann að vera að það sé töluvert mikið álitamál hvað eigi að gera í þessum efnum. Manni kemur til hugar að það, sem frekast kæmi til greina að flytja af verkefnum frá Brunamálastofnuninni til Vinnueftirlits ríkisins, sé eftirlit með notkun eldfimra efna á vinnustöðum, en það er veigamikill þáttur í eftirlitsstarfi Brunamálastofnunarinnar. Þá mundu verða eftir hjá Brunamálastofnuninni verkefni svo sem eftirlit með hönnun og gerð bygginga og yfirumsjón með slökkvistarfi.

Ég hef heyrt fleygt þeirri hugsun að það væri rétt að setja öll verkefni Brunamálastofnunarinnar undir Vinnueftirlit ríkisins. Ég fyrir mitt leyti tel að það sé ekki rétt og að meðal verkefna Brunamálastofnunarinnar séu slík störf sem eru allsendis óskyld vinnuvernd.

Það sýnist vera eðlilegt að skipta verkefnunum á milli Brunamálastofnunar ríkisins og Vinnueftirlits ríkisins. En þetta er eitt af því sem hefði þurft að athuga miklu nánar en n. hafði kost á að gera.

Ég vek athygli á í þessu sambandi að n. barst í hendur álit eða skýrsla frá brunamálastjóra þar sem voru ábendingar eða tillögur um tiltekin efni sem miðuðu að því að treysta stöðu Brunamálastofnunarinnar með því að halda innan þeirrar stofnunar meiri verkefnum en brunamálastjóri taldi að frv. gerði ráð fyrir. Nefndin treysti sér ekki til að taka afstöðu til tillagna brunamálastjóra og gerði engar af hugmyndum eða tillögum hans að sínum. En það þarf ekki að segja það að n. hafi endilega verið andvíg einstökum, hvað þá öllum þeim tillögum sem þarna komu fram, heldur ber afstaða nefndarinnar vott um það hve mál þetta er margslungið og að það þurfti viðameiri og betri athugun en komið varð við.

Þá er eitt atriði sem má segja að gott hefði verið að geta athugað nánar. Þar á ég við hvernig ætti að mynda og hverjir ættu að mynda stjórn Vinnueftirlits ríkisins, þessarar nýju ríkisstofnunar. Ég vék að því áðan í sambandi við landbúnaðinn að það gæti komið til greina að veita samtökum bænda beina aðild að stjórn Vinnueftirlitsins. En fleira kemur til og m. a. spurning um hvort ætti einnig að taka tillit til fleiri aðila vinnumarkaðarins í þessu efni en frv. gerir ráð fyrir, þ. e. Alþýðusambands Íslands, sem gert er ráð fyrir samkv. frv. að tilnefni þrjá menn í stjórn Vinnueftirlitsins, Vinnuveitendasambands Íslands, sem gert er ráð fyrir að tilnefni tvo menn, og Vinnumálasambands samvinnufélaga, sem gert er ráð fyrir að tilnefni einn mann. Það er spurning um hvort hér sé ekki nauðsynlegt að kveðja til aðila eins og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, fjöldasamtök sem hafa afgerandi áhrif og hagsmuna að gæta í öllu sem varðar vinnuvernd.

Ef Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja er veitt aðild vaknar sú spurning hvort því eigi ekki að fylgja að Sambandi ísl. sveitarfélaga, samtökum sveitarfélaga í landinu, sé einnig veitt aðild að þessari stjórn. Byggist það þá á þeirri hugsun, sem skipun stjórnarinnar hvílir á samkv. frv. sjálfu, að það yrðu báðir aðilar vinnumarkaðarins, það yrðu bæði launþegar og atvinnurekendur sem eiga aðild að stjórninni. En sveitarfélögin í landinu eru náttúrlega, sem ekki þarf að taka fram, mjög þýðingarmikill aðill á vinnumarkaðinum sem atvinnurekendur.

Auk þessa er á það að líta að ekki er óeðlilegt af öðrum ástæðum að sveitarfélögin hafi aðild að stjórn Vinnueftirlits ríkisins. Þetta er ekki óeðlilegt ef við höfum í huga að samkv. frv. er gert ráð fyrir að sumt af starfsemi Heilbrigðiseftirlitsins í landinu, sem er á vegum sveitarfélaganna, hverfi frá þessum aðilum, til hinnar nýju stofnunar. Það hefur verið m. a. fært sem rök gegn þessum tillögum frv. að sveitarfélögin væru svipt eðlilegum áhrifum á gang þýðingarmikilla mála. En það mundi vera gengið að einhverju leyti til móts við þessi sjónarmið ef sveitarfélögin, heildarsamtök þeirra, fengju aðild að stjórn Vinnueftirlitsins.

Það er líka eitt verkefni sem stjórn Vinnueftirlitsins eða Vinnueftirlitinu er fengið í hendur, sem varðar leyfisveitingar til atvinnurekstrar, og það eru mál sem varða að sjálfsögðu sveitarfélögin í landinu hvert á sínum stað ákaflega miklu. Þannig renna ýmsar stoðir undir þá hugmynd að sveitarfélögin eða samtök þeirra fái aðild að stjórn Vinnueftirlitsins.

Ég hef hér talað um aðila vinnumarkaðarins. Í frv., sem hér liggur fyrir, er víða talað um aðila vinnumarkaðarins. Það er ekki óeðlilegt að spurt sé að því, hverjir séu þessir aðilar vinnumarkaðarins. Algengasta merkingin er sú, að það séu Alþýðusambandið annars vegar og hins vegar Vinnuveitendasambandið og Vinnumálasamband samvinnufélaganna. Ég hygg að í frv., þegar talað er um aðila vinnumarkaðarins, sé þetta haft í huga, enda gerir frv. sjálft ekki ráð fyrir að aðrir aðilar eigi hlutdeild að eða skipi fulltrúa í stjórn Vinnueftirlits ríkisins.

Sú spurning vaknar hvort eðlilegt sé að setja löggjöf sem varðar aðeins þessa aðila vinnumarkaðarins, og lögfesta samkomulag, sem þessir aðilar hafa gert sín á milli. Það hefur verið hreyft þeim sjónarmiðum, að það væri óeðlilegt að binda heildarlöggjöf um vinnuvernd við þessa aðila vinnumarkaðarins í þröngum skilningi. Ég hygg að þetta sjónarmið eigi rétt á sér og það er í samræmi við það sem ég tel rétt að taka inn í stjórn Vinnueftirlits ríkisins fulltrúa bæði frá BSRB og Sambandi ísl. sveitarfélaga og gæti komið til greina að taka aðila frá landbúnaðinum. En ég tel að þó að slíkt sé gert sé á engan hátt veikt það samkomulag, sem Vinnuveitendasambandið og Vinnumálasamband samvinnufélaganna hafa gert í þessu efni við Alþýðusambandið, og breyti ekki í neinu því samkomulagi sem þetta frv. byggist á.

Ég er hér að tala um ýmis atriði sem hefði verið æskilegt að fengju nánari meðferð og athugun. Að lokum skal ég víkja að einu, og það er ekki sísta atriðið því það varðar kostnaðinn að þeim aðgerðum sem frv. þetta felur í sér.

Það er rétt að vekja athygli á því, að í grg. frv. er ekkert að finna um þessi efni. Þar eru engar upplýsingar um þessi efni. Nefndin leitaði til fjárlaga- og hagsýslustofnunar til að freista þess hvort þaðan væri hægt að fá einhverjar hugmyndir um þessi efni. En í erindi, sem fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur sent hv. félmn., er sagt að sú stofnun sjái sér ekki fært að gefa neinar hugmyndir um þetta efni. Slíkt er að sjálfsögðu ekki gott. Þetta er eitt af þeim atriðum sem skjóta stoðum undir það viðhorf að hyggilegt hefði verið að fresta afgreiðslu þessa máls þannig að það væri borið fram á ný í haust og afgreitt fyrir áramót, þannig að það yrði ekki fyrir töfum miðaðviðaðgildistakalagannayrði 1. jan. næstkomandi.

Hér er um að ræða að vanda vinnubrögð í þeim tilgangi að gera allt sem fært er til að stuðla að því að með þessari löggjöf verði náð sem bestum árangri. En nú hefur það æxlast svo, að hæstv. ríkisstj. hefur lagt áherslu á að ljúka þessu máli á þessu þingi. Ég geri mér grein fyrir því, að það er sjónarmið út af fyrir sig og viss rök færð fyrir þeirri afstöðu, þó að ég meti þau rök ekki jafnmikilvæg og það sjónarmið sem ég hef hér sett fram um frestun.

Ég vil svo árétta það sjónarmið, að rétt hefði verið að fresta málinu og athuga það betur með því að þann tíma hefði mátt nota til að kynna málið betur en gert hefur verið félagsmönnum aðila vinnumarkaðarins. Ég er ekki með þessum orðum að gera neitt lítið úr því sem kann að hafa verið gert í þessu efni. En mér er kunnugt að það má gera betur.

Ég bendi einnig á það, sem ég hefði átt að gera þegar ég ræddi um Brunamálastofnun ríkisins, að nú er starfandi nefnd, skipuð af félmrh. á síðasta ári, til að endurskoða lög um Brunamálastofnun ríkisins. Og það gildir sama um þá endurskoðun og það sem ég sagði um endurskoðun á lögum um hollustuhætti og heitbrigðiseftirlit, að það hefði farið ákaflega vel á því að það hefði verið hægt að athuga öll þessi frv. sameiginlega.

Ég sagði að ríkisstj. hefði lagt áherslu á að afgreiða þetta mál. Og með tilliti til þess, hve við sjálfstæðismenn teljum þetta mál merkilegt og mikilvægt, viljum við ekki gera neina tilraun til að bregða fæti fyrir framgang þess þannig að það verði afgreitt á þessu þingi. En við höfum viljað reyna að freista þess að ná fram breytingum á frv. sem við teljum augljóst að horfi til bóta. Ég vil taka fram, að í hv. félmn. hefur verið góð samvinna um þessa viðleitni og enginn ágreiningur milli fulltrúa flokka um að reyna að gera breytingar sem menn teldu að gætu verið til bóta. Þetta kemur fram í brtt. sem fram hafa verið bornar við frv. Það eru brtt. frá félmn. á þskj. 404 og brtt. frá Guðmundi Karlssyni og Salome Þorkelsdóttur ásamt mér á þskj. 413.

Í framhaldi af því, sem ég sagði áðan, að það hefði engin pólitísk togstreita verið innan nefndarinnar um að reyna að bæta þetta frv., vil ég skýra frá því, svo engum misskilningi valdi, að þegar n. var að ræða hugsanlegar brtt. flokkuðust saman sumar till. sem voru þess eðlis að það hafði enginn nm. neitt við neina þeirra að athuga. Það varð samkomulag um flutning þessara brtt. Það eru þær till. sem félmn. flytur á þskj. 404 og hv. frsm. n. hefur þegar skýrt. En eftir þetta hafði ég forustu um að fluttar væru tillögur varðandi þau mál sem brtt. á þskj. 413 bera mér sér. Það voru mál sem hafði verið hreyft á fundum n., en einhver aths. komið fram við. Það var gengið frá þessum tillögum nú rétt fyrir hádegið og þær eru hér í fjölrituðu formi. Ég hefði gjarnan viljað ná til fleiri nm. og freista þess að fá þá sem meðflm. að þessum tillögum. Mér er kunnugt núna að sumir nm., sem ekki eru flm. að þessum tillögum, eru fylgjandi þeim sumum og jafnvel öllum. — Þetta vildi ég að hér kæmi fram svo ekki ylli neinum misskilningi. Raunar ber þetta vott um að þessar tillögur séu harla góðar. Skal ég nú víkja nokkrum orðum að þeim.

Fyrsta tillagan á þskj. 413 er við 55. gr. frv. Í 55. gr. frv. er ákvæði um það, að m. a. af hverju sjö daga tímabili skuli starfsmenn fá a. m. k. einn vikulegan frídag sem tengist beint samfelldum daglegum hvíldartíma. Það er rætt um og kveðið svo á, að að svo miklu leyti sem því verði við komið skuli vikulegir frídagar vera á sunnudegi og að að svo miklu leyti sem því verður við komið skuli allir þeir, sem starfa í fyrirtækjum, fá frí á þeim degi. Og þá er tekið fram að ef nauðsyn krefur megi fresta vikulegum frídegi og gefa þess í stað frí síðar. Um það eru svo nákvæmari ákvæði í greininni, með hverjum hætti þetta sé gert. En síðar í greininni segir: „Aðilar vinnumarkaðarins skulu gera með sér samkomulag um framkvæmd þessarar greinar.“ En þar á eftir kemur lokamálsgrein. Sú mgr. er á þessa leið: „Slíkt samkomulag aðila vinnumarkaðarins skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins, sem bannar frávik, ef stofnunin telur, að ekki séu nægar ástæður fyrir tilfærslu frídaga.“

Fyrsta brtt. á þskj. 413 er um að síðasta mgr. falli niður. Það byggist á því, að við teljum að eðlilegt sé að það fái að standa ef aðilar vinnumarkaðarins hafi komið sér saman um þessi efni og þetta geti verið mikilvægt, einkum úti um landsbyggðina, þar sem aðilar vinnumarkaðarins á staðnum eru nákunnugastir staðháttum og aðstæðum, og ef þeir hafa komið sér saman geti ekki stofnun í Reykjavík rift því samkomulagi. Þetta liggur til grundvallar þessari brtt. Ég er ekki að gefa í skyn að Vinnueftirlit ríkisins mundi leggja það í vana sinn að rifta samkomulagi sem gert er milli aðila vinnumarkaðarins, en okkur þykir engin ástæða til að það sé samt sem áður möguleiki á því.

Þá er það önnur brtt. á þskj. 413. Hún er við 73. gr. frv. um að 4. mgr. orðist svo sem þar segir. Hér er um það að ræða, að í frv. er gert ráð fyrir að ráðh. skuli skipta Vinnueftirliti ríkisins í deildir, svo sem rekstrardeild, eftirlitsdeild, fræðslu- og upplýsingadeild, brunamáladeild, atvinnusjúkdómadeild, heilsugæsludeild o. fl. Við teljum að það sé ekki rétt að slá þessu svo föstu á þessu stigi málsins. Ég skírskota í því sambandi til þess sem ég hef áður sagt um nauðsyn frekari athugunar í ýmsum efnum. Þess vegna leggjum við til að þessu ákvæði verði breytt þannig að ráðh. er heimilt að skipta stofnuninni í deildir að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar.

Þriðja brtt. á þskj. 413 er við 74. gr. frv. Hún fjall ar um mál sem ég hef þegar vikið að og rætt nokkuð um, spurninguna um hvort eigi að veita BSRB og Sambandi ísl. sveitarfélaga aðild að stjórn Vinnueftirlitsins. Í samræmi við þær skoðanir, sem ég túlkaði áðan um þetta efni, leggjum við til að þetta verði gert. Og þriðja brtt. á þskj. 413 fjallar um þetta efni.

Þá kem ég að fjórðu brtt. og hún sr við 77. gr. frv. Hún er um að 4. mgr. 77. gr. falli niður. Þessi 4. mgr. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Það, sem á kann að vanta, að framangreindir tekjustofnar nægi til þess að standa undir rekstrinum, greiðist úr ríkissjóði.“

Nú er samkv. þessari grein gert ráð fyrir að staðið verði undir kostnaði við Vinnueftirlit ríkisins þannig:

1) Með iðgjöldum sem reiknist af sama stofni og slysatryggingagjald og það verði greitt af atvinnurekendum.

2) Með tekjum af skrásetningar- og eftirlitsgjöldum sem gert er ráð fyrir að stofnunin hafi heimild til þess að taka.

Við, sem flytjum brtt. nr. 4 á þskj. 413, teljum að þetta eigi að nægja og að það sé óviðfelldið að það sé án takmarkana eða að forminu til hægt að leita í ríkissjóðinn ef þetta nægir ekki. Þess vegna leggjum við til að 4. mgr. 77. gr. falli niður.

Þá kem ég að fimmtu brtt. á þskj. 413. Það er brtt. við 100. gr. frv. Það er um að lögin öðlist gildi 1. jan. 1981. Hv. frsm. n, hefur þegar vikið að þessari brtt. Hann sagði að það hefði gleymst að koma þessu inn í till. n. í heild. Þar erum við allir jafnt í sök. Við gleymdum því allir. Þegar ég var að ganga frá þessum brtt. nú rétt fyrir hádegið tók ég eftir þessu og setti það að sjálfsögðu hér inn. Þetta hygg ég að hljóti að vera ágreiningslaust og þurfi ekki umræðna við.

Þá kem ég að 6. tölul. á þskj. 413. Það eru brtt. við bráðabirgðaákvæði. Það eru tvær brtt. Það er annars vegar brtt. við 3. tölul. bráðabirgðaákvæðanna, en þar er kveðið svo á að Seðlabanki Íslands skuli árlega á næstu fimm árum útvega fjármagn, 300 millj. kr. á ári miðað við verðlag 1. jan. 1979, til lánveitinga til fyrirtækja sem þurfa að framkvæma endurbætur á vinnuaðstöðu starfsfólks. Við teljum að þetta ákvæði sé mikilvægt. Það er ekki nóg að tala um að það þurfi að bæta ástandið og setja lög um það ef ekki eru gerðar ráðstafanir til að gera þeim aðilum, sem þurfa að framkvæma þetta, mögulegt að koma umbótum í verk. Með tilliti til þessa er réttilega ákvæði um þetta í frv. sjálfu. En þar er talað um 300 millj. Okkur þykir að þá sé heldur naumt skammtað. Við vitum að vísu að það eru takmörk fyrir því hvað kann að vera hægt að gera í þessu efni, en okkur blandast ekki hugur um að það sé bæði hægt og rétt að gera meira en frv. gerir ráð fyrir. Þess vegna leggjum við til að þessi upphæð, 300 millj. kr., verði hækkuð í 500 millj. kr.

Ég kem þá að lokabrtt., síðari liðnum í 6. brtt. á þskj. 413, við bráðabirgðaákvæði frv. Samkv. þessari brtt. er gert ráð fyrir að Það komi nýr tölul. í ákvæðum til bráðabirgða sem orðist svo , með leyfi hæstv. forseta:

„Lög þessi skal endurskoða í samráði við aðila vinnumarkaðarins og stjórn Vinnueftirlits ríkisins eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þeirra.“

Ég þarf ekki nú að færa rök fyrir þessari brtt. Ég hef allítarlega vakið athygli á því, að það hefði farið betur á því að athuga þetta mál gaumgæfilegar en gert hefur verið áður en verði gengið frá afgreiðslu þess. Í samræmi við þessa skoðun teljum við sjálfstæðismenn eðlilegt og viljum leggja á það áherslu að ekki líði langur tími þar til þessi löggjöf verði endurskoðuð. Við tökum fram í till. okkar að það líði ekki lengri tími en fimm ár, en við teljum að það væri æskilegt að það liði skemmri tími og verulega skemmri tími.

Ég hef þá, herra forseti, lokið við að íýsa brtt. á þskj. 413 og hef lokið máli mínu að öðru leyti.