05.05.1980
Efri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Í framsögu minni fyrir nál. fyrr í þessum umr. fjallaði ég ekki um þær brtt. sem fram koma á þskj. 413, vegna þess að þá var ekki búið að gera grein fyrir þeim. En ég vil taka það fram í sambandi við það sem síðar hefur komið fram í umr., að n. varð sammála um að leggja fram þær brtt. sem ég gerði þá grein fyrir. Jafnframt áskildu einstakir nm. sér rétt til að flytja eða fylgja sérstökum brtt. sem fram kynnu að koma. Nú er það svo með allar brtt., sem eru á þskj. 413, að það var mikið um þær rætt í n. Við ræddum aftur og fram þar um allar þessar till. Ég held að segja megi að það hafi ekki verið beinn ágreiningur um þessi mál. En þó vildu menn ekki á nefndarfundunum tjá sig alfarið um að þeir væru allir sammála um þetta. Þess vegna tók n. þetta ekki upp í brtt. sem hún stóð öll að. Ég get hins vegar lýst því yfir fyrir mitt leyti, að mér sýnist við skoðun, og ég hef velt þessu mikið fyrir mér yfir helgina og síðustu daga, að ég geti einnig stutt þær brtt. sem hér eru fluttar af Þorv. Garðari Kristjánssyni o. fl.

Þar er t. d. fyrsta brtt. um að stjórn Vinnueftirlits ríkisins geti ekki rift samkomulagi sem aðilar vinnumarkaðarins hafa náð sín á milli. Mér finnst það eðlilegt. Og við ræddum einmitt mikið að stjórn Vinnueftirlitsins ætti ekki að geta rift því samkomulagi. Ég fellst þess vegna á fyrstu brtt.

Aðra brtt., þar sem talað er um að ráðh. sé heimilt að skipta stofnuninni í deildir, finnst mér í sjálfu sér allt í lagi líka að fallast á, þó ég hefði hins vegar getað sætt mig við fyrirkomulagið eins og það var í frv.

Þá er þriðja brtt. Það atriði ræddum við einmitt mjög mikið, þ. e. um stjórnunina á stofnuninni og hvort bæta skyldi inn fulltrúum frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og til jöfnunar fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Við í n. töldum, þegar við vorum að ræða þetta mál síðast, að það væri réttast að halda sig við frv. eins og það var. En þó var ekki bein andstaða gegn því í nefndarstörfunum að fallast á að þarna kæmu þessir aðilar inn. Ég gerði þó grein fyrir því áðan, að við hefðum verið svolítið viðkvæmir fyrir því að breyta mikið eða gera róttækar breytingar vegna sambandsins milli þessa lagafrv. og kjarasamninga. Ég tel þó að allir hafi verið nokkurn veginn sammála um þetta og mundu þess vegna geta fallist á það líka.

Um fjórðu brtt. urðu að vísu nokkrar vangaveltur, varðandi það, að það, sem vanti á greiðsluáætlun Vinnueftirlits ríkisins, greiðist úr ríkissjóði. Ég held að við munum samt sætta okkur við að styðja þessa brtt. eins og hún liggur hér fyrir.

Fimmti liðurinn er um gildistökuna, sem ég gerði grein fyrir í dag. Og sjötti liðurinn er við bráðabirgðaákvæði. Það gæti ég líka mjög vel fallist á að samþ. Mér sýnist því að ég gæti staðið að þessum brtt. öllum.

Ég vildi gera grein fyrir þessu, þar sem ég ræddi ekki um þessar brtt. fyrr í dag.