05.05.1980
Efri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (2193)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það er fagnaðarefni að frv. þetta um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skuli vera komið úr nefnd, en nefndin sem hafði með það að gera, hefur unnið mjög mikið í því, borist fjöldi umsagna og hefur verið reynt að skoða frv. eins og tök hafa verið á.

Frv. tekur til hundrað greina og var samið af nefnd sem félmrh. skipaði á sínum tíma og skipuð var aðilum vinnumarkaðarins, fulltrúa rn. o. fl. Það er mitt mat að nefndin hafi unnið mjög gott starf.

Samstöðunnar vegna er ég aðili að því áliti sem félmn. gaf út. Ég hélt, þegar við vorum að vinna að brtt., að alger samstaða væri um þessar breytingar og það hefði verið samstaða um það einnig að láta annað kyrrt liggja. Því fór fyrir mér eins og Ólafur Ragnar Grímsson kvað um sig, að ég kom ekki með aðrar brtt. Ég hefði þó getað fallist á að hækka framlagið sem getið er um í bráðabirgðaákvæðunum. Ég tel að þær till., sem hafa komið fram frá fulltrúum Sjálfstfl. í n., breyti sáralitlu, og tel ég því ástæðulaust að amast við þeim, það sé í lagi að samþ. þær.

Það hefur verið farið mörgum orðum um þetta frv. og rætt um að lítið samband hafi verið haft við bændur. Reyndar segir í áliti eða umsögn Stéttarsambands bænda að ekkert samráð hafi verið haft við það. Þeir, sem voru í nefndinni, töldu sig hafa samband við fulltrúa bænda, höfðu samband við Búnaðarfélagið, og komu þeir tvisvar til fundar hjá nefndinni. Rætt var við þá um þau atriði er lutu að landbúnaði. Við töldum, sem vorum í nefndinni, að það hefði verið farið eftir þeim ábendingum sem þá komu fram. Það var og haft samráð og samstarf við fjölmarga aðra sem málið snerti. Við töldum að það hefði í öllum tilvikum eða langflestum verið reynt að haga málum þannig að menn gætu við unað. — Seinna, þegar nefndarstörfum var að ljúka í þeirri nefnd er undirbjó frv., kom fram sérálit frá fulltrúa Heilbrigðiseftirlits ríkisins og voru allir aðrir nm. á því að ekki bæri að taka tillit til þess. Heilbrigðisnefndir víða um landið hafa ekki gegnt því hlutverki að vera eftirlitsaðili hvað varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Því taldi nefndin eðlilegt að ganga fram hjá áliti Heilbrigðiseftirlitsins.

Það kom fram áðan hjá einum ræðumanna að ástæða væri til að fresta frv. Ég tel að þá fari mjög miður, vegna þess að hér er um samkomulag að ræða milli aðila vinnumarkaðarins. Ég tel að það sé nauðsynlegt að frv. verði afgreitt einmitt nú næstu daga. Tel ég að ef það verður gert komi það til með að greiða fyrir þeirri samningagerð sem verkalýðsfélögin nú standa í.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um málið að sinni, en eins og ég sagði í upphafi var alger samstaða meðal manna um frv. og ég vona að svo verði á seinni stigum málsins. Ég lýsi yfir samþykki mínu við þær brtt. sem fram hafa komið. Ég er ekki alveg dús við þær allar, en tel ástæðulaust annað en að samþ. þær til þess að við getum haldið fullri samstöðu um þetta mál.